Veiðiþol beitukóngs

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:23:33 (4187)

1997-03-04 16:23:33# 121. lþ. 83.9 fundur 343. mál: #A Veiðiþol beitukóngs# þál., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:23]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég flyt hérna ásamt nokkrum félögum mínum till. til þál. um að veiðiþol beitukóngs verði kannað. Þeir sem flytja tillöguna með mér eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem væntanlega mun flytja mál sitt hér á eftir og ræða ítarlega álit sitt á veiðiþoli beitukóngs, Rannveig Guðmundsdóttir, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Sighvatur Björgvinsson.

Í þáltill. er lagt til að Alþingi feli sjávarútvegsráðherra að láta gera úttekt á möguleikum til að nýta beitukóng hér við land. Úttektin skal fela í sér mat á því hvar tegundina er að finna við landið, veiðiþol og enn fremur æskilegar veiðiaðferðir en jafnframt er lagt til að hún taki til markaðsstöðu og aðferða til að markaðssetja afurðir úr beitukóngi.

Beitukóngurinn, herra forseti, svo ég geti þess lítillega í upphafi máls míns, er botnlægt lindýr sem einkennist af kuðungi úr harðri kalkskel sem dýrið myndar um líkamann. Hann hefur verið nefndur ætiskuðungur. Jón lærði kallaði hann bara kuðung og ég læt mér nægja að nota það orð.

Nú er ákveðið lag fyrir Íslendinga að reyna að efla veiðar á þessari dýrategund vegna þess að á síðustu árum hafa veiðar annarra þjóða brostið, sérstaklega hjá Frökkum sem löngum voru langumsvifamestir í veiðunum. Það má geta þess að árið 1990 var heildarveiðin um 12 þúsund tonn. Frakkar voru þá langumsvifamestir í veiðunum, voru að veiða u.þ.b. 10 þúsund tonn en þeirra hlutur hefur lækkað verulega. Það má nefna til að mynda að samkvæmt skýrslum FAO öfluðu þeir 6 þúsund tonna árið 1990 og nokkrum árum síðar var þetta komið niður fyrir þúsund tonn. Á þessum tölum má því sjá að veiðar þessarar mestu afla- og neysluþjóðar á beitukóngi hafa bókstaflega hrunið. Þessi aflabrestur hefur leitt til verðhækkunar á beitukóngi og þess vegna eru allar forsendur fyrir veiðum og vinnslu miklu hallkvæmari Íslendingum heldur en áður. Jafnframt þessu aflahruni Frakka hafa sprottið fram nýir og mjög vaxandi markaðir í Austur-Asíu. Það eru fyrst og fremst Japanar sem í vaxandi mæli kaupa beitukóng frá Evrópu. Kóreumenn hafa lýst sérstökum áhuga á að kaupa héðan beitukóng ef hann veiðist. Þessar þjóðir veiða þessa tegund í afar litlum mæli. Þær kaupa hana annars staðar frá og hafa t.