Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 19:10:08 (4157)

1997-03-03 19:10:08# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[19:10]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig á því að ég hef misskilið hæstv. ráðherra eitthvað. Það kemur til af því að á síðasta ári sat ég í hv. sjútvn. sem þá fjallaði einmitt um þetta umgengnisfrv. Í umfjöllun þess í nefndinni komu fram býsna margar tillögur, misformlegar þó. Einhverjar náðu með ákveðnum hætti hér inn í þingsali um að lengra yrði gengið eða á annan hátt í þessum efnum en frv. og síðan lögin ganga út frá.

Það varð niðurstaða í nefndinni á þeim tíma að þeim hugmyndum sem þar voru reifaðar, þótt ekki væru allar formlegar, yrði stefnt inn í þessa umgengnisnefnd, vegna þess að fram kom að hún væri tilbúin og mundi velta þessum málum fyrir sér áfram. Ég hélt sem sé að þessar hugmyndir allar væru nú komnar í tiltekinn farveg og það væru að koma fram hugmyndir á grundvelli þeirra en ég sé að það er minn misskilningur. En ugglaust eru þessar tillögur þá hluti af því nesti sem nefndin núna hefur í þá vinnu sem ráðherra boðar að hún sé að fara í.