1997-03-04 13:52:01# 121. lþ. 83.95 fundur 229#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og breytingar á eignaraðild að henni# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[13:52]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að eins og staðan er í þessu máli, þá hafa stjórnvöld haldið þannig á því að Elkem hefur haft kverkatak á málinu. Elkem ræður verulega stórum hluta í fyrirtækinu og Elkem ræður markaðnum sem er aðalatriðið. Það er málið, það er vandinn.

Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er að ég tel rangt að setja hlutina upp eins og hæstv. ráðherra gerði áðan að hlutur Íslendinga í fyrirtækinu sé einskis virði. Með því að segja þetta úr þessum ræðustól er hæstv. ráðherra í raun að gefa Elkem óþarflega marga milljarða svo ekki sé meira sagt. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi að halda öðruvísi á málinu.

Ég vil fyrst og fremst, herra forseti, gagnrýna stjórnvöld í þessu máli fyrir að hafa gefið meira í skyn um öryggi og vissu þessara samninga heldur en rétt hefur verið að gera. Þau hafa gengið ótrúlega langt og að mörgu leyti haldið á okkar málstað með býsna niðurlægjandi hætti. Þau hafa gefið í skyn að þau væru tilbúin að afskrifa öll framlög Íslendinga í þetta fyrirtæki upp á milljarða króna. Þau hafa gefið í skyn að þau væru tilbúin til að semja um fjórða og fimmta ofninn. Þau hafa gefið í skyn að Elkem mætti eignast meiri hluta í fyrirtækinu og þrátt fyrir allt þetta gekk ekki neitt. Íslensk stjórnvöld höfðu í raun spilað öllu af sér í málinu, höfðu enga eða lélega samningsstöðu og núna bætti hæstv. ráðherra um betur með því að segja: Hlutur Íslands er einskis virði. Þetta er ofboðslega erfið staða, herra forseti. Það er ekkert skrýtið við þessar aðstæður að upp komi alls konar sérkennileg viðbrögð eins og mér finnst reyndar yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar benda til í þessu máli.

Ég tel að Landsvirkjun geti leyst þann vanda (Forseti hringir.) sem uppi er að því er hana varðar með þeim einfalda hætti að taka Sultartangavirkjun í notkun í tveimur áföngum. Það er hlutur sem hægt er að fara að undirbúa með (Forseti hringir.) eðlilegum hætti án þess að ana að neinu. Aðalatriðið finnst mér vera í þessu máli, herra forseti, að viðbrögðin séu ró og festa, ekki (Forseti hringir.) flumbrugangur. Keilisnes ætti að vera núv. hæstv. iðnrh. víti til varnaðar í þessu máli.