Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 14:44:43 (4172)

1997-03-04 14:44:43# 121. lþ. 83.7 fundur 284. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[14:44]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það sem hér er mælt fyrir, um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokkanna, er nú flutt í þriðja sinn. Það var áður flutt á tveim síðustu þingum en náði þá ekki fram að ganga. Flutningsmaður ásamt mér að þessu sinni er hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Frv. var fyrir tveimur árum til meðferðar í allshn. og var sent til umsagnar ýmissa aðila. Umsagnir bárust þá frá Ríkisendurskoðun og ríkisskattstjóra og var tekið tillit til ábendingar þeirra við endurflutning frv. á síðasta þingi. Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er ekki síst sá að gera fjármál stjórnmálaflokka opin og sýnileg og setja stjórnmálamönnum reglur í starfi sínu innan flokkanna. Leynd sem er í kringum fjármál stjórnmálaflokka er einungis til þess fallin að auka á tortryggni almennings í garð stjórnmálaflokka. Sama gildir ef leynd hvílir yfir háum styrkjum frá einstaklingum eða fyrirtækjum til stjórnmálaflokka. Hætta getur skapast í slíkum tilvikum á hagsmunaárekstrum sem leitt geta til óeðlilegrar afgreiðslu mála í stjórnsýslunni þar sem fáum aðilum er hyglað á kostnað heildarinnar.

Almennt er lítið vitað um fjármál stjórnmálaflokka hér á landi, enda eru þeir hvorki framtalsskyldir né skattskyldir, aðeins bókhaldsskyldir. Þó er greinilegt að mikið fjármagn fer oft og tíðum í gegnum fjárhirslur þeirra, ekki hvað síst í kosningabaráttunni. Auk frjálsra framlaga eru íslenskir stjórnmálaflokkar fjármagnaðir úr ríkissjóði og það knýr ekki síst á um að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokka og að reikningar verði birtir opinberlega.

Innan þings og utan hefur um langt skeið verið umræða um nauðsyn slíkrar lagasetningar eins og hér er gert ráð fyrir, en ekkert hefur orðið af því. Á árinu 1975 var málinu formlega hreyft á Alþingi með flutningi frv. sem Benedikt Gröndal lagði fram, en í því frv. var að finna ítarleg ákvæði um starfsemi stjórnmálaflokka, svo og reglur um fjárframlög þeirra. Frv. náði þó aðeins til stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis en ekki til sveitarstjórna eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, en það er í veigamiklum atriðum frábrugðið því frv. sem var flutt 1975.

Kvennalistinn lagði einnig fram fyrir nokkrum árum þáltill. um að skipuð yrði nefnd til að undirbúa löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka og jafnframt að nefndin legði mat á hvort rétt væri að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokka. Fyrir einu og hálfu ári eða tveim árum síðan, ég man það ekki nákvæmlega, skipaði hæstv. forsrh. nefnd til þess að fjalla um og undirbúa frv. til laga um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka og þá þætti sem slíkum stuðningi tengjast, ef ég skil verksvið nefndarinnar rétt en mér hefur aldrei verið nákvæmlega ljóst verksvið nefndarinnar. Það hefur satt að segja ekki mikið frést af starfi þessarar nefndar og því óskaði ég eftir að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þessa umræðu, m.a. til að svara nokkrum spurningum sem ég vil beina til hans.

Þó þetta frv. sé nú flutt í þriðja sinn hefur það litla efnislega umfjöllun fengið í hv. allshn. Þar er því ávallt borið við að nefnd á vegum hæstv. forsrh. sé að fjalla um málið. Það sýnir mér enn einu sinni veikleika löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu að Alþingi geti ekki haft sjálfstæða skoðun eða tekið afstöðu til mála nema þau komi frá ríkisstjórninni eða a.m.k. að hún leggi blessun sína yfir þau.

Nokkur umræða varð um þessa nefnd hæstv. forsrh. í allshn. þegar frv. var þar til umræðu, bæði 1995 og 1996. Það var helst að skilja á fulltrúa forsrn. sem mætti á fund nefndarinnar að nefnd hæstv. forsrh. mundi skila fljótt af sér. Því spyr ég hæstv. forsrh.: Hvað líður störfum þessarar nefndar? Hvert er nákvæmlega verksvið hennar? Tekur það til allra þeirra þátta sem frv. sem ég mæli fyrir kveður á um? Má vænta þess að frv. til laga um fjárreiður stjórnmálaflokka verði lagt fram á yfirstandandi þingi? Ég held, virðulegi forseti, að það sé nauðsynlegt fyrir framgang málsins í hv. allshn. að hæstv. forsrh. skýri nokkuð stöðu þessara mála vegna þess að það hefur vissulega hamlað starfinu í nefndinni, eins og ég sagði, að því er ávallt borið við að málið sé á leiðinni inn á þing frá hæstv. forsrh.

