Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:15:04 (4185)

1997-03-04 16:15:04# 121. lþ. 83.8 fundur 313. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að auðvitað á samfélagið að greiða fyrir þessa þjónustu. Mig langar aðeins til að benda á það í framhaldi af máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að við sem þurfum ekki túlkaþjónustu, getum notað okkur heilbrigðiskerfið hvernig sem okkur þóknast. Við getum farið til sérfræðinga eins oft og við viljum og almannatryggingarnar borga alltaf hluta af kostnaðinum. Við getum farið til heimilislæknis. Við getum fengið ýmsa þjónustu í gegnum almannatryggingarnar og ég hefði talið rétt að það kæmi hér fram að þó að túlkaþjónustan heyri undir málefni félmrn. eða málefni fatlaðra þá tel ég það íhugunarefni hvort túlkaþjónustan eigi ekki að fást greidd í gegnum almannatryggingarnar því það er hluti af því að fólk geti nýtt sér heilbrigðiskerfið að fá túlkað það sem fram kemur hjá þeim sérfræðingum sem almannatryggingakerfið tekur almennt þátt í að greiða kostnaðinn við þjónustu hjá. Því held ég að það sé mikilvægt að það verði skoðað, af því það virðist vera erfitt að fá peninga í að veita þjónustu við heyrnarlausa og heyrnaskerta í heilbrigðisþjónustunni og jafnvel í félagskerfinu, að það verði þá jafnvel tekið inn í almannatryggingarnar að greiða þessa þjónustu. Eins og fram kom hjá hv. þm. kostar tíminn hjá túlki 2.300 kr. og það er ákveðin sérfræðiþjónusta sem þessi hópur þarf til að geta notað sér heilbrigðiskerfið.