Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 14:11:41 (4166)

1997-03-04 14:11:41# 121. lþ. 83.5 fundur 381. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (félagsmálanefndir, ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[14:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um það frv. sem er til umræðu og þær breytingar sem hér eru lagðar til þó ekki séu þær nú mjög veigamiklar. Ég hygg að segja megi að þegar lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga voru sett 1991 hafi þar verið kominn vísir að heildstæðri félagsmálalöggjöf og ég held að í stórum dráttum megi segja að við framkvæmd þessara laga hafi vel til tekist. Hér er ekki um heildstæða endurskoðun að ræða eins og vísað er til í grg. eins og fram átti að fara þegar lögin voru sett, þ.e. fimm árum eftir að þau tóku gildi. Ég tel alveg fullgild rök fyrir því að þessi háttur sé hafður á eins og skýringarnar segja til um.

Vísað er til þess í grg. að um þrjár breytingar sé að ræða. Í fyrsta lagi skipan félagsmálanefndar en nefndin fer einnig með barnaverndarmál. Ég tel að sú breyting sé til bóta sem lögð er til. Einnig önnur breytingin, um skyldur sveitarfélaga til að bjóða upp á félagslega ráðgjöf, ég held að hún sé til bóta en hún er að mínu viti samt mjög óljós og kallar kannski á að framkvæmdin verði mjög misjöfn eftir sveitarfélögunum. Það er spurning í mínum huga hvernig hæstv. ráðherra lítur á það hvernig minni sveitarfélögin geti framkvæmt þetta ákvæði, þ.e. að halda uppi eða veita íbúum sveitarfélags aðgang að ráðgjöf um félagsleg réttindi. En hér segir: ,,... og einnig, ef mögulegt er, ráðgjöf í einkamálum``. Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Þetta er náttúrlega mjög opið. Þýðir þetta að verið sé að tala um almenna fjölskylduráðgjöf í sveitarfélögunum? Þýðir þetta ráðgjöf í barnaverndarmálum, t.d. eins og hér var til umræðu um daginn þegar verið var að ræða um kynferðislega misnotkun á börnum en þá kom í ljós að mjög mikið vantaði upp á það í sveitarfélögunum að slík ráðgjöf og aðstoð væri til staðar. Mun þetta eitthvað herða á því? Er ekki hætta á, að mati ráðherrans, að þarna verði um mismunandi aðstoð að ræða? Ég vil líka nota þetta tilefni til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi ýtt af stað vinnu í því sem hann talaði um hér fyrir nokkrum vikum þegar við ræddum um skýrsluna um kynferðislega misnotkun á börnum. Þar hafði hann á orði að hann teldi nauðsynlegt að vinna að því að fara að undirbúa stækkun á barnaverndarumdæmum og vil ég spyrja ráðherrann hvort sú vinna sé farin af stað. Ég held að það sé forsenda fyrir því að við getum haft sæmilegt skipulag á barnaverndarmálum að við höfum stærri barnaverndarumdæmi sem hafi þá allar forsendur til þess að bjóða upp á nauðsynlega ráðgjöf og aðstoð.

[14:15]