Það er auðvitað nauðsynlegt, virðulegi forseti, að þmfrv. jafnt sem stjfrv. fái efnislega og eðlilega umræðu í nefndum og þingið verði látið taka afstöðu til þeirra, en ekki sé vetur eftir vetur og þing eftir þing verið að vísa í einhver óljós nefndarstörf, að þar sé verið að fjalla þar um málið á vegum ríkisstjórnarinnar.

Eftir því sem ég hef haft spurnir af, þá hefur þessi nefnd ekkert fundað síðustu 5 eða 6 mánuðina sem sýnir mér að það virðist ekki vera mikill áhugi fyrir framgangi þessa máls. Mér er sagt að hún sé búin að vera í gagnasöfnun í 11/2--2 ár. Það er alllangur tími ef þetta er rétt. Ég vona að hæstv. forsrh. upplýsi okkur nú um aðra stöðu þessa máls.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það verður að finna þessu máli annan farveg ef það kemur ekkert nýtt fram í umræðunni hjá hæstv. forsrh. ef á annað borð er áhugi á því hjá stjórnmálaflokkunum á Alþingi að setja slíka löggjöf.

Eins og fram kemur í greinargerð með frv. hafa alls staðar á Norðurlöndum, að því er ég best veit, verið lögfestar reglur um fjárreiður stjórnmálasamtaka. Í Svíþjóð voru lögfestar reglur um ríkisframlög til stjórnmálaflokka árið 1972 og 1976 voru samþykkt lög um fjárframlög til stjórnmálaflokka bæði í tengslum við lands- og sveitarstjórnarframlög. Í Finnlandi voru árið 1969 lögfest ítarleg ákvæði um starfsemi stjórnmálaflokka, svo og fjárframlög til þeirra sem bjóða fram til þings. Þá má einnig benda á að í Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi og víðar hafa verið sett lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna en þar er sett þak á heildarkostnað sem má eyða í kosningabaráttunni sem er athyglisverð hugmynd og ég tel rétt að nefndin sem fær þetta frv. til meðferðar skoði sérstaklega. Slík bann rennir frekar stoðum undir það að árangur stjórnmálaflokka ráðist ekki alfarið af fjárhagslegum styrk þeirra og að staða þeirra að því er þennan þátt varðar í kosningabaráttunni verði sem jöfnust.

Þessar þjóðir hafa ekki látið sér nægja að setja ramma um fjárreiður stjórnmálaflokka heldur hafa sjónir manna beinst mjög að starfsemi stjórnmálamanna, embættismanna og stjórnsýslunnar í heild. Víða í Bandaríkjunum eru í gildi siðareglur sem taka til stjórnmálamanna og starfsemi stjórnmálaflokka almennt. Á Írlandi kom einnig fram sú tillaga í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar árið 1992 að þingmenn legðu í upphafi þings fram lista yfir öll störf sín og þátttöku í nefndum utan þings. Þegar þingið fjallaði síðan um málaflokka sem sköruðust á við starf eða hagsmuni viðkomandi þingmanns viki hann sjálfkrafa sæti. Í Kanada eru í gildi svipaðar reglur. Þar er þó ekki sérstaklega haft eftirlit með því að þingmenn gefi upp störf sín en komi hins vegar í ljós að tiltekinn þingmaður hafi brotið gegn reglunni á sá hinn sami það á hættu að missa þingsæti sitt. Slíkar hugmyndir hafa ekki mikið verið ræddar hér á landi, en það er full ástæða til að gefa þeim gaum við meðferð málsins á þingi.

Ég tel líka skynsamlegt a.m.k. að huga að því að settar verði siðareglur í stjórnmálum. Það er áhrifaríkt tæki til að vinna gegn spillingu á opinberum vettvangi og það er nauðsynlegt að gerðir opinberra aðila séu fyrir opnum tjöldum.

Það eru skiptar skoðanir um slíkt, en ég tel að í tengslum við þetta frv. sé rétt að nefndin a.m.k. fari yfir það mál.

