Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:06:44 (4184)

1997-03-04 16:06:44# 121. lþ. 83.8 fundur 313. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er oft sagt að það sé mikil árátta okkar þingmanna að vera að setja lög um alla skapaða hluti. Menn eiga að freista þess að setja sem fæst lög. Þeim mun færri lög sem sett eru þeim mun betur er að verki staðið, það er að verða niðurstaða mín eftir að hafa verið hér nokkur ár.

Hér kemur hv. þm. Svavar Gestsson og leggur til að unnið verði frv. til laga sem verði lagt fyrir þetta þing. Efni þessa frv. er að lögbundið verði að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra og heyrnarskertra hér á landi. Ég tel, herra forseti, að þetta sé ekki alveg jafneinfalt mál og hér kemur fram. Ég er alveg klár á því að vilji hv. þm. er mjög jákvæður og góður. En það er samt sem áður ekki einfalt að gera þessa hluti. Það er heldur ekki alveg sjálfsagt við fyrstu sýn. Maður þarf að kafa dálítið djúpt í þetta mál til þess að komast að raun um að raunveruleg sé þörf á þessu. Staðan er sú, eins og hv. þm. Svavar Gestsson gat um áðan í sinni ágætu framsögu, að það eru engin lög sem segja að íslenskan skuli vera viðurkennt móðurmál Íslendinga. Því eins og hv. þm. sagði, sem er gamall lappi og vitur þegar að þingstörfum kemur, þá er enginn sem getur bannað þingmönnum að taka skyndilega upp á því að tala tungum í ræðustól sem enginn skilur. Er það eitthvað sem bannar það annað en hefðin? Sennilega ekki. Og það er kannski ekkert sem starfsmenn þingsins hafa fyrir sér nema hefðina þegar þeir hafa, eins og dæmi eru um, meinað mönnum að leggja fram fylgiskjöl með frv. sínum á annarlegum tungum.

Hvers vegna er þá hv. þm. að leggja til að hér verði sett í gang vinna til að lögbinda að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra og heyrnarskertra? Það er vegna þess að í dag má draga í efa að þessi hópur, þótt lítill sé, hafi þann fortakslausa rétt sem hann ætti að hafa til þess að taka þátt í öllum gjörðum og verkum og athöfnum þjóðfélagsins til jafns við aðra sem ekki eru skertir að þessu leyti. Ég held að í þessu liggi kjarni þáltill. Ef það tækist að setja í framkvæmd lög sem segja fortakslaust að þessi hópur eigi að hafa sömu möguleika og aðrir til að taka eðlilegan þátt í gangverki þjóðfélagsins, þá held ég að jafnvel þó að fjármagnið kæmi ekki fyrst í stað þá værum við búin að setja siðferðilegan mælikvarða á það hvernig við viljum að þjóðfélagið komi fram við þetta fólk. Hér er í rauninni um mannréttindi að ræða og mannréttindi eru nokkuð sem ekki er hægt að semja um, er ekki hægt að gera neinar málamiðlanir um.

Á síðustu árum hafa menn í vaxandi mæli gefið gaum að mannréttindum minnihlutahópa eins og þess hóps sem hér um ræðir. Menn eru alltaf að komast að sömu niðurstöðu. Hún er sú að í gegnum árin hafi réttur þeirra verið skertur. Og þeir komast jafnframt að hinni niðurstöðunni, að til þess að upphefja þessa réttarskerðingu þarf fjármagn. Út af fyrir sig mætti alveg komast að þeirri niðurstöðu að það þyrfti engin lög til að viðurkenna táknmálið sem mál þessa hóps með því að lyfta því með fjármagni, með því að sjá til þess að menn framleiddu túlka og menn sköpuðu aðstöðu fyrir t.d. foreldra og aðra sem koma að uppeldi þessara barna til þess að læra táknmál. Að vissu leyti höfum við gert það. Ef ég man rétt er kominn a.m.k. partur af námsgrein til fyrrihlutaprófs hér við Háskóla Íslands sem lýtur að táknmálsfræði og túlkunarfræðum. Þar höfum við stigið mjög heilladrjúgt skref. Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. eftir að hafa hlýtt á hans mál og rennt í gegnum greinargerðina með tillögunni að það væri æskilegt að binda þetta í lög. Það væri jákvætt fyrir þennan hóp og þar með erum við búin að setja okkur siðferðilegt leiðarhnoða sem við eigum að fylgja í þessum efnum.

