Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 15:29:51 (4179)

1997-03-04 15:29:51# 121. lþ. 83.7 fundur 284. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[15:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist nú þess út af síðustu orðunum að það var einmitt hv. þm. sem var á móti hækkunum til stjórnmálaflokkanna en sótti samt í það sjálf. Hún afneitaði því ekki fyrir hönd síns flokks sl. vor heldur sótti eftir því sérstaklega að fá það greitt sem hinir flokkarnir komu sér saman um en Kvennalistinn reyndi að slá sér upp á hér í þinghúsinu að hafa ekki staðið að. En Kvennalistanum hefði verið í lófa lagið að afsala sér þeirri upphæð og vera sjálfum sér samkvæmur sem flokkur.

[15:30]

Af því það var spurt um Sjálfstfl. sérstaklega þá hefur Sjálfstfl. sætt sig við að fá heldur lægri upphæð á hvern þingmann en aðrir flokkar fá. Sjálfstfl. hefur sætt sig við það. Við teljum hins vegar langréttustu regluna að það sé greitt fyrir hvern þingmann vegna þess að við eigum ekki hér í húsinu að vera að leiðrétta kosningaúrslitin eftir á sem kjósendur hafa ákveðið. Við höfum því talið að það væri langbest og eðlilegast að hafa þetta miðað við þingmannafjölda en við höfum sætt okkur við að Sjálfstfl. fengi heldur minna á hvern þingmann en aðrir flokkar.