Í greinargerð með frv. koma fram ýmsar ábendingar sem rétt er að allshn. skoði líka við umfjöllun málsins. Þar má nefna t.d. hvort hámark eigi að vera á leyfðum framlögum einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálasamtaka, hvort aðskilja eigi kosningastarf frá annarri starfsemi stjórnmálaflokka og setja eigi reglur um prófkjör, þar með talið um fjárhagslegan ramma þeirra, hvort takmarka eigi umfang auglýsinga í kosningabaráttu --- sem ég tel rétt að verði gert --- og hvort eigi að setja reglur um birtingu skoðanakannana rétt fyrir kjördag og hvort þingmenn eigi að leggja fram lista yfir öll störf og þátttöku í nefndum utan þings. Ég vildi sérstaklega spyrja og teldi áhugavert að heyra lauslega álit forsrh. á þessum hugmyndum sem reifaðar eru í greinargerð með frv. og skoðun hans á þeim atriðum sem ég nefndi, t.d. hvort takmarka eigi umfang auglýsinga í kosningabaráttu og hvort setja eigi reglur um birtingu skoðanakannana rétt fyrir kjördag og hvort þingmenn eigi að leggja fram lista yfir öll störf og þátttöku í nefndum utan þings.

Varðandi efnisatriði frv. vil ég einungis geta meginatriða, en ítarlega var gerð grein fyrir einstökum greinum frv. þegar mælt var fyrir því á tveimur síðustu þingum. Frv. er ítarlegt en í því er annars vegar settur almennur lagarammi um starfsemi stjórnmálaflokka og hins vegar er kveðið um fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Helstu atriði sem lúta að fjárreiðum stjórnmálaflokka eru þessi:

Stjórnmálasamtök verði framtalsskyld og gert að skila skattframtali, en reikningar þeirra skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og birtir opinberlega. Stjórnmálasamtökum verði óheimilt að taka við fjárframlögum eða ígildi þess frá einstökum aðilum sem fer yfir 300 þús. kr. á ári nema birt verði nafn þess styrktaraðila opinberlega. Víða í vestrænum löndum hafa verið lögfestar strangar reglur í þessu sambandi til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Gert er ráð fyrir að stjórnmálasamtök geti misst rétt sinn til ríkisframlaga brjóti þeir á einhvern hátt gegn ákvæðum laganna.

Í lokin vil ég geta þess, virðulegi forseti, að skv. 7. gr. laga nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, þá hvílir á stofnuninni sérstök eftirlitsskylda með samtökum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu. Þannig getur Ríkisendurskoðun krafist reikningsskila af samtökum, þar á meðal stjórnmálasamtökum, sem fá framlög eða styrki úr ríkissjóði í því skyni að rannsaka hvernig ríkisframlögum er varið. Það verður að gera ráð fyrir að Ríkisendurskoðun beiti þessari heimild sinni ef hún telur ástæðu til og til álita kemur að skylda Ríkisendurskoðun til að endurskoða ársreikninga stjórnmálasamtaka sem fá framlög úr ríkissjóði. Lög um Ríkisendurskoðun kveða hins vegar á um að endurskoðunarskylda stofnunarinnar er annars vegar bundin við eignarhald ríkisins eða þátttöku þess í greiðslum meginhluta rekstrarkostnaðar og þótt stjórnmálasamtök fái framlög úr ríkissjóði er starfsemi þeirra ótengd ríkinu og rekstri þess. Þess vegna er ekki talið rétt að Ríkisendurskoðun endurskoði ársreikninga stjórnmálasamtaka sem fá framlög úr ríkissjóði, enda eru ársreikningarnir endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum samkvæmt frv. Jafnframt er heimild til afskipta Ríkisendurskoðunar eins og áður er greint frá.

Þetta var í upphaflegu frv. Þá var gert ráð fyrir aðkomu Ríkisendurskoðunar að þessu leyti, en eftir ábendingar Ríkisendurskoðunar hefur upprunalegu frv. verið breytt í samræmi við þær.

Ég vil í lokin ítreka mikilvægi þess að sett verði löggjöf um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka sem er mikilvægt til að skapa traust milli stjórnmálamanna og fólksins í landinu. Ég lagði þetta frv. fram, ég man ekki hvorum megin við jólin það var, ég lagði þetta ekki fram í haust einmitt af því að ég hafði þær væntingar til hæstv. forsrh. að hann mundi leggja fram frv. á yfirstandandi þingi og vísa ég þá til fulltrúa hans sem hafði, að mig minnir í fyrravor, mætt á fund nefndarinnar og gefið þessar upplýsingar. Þess vegna beið ég með það, virðulegi forseti, í nokkra mánuði að leggja þetta frv. fram, en ég var orðin úrkula vonar með að hæstv. forsrh. mundi leggja þetta fram á yfirstandandi þingi. Þess vegna er frv. lagt fram aftur.

Um leið og ég ítreka spurningar mínar til hæstv. forsrh. legg ég til að frv. verði vísað til hv. allshn.