En ég vil víkja að þriðja atriðinu sem er greiðsla fjárhagsaðstoðar aftur í tímann. Ég hef nokkrar efasemdir þar um og spyr hæstv. ráðherrann nokkurra spurninga af því tilefni um 7. gr. Það er alveg ljóst, eins og fram kemur í 7. gr., að það vantar verulega upp á að sveitarfélögin hafi sett sér reglur um fjárhagsaðstoð, hvað þá að þessar reglur séu samræmdar hjá öllum sveitarfélögunum. Hér kemur fram að einungis 85 af 165 sveitarfélögum hafa sett sér reglur. Ég minni á að í svari hæstv. félmrh. til mín á síðasta þingi þar sem ég spurði um reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga kom fram að fjárhagsaðstoðin er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum. Það var spurt um ákveðnar sambærilegar fjölskyldugerðir í sveitarfélögum og þar kom fram verulegur munur. Ef við tökum t.d. einstæða foreldra með tvö börn þá greiddi Reykjavíkurborg 67.000 á meðan Selfoss greiddi 40.000 og ef tekin voru hjón með tvö börn á framfæri sem voru í leiguhúsnæði þá var Reykajvíkurborg með tæp 50.000 kr. á meðan Selfoss var með 21.000 og þannig mætti áfram telja. Það er því rúmlega helmingsmunur á fjárhagsaðstoð eftir því í hvaða sveitarfélagi fólk býr. Kópavogur er með annað en Reykjavík o.s.frv. Þess vegna spyr ég ráðherrann að því og ég fagna því ef verið er að herða á því, ef ég skil málið rétt, að sveitarfélögin setji sér þessar reglur, hvort hann telji ekki rétt að beita sér fyrir því í lögum að til verði einhver samræmd lágmarksfjárhagsaðstoð þannig að ekki sé svona mikill munur á rétti íbúanna sem eru kannski í nærliggjandi sveitarfélögum eða víðar um landið. Ég held að þetta gefi vissulega tilefni til þar sem verið er að hreyfa þessu máli að spyrja hvort ekki sé rétt að hafa eitthvert lágmarksviðmið þannig að sveitarfélögin geti ekki farið niður úr öllu að því er varðar fjárhagsaðstoðina.

Síðan er, eins og talað er um, verið að takmarka greiðslur fjárhagsaðstoðar aftur í tímann. Í greinargerðinni stendur:

,,... reglur sveitarfélaga geta ekki þrengt almennan rétt sem í landslögum felst.``

Tryggingastofnun hefur sett sér ákveðið viðmið aftur í tímann og þeir úrskurða bætur aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár. Hér á að fara að miða við fjóra mánuði, að það megi ekki greiða lengur aftur í tímann en fjóra mánuði. Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að ég hef ekki haft tök á að kynna mér það: Er verið að takmarka hér eitthvað réttinn frá því sem verið hefur? Hefur fjárhagsaðstoð verið greidd lengra aftur í tímann hjá sveitarfélögunum en fjóra mánuði? Ég skil það svo að ef miðað er við almennan kröfurétt þá sé miðað við þegar þær aðstæður sköpuðust sem veitti viðkomandi rétt á fjárhagsaðstoð. Hann hefur kannski ekki áttað sig á því fyrr en löngu seinna en þá er metið hvenær það var sem hann átti rétt á þessari fjárhagsaðstoð og það getur auðvitað verið miklu lengra aftur í tímann heldur en fjórir mánuði, kannski sex mánuðir, eitt ár eða þaðan af lengra. Þá á samkvæmt landslögum að miða við þann tíma. Þess vegna spyr ég hvort ráðherrann þekki framkvæmdina, hvort það séu einhver dæmi þess að það hafi verið algengt að þetta hafi verið veitt lengra aftur í tímann en fjóra mánuði. Það sem ég velti fyrir mér er hvort þetta sé til bóta. Voru einhver sveitarfélög sem greiddu kannski ekkert aftur í tímann eða er verið að takmarka rétt sem fyrir var? Þetta held ég að sé nauðsynlegt að fá fram.

Ég vildi láta þetta koma fram við 1. umr. málsins og hefði einnig hug á að heyra í hæstv. ráðherra um það hvort hann telji tímabært að fara að undirbúa, eins og er þekkt víða í löndum sem við berum okkur saman við, heildstæða félagsmálalöggjöf, þannig að við hverfum frá þeim sérlögum sem verið hafa. Hvort hann telji tímabært að fara að undirbúa slíka lagasetningu. Ég veit að hún er flókin, yfirgripsmikil og viðkvæm á margan hátt en ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort eitthvað slíkt sé á döfinni um leið og ég ítreka fyrri spurningar mínar við þær greinar og breytingar á lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem hér eru lagðar fram.