Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 14:36:57 (4169)

1997-03-04 14:36:57# 121. lþ. 83.5 fundur 381. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (félagsmálanefndir, ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[14:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fyrst síðustu spurningu hv. þm. Ég mun reyndar svara fyrirspurn frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um húsaleigubætur væntanlega í næsta fyrirspurnatíma, þ.e. á morgun. En í stuttu máli get ég sagt að það er unnið að endurskoðun laganna um húsaleigubætur eða sú vinna er að fara í gang og ég vænti þess að á haustþingi og endilega á næsta haustþingi þarf að afgreiða löggjöf um húsaleigubætur. Það verður að gerast í samráði við sveitarfélögin. Ég treysti mér ekki til þess að segja hér og nú hvernig sú löggjöf muni líta út. Ég mun leggja áherslu á það prívat og persónulega að húsaleigubætur verði í boði alls staðar og reyndar eins og hv. þm. nefndi er þarna mikið misræmi á milli sveitarfélaga.

Það er eitt atriði enn sem ég vil bæta við þessa upptalningu hv. þm. Það eru töluverð brögð að því að unglingar sem eru í námi í Reykjavík flytji heimilisfang sitt til Reykjavíkur ef viðkomandi sveitarfélag greiðir ekki húsaleigubætur. Ég veit t.d. um nokkra unglinga sem hafa verið heimilisfastir á Akureyri en hafa flutt lögheimili sitt suður beinlínis út af húsaleigubótunum.

Varðandi það að verið sé að þrengja rétt þá er ekki rétt að verið sé að taka fram fyrir hendur á sveitarfélögum sem vilja greiða lengra aftur í tímann. Það eru einstaklingar og væntanlega einstaklingar með mikið bein í nefinu og harðskeyttir einstaklingar sem hafa sótt sér í gegnum úrskurðarnefnd bætur lengra aftur í tímann. Mér finnst það ekki vera alveg sambærilegt hvort um bætur frá Tryggingastofnun er að ræða eða fjárhagsaðstoð. Bætur frá Tryggingastofnun geta t.d. verið tilkomnar út af örorku eða slysum og menn sjá þá kannski ekki hver þróunin verður. Menn geta lifað í voninni um bata. Stundum kemur hann og stundum ekki og mér finnst þetta ekki alveg sambærilegt.

Ég vil nefna að auðvitað getur hv. félmn. fjallað um þetta atriði eins og önnur í frv. og það kann að vera að hv. félmn. sýnist eftir skoðun að heppilegra væri að hafa þessi tímamörk einhvern veginn öðruvísi. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að það sé regla á hlutunum og samræmi í þessu á milli sveitarfélaganna. Þess vegna eru þessir fjórir mánuðir tilteknir. Ekki vegna þess að það sé endilega stóri sannleikur að það skuli vera fjórir mánuðir, heldur af því að það skulu vera ákveðin tímamörk þannig að öllum sveitarfélögum geti borið skylda til að greiða aftur í tímann eða að þau geti ekki komist hjá því.

Hv. þm. spurði hvað ég ætlaði að gera með þær upplýsingar sem komu út úr spurningavagni Gallups. Það vill svo til að strax og könnun Félagsvísindastofnunar lá fyrir, var þetta mál tekið til umræðu í ríkisstjórninni. Niðurstaðan varð sú að setja nefnd til þess að skoða tekjustöðu bænda. Hún verður skipuð af hæstv. landbrh. með aðild frá hæstv. forsrh. og mér og á að fara ofan í þessa tekjustöðu hjá bændum og hvað eiginlega sé til ráða. Við erum sammála um að þetta sé óviðunandi ástand. Það er e.t.v. hægt að hugsa sér að þeim fjármunum sem ríkissjóður veitir landbúnaðinum sé ekki sem hagkvæmast deilt. Mikið af þessum fjármunum er samningsbundið, en sumt eru ákvarðanir sem hægt er að hreyfa. Það hefur verið mjög mikill niðurskurður, mjög harkalegur niðurskurður á framlögum ríkisins til þessarar stéttar. Hún hefur orðið að búa við afar strangar framleiðslutakmarkanir þannig að það er ekki óeðlilegt að að henni þrengi, en óhjákvæmilegt er að líta á þetta atriði og um það eru allir sammála.