Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 15:59:03 (4183)

1997-03-04 15:59:03# 121. lþ. 83.8 fundur 313. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[15:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa þáltill., sem hv. 8. þm. Reykv. er eini flm. að, sem fjallar um það að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Ég tel það geysilega mikilvægt að táknmálið fái viðurkenningu því það er allnokkur hópur Íslendinga sem hefur ekki annað tungumál en íslenska táknmálið. Og eins og kom fram hjá flm. þegar hann vitnaði í bréf frá umboðsmanni barna þá hefur hann einmitt beitt sér fyrir því að reyna að auka skilning stjórnvalda á því að fá íslenska táknmálið viðurkennt sem tungumál barna sem ekki geta tileinkað sér annað mál.

Mér finnst sérstaklega mikilvægt að benda á stöðu heyrnarlausra á meðan táknmálið er ekki viðurkennt og það hversu þeir eru háðir fjárlögum um þjónustu. Það kom einmitt fram hjá hv. 8. þm. Reykv. sem benti á það í fyrirspurnatíma í gær. Þó svo að vilji stjórnvalda sé skýr í málefnum þeirra eins og fram kemur í frv. sem liggur fyrir þinginu, frv. til laga um réttindi sjúklinga, en þar er kveðið á um það í 5. gr. að sjúklingum sem tala ekki íslensku eða sjúklingum sem nota táknmál skuli tryggð túlkun á upplýsingum, þá kemur þessi vilji stjórnvalda ekki fram við fjárlagagerð. Er nú svo komið að þessi hópur, sem ekki getur tileinkað sér annað tungumál en íslenska táknmálið, getur ekki nýtt sér heilbrigðisþjónustuna sem skyldi. Hann fær ekki túlkun, hvorki er hann leitar til heilsugæslustöðva né til sjálfstætt starfandi sérfræðinga, á göngudeilir sjúkrahúsa o.s.frv. vegna þess að fjárveiting kom ekki til þeirrar túlkunar við síðustu fjárlagagerð þó svo að félmrh. hafi séð til þess árin 1995 og 1996 að fjárveiting kæmi til þessarar þjónustu. Ég tel þetta mjög alvarlegt og er sannfærð um að þessi mál verða ekki fullkomlega tryggð fyrr en táknmálið verður orðið viðurkennt sem tungumál þessa fólks. Það eru mannréttindi og jafnréttismál þessara hópa. Við skulum muna að heyrnarlausir og heyrnarskertir eru skattgreiðendur eins og við hin og eiga rétt á því að hafa jafnan aðgang að þjónustu hins opinbera eins og við sem getum nýtt okkur hana án þess að til komi milliliðir eins og túlkar.

Ég hefði talið rétt að sú vinna sem lögð er til að unnin verði í þáltill. heyrði undir fleiri en menntmrh. Reynslan sýnir okkur að það þurfa fleiri að koma að þessum málum, t.d. félmrh., en undir hann heyra málefni fatlaðra, og heilbrrh., því það er greinilegt að nauðsynlegt er að þessir aðilar komi að málinu. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að það standi frammi fyrir því að fá ekki þjónustu eins og komið er í ljós með heilbrigðisþjónustuna núna. Ég get nefnt það að ég var á fundi í hádeginu hjá heilsugæslustöðvum hér í Reykjavík og þar kom til tals bréf frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, sem leitaði til heilsugæslustöðva um hvort þær ætluðu að greiða fyrir túlkun á heilsugæslustöðvum, en hún fæst ekki lengur greidd frá félmrn. Og á þessum fundi kom fram að þær mundu ekki sjá sér fært að greiða það. Heilsugæslustöðvarnar eiga við fjárhagserfiðleika að glíma og munu ekki greiða fyrir þessa þjónustu og þurfa að sækja fé fyrir þessa þjónustu til félmrn.

Ég held að þetta sé mál sem þarf virkilega að taka á og lýsi yfir fullum stuðningi við þáltill. Ég sting upp á að þarna komi að fleiri ráðuneyti eins og ég nefndi áðan. Það þarf að vera ljóst hverjir eiga að greiða fyrir þá þjónustu sem þessi hópur þarf að fá í kerfinu. Það er ekki nóg að þetta sé aðeins lagabókstafur, fjárframlög verða að fylgja í fjárlögum og það þarf að vera mjög skýrt.

Ég vonast til þess að ekki fari fyrir þessu máli eins og öðrum málum sem einstakir þingmenn eða stjórnarandstaðan hafa verið að flytja hér á þingi, að því verði vísað til nefndar og síðan út til umsagnar og síðan fái það enga frekari umfjöllun í þinginu, komi ekki einu sinni til atkvæða, því þetta er mjög brýnt mál sem þyrfti að taka á. Vegna þeirrar umræðu sem var hér í gær, um stöðu þeirra heyrnarlausu sem ekki fá túlkaþjónustu í heilbrigðiskerfinu, þá bind ég miklar vonir við að tekið verði á því máli því þar eru ýmsir komnir í mjög erfiða stöðu. Þeir geta ekki nýtt sér þá þjónustu sem veitt er þar og þarf að taka fljótt á því máli til að leysa þann brýna vanda sem þar liggur fyrir.