Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 14:20:33 (4167)

1997-03-04 14:20:33# 121. lþ. 83.5 fundur 381. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (félagsmálanefndir, ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[14:20]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum sem ég mun leitast við að svara eftir því sem ég hef tækifæri til. Samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður sem ég ætla að vona, verður sveitarfélagi skylt, hvort sem það er stórt eða lítið, að útvega ráðgjöf ef ástæða þykir til. Frumkvæðið getur komið frá ýmsum aðilum, þeim sem þurfa á ráðgjöfinni að halda, sveitarstjórn, nágrönnum eða hvernig sem það yrði túlkað. Það er ekki gert að skyldu að ráða sérstaka ráðgjafa í hvert sveitarfélag heldur er sú skylda lögð á sveitarfélagið að útvega ráðgjöf teljist hennar þörf.

Hv. þm. spurði hvort stækkun barnaverndarsvæðanna væri farin af stað. Nei, svo er ekki. Það er í undirbúningi að vinna að því og ég vona að það komist á skrið áður en langt um líður. Ég tel mjög mikilvægt með tilliti til upplýsinga og uggvænlegrar þróunar sem við höfum orðið áskynja að stækka barnaverndarnefndirnar og gera þær öflugri heldur en þær eru.

Varðandi fárhagsaðstoðina aftur í tímann og fjárhagsaðstoð sem er mismunandi milli sveitarfélaga þá er alveg hárrétt að félagsaðstoð er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum. Það sést t.d. mjög glögglega í sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjárhagsaðstoð er hagað með ýmsu móti. En það ber líka að hafa í huga að aðstoðin getur verið ekki einungis með greiðslu til viðkomandi. Sums staðar er hún í formi mjög ódýrrar leigu. Það er ekki öll sveitarfélög sem greiða húsaleigubætur og svona mætti lengi telja. Nú vilja sveitarfélögin halda mjög í sinn sjálfsákvörðunarrétt og út af fyrir sig skil ég það en það er ekki tekið á því í frv. Það verður að bíða heildarendurskoðunarinnar sem fer fram á þessu ári og næsta að fá botn í það mál. Ég fyrir mitt leyti t.d. tel eðlilegast að húsaleigubætur væru greiddar eins í öllum sveitarfélögum. Ég teldi það langeðlilegast en það er veruleg andstaða við það í sumum sveitarfélögum að taka upp húsaleigubætur. Ég tel hins vegar að húsaleigubætur hafi sannað gildi sitt þannig að eðlilegt sé að halda þeim áfram. Ég tel líka að húsaleigubætur ættu að greiðast leigjendum hjá sveitarfélögum eða þ.e. fólki sem býr í íbúðum sveitarfélaga að minnsta kosti ef þar er ekki um ódýra leigu að ræða.

Hv. þm. spurði um greiðsluskyldu aftur í tímann. Ég held að það sé varla hægt að segja að verið sé að þrengja með þessu ákvæði. Það er verið að reyna að koma reglu á hlutina. Úrskurðarnefnd hefur í einhverjum tilfellum úrskurðað bætur lengra aftur í tímann en fjóra mánuði. Það má kannski segja að einhverjir hafi sótt sér rétt lengra aftur en fjóra mánuði en hins vegar hafa ekki nærri öll sveitarfélög verið rýmileg með þetta. Það hefur verið fyrirstaða að greiða aftur fyrir sig a.m.k. sums staðar. Ég tel þess vegna að eðlilega að ein regla gildi hjá öllum sveitarfélögum, að fólk geti sótt þetta fjóra mánuði aftur í tímann. Mér finnst að það sé ekki órýmilega stuttur frestur. Menn eiga að geta verið búnir að átta sig á því hvort þeir eru komnir í þröng á fjórum mánuðum þannig að mér finnst þetta ekki vera ósanngjarnt ákvæði.

Varðandi heildstæða félagsmálalöggjöf þá hef ég ekki hugleitt að beita mér fyrir því. Mér finnst næsta verkefni vera færsla á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og að fella þau inn í félagsþjónustulögin. Ég sé það ekki alveg fyrir mér svoleiðis a.m.k. á þessu kjörtímabili að við förum lengra. Það er áreiðanlega nokkuð flókið mál að sigla fyrir öll sker með félagsmálalöggjöf sem sjálfsagt er hægt að hafa víðtækari. Það eru líka mjög mismunandi viðhorf til félagsþjónustunnar í einstökum sveitarfélögum. Ég hef á tilfinningunni og hef reyndar vissu fyrir því að í sveitum landsins er miklu meiri tregða hjá fátæku fólki að sækja um aðstoð til sveitarfélagsins heldur en þar sem þéttbýli er meira. Gallup var með spurningavagn sem var beint að bændum og ég keypti tvær spurningar inn í þennan vagn. Með tilliti til upplýsinga sem fram komu í fátæktarúttekt Félagsvísindastofnunar háskólans þar sem í ljós kom að undir fátæktarmörkum væru 40% bændastéttarinnar. Fátæktarmörkin eru skilgreind þar sem helmingur af meðaltekjum. Þeir sem væru með undir helming af meðaltekjum í þjóðfélaginu væru undir fátæktarmörkum. Sama hvað meðaltekjurnar væru háar þannig að fátækt er kannski ekki nákvæmlega rétta orðið heldur er það fremur tekjubrestur eða eitthvað tekjustigstengt. Þær spurningar sem ég fékk inn í þennan spurningavagn voru tvær. Önnur var sú hvort viðkomandi fjölskylda hefði þurft að leita félagslegrar aðstoðar sveitarfélags á síðustu tveimur árum. Svarið var 2%. Sem betur fer voru ekki nema 2% sem höfðu á síðustu tveimur árum fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu.

Aðra spurningu setti ég þarna inn líka. Hvort börn eða unglingar viðkomandi hefðu orðið að hætta námi vegna fátæktar eða vegna fjárskorts. Þar var svarið skuggalegra. Á milli 8 og 9% aðspurðra höfðu orðið að láta unglinga sína hætta í námi vegna fátæktar. Nú er hér kannski ekki um mjög stóran hóp að ræða. Og þó. Ef við ímyndum okkur að bændafjölskyldurnar í landinu séu 3.000--4.000 þá er þarna töluverður hópur þar sem atgervi fær ekki að þróast eðlilega eins og við vildum sjá. Þetta er mikið áhyggjuefni og ég tel að þjóðfélagið komist ekki hjá því að líta á þetta atriði.