Þetta er í annað skipti á jafnmörgum dögum sem málefni heyrnarlausra koma hér til umræðu. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir drap á það í máli sínu áðan að það væri svakalegt að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að það skuli vera mögulegt í dag að heyrnarskert fólk, sem þarf að leita til læknis, til heilsugæslustöðva eða leita sér aðstoðar eins og við hin gerum kannski á hverjum einasta degi, skuli ekki vera öruggt um rétt sinn í þeim efnum vegna þess að það vantar fjármagn. Það blasir við að hver túlkuð klukkustund fyrir þetta fólk kostar 2.300 kr. og einhver þarf að borga það. Þetta fólk á ekki að greiða það vegna þess að það er einfaldlega grunnregla í því velferðarsamfélagi sem við höfum komið hér upp að þjóðfélagið greiðir þann kostnað sem meðfæddur galli eða galli sem með einhverjum hætti skapast síðar á lífsleiðinni veldur. Við eigum sem samfélag að greiða þennan kostnað. Samt sem áður blasir það við að þegar þessir einstaklingar þurfa að leita sér aðstoðar, t.d. hjá lækni, þá er það undir hælinn lagt hvort þeir verða að greiða gjaldið eða hvort það er velviljaður læknir eða forsvarsmenn heilsugæslustöðva sem senda reikninginn áfram. En það blasir við, eins og kom fram í umræðunni í gær, að fjármagnið til þessa liðar er upp urið. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu og nauðsynlegt að knýja á um það gagnvart stjórnvöldum að það sé lagt fjármagn í þetta. Þessi þáltill. er liður í að tryggja það varanlega til frambúðar. Ég er alveg viss um að þó að þáltill. yrði að veruleika og í framhaldi á því yrðu lögin samþykkt á þessu þingi þá mundum við samt þurfa að standa í einhvers konar barningi til þess að tryggja þetta fjármagn en það væri samt mikilvægt skref fram á við. Þess vegna styð ég þetta mál.

Það er einungis eitt sem mér finnst merkilegt við þessa þáltill. og það er þessi stöðuga trú hv. þm. Svavars Gestssonar á þeim ágæta manni sem situr í stóli menntmrh. Hann vill fela hæstv. menntmrh. að undirbúa þetta frv. Menntmrh. er hinn besti maður og hefur vit á mörgu en hann er önnum kafinn eins og við vitum. Hann þarf að eyða drjúgum parti síns dagsverks í að sitja við tölvuna og hamra út skoðanir sínar á gangi þjóðlífsins á internetið. Það kom líka fram hjá hv. þm. að hann hafði ekki meira en svo bærilega trú á því að undirtektir hæstv. ráðherra við málinu yrðu jákvæðar. Hann las upp bréf frá Þórhildi Líndal sem er umboðsmaður barna og hefur sýnt lofsvert frumkvæði í þessu máli með því að skora á hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir framgangi hins íslenska táknmáls. Hún þurfti að ítreka það bréf. Hv. þm., sem hefur lesið bréfið og leyft okkur að deila með sér parti af því, sagði að það væri eitt sem stæði upp úr í þessu bréfi og það væri fýla hæstv. ráðherra yfir að vera settur í þessa stöðu. Ég velti því þá fyrir mér hvort rétt sé að fela ráðherra sem er í fýlu, jafnvel þótt hann sé burðarmikill en ekki mjög kátur yfir málinu, að undirbúa málið. Er ekki miklu æskilegra að taka einhvers konar hóp manna sem koma að málinu með mismunandi þekkingu en tengjast því að einhverju leyti og fela þeim að vinna málið? Því eins og hv. þm. veit sjá augu betur en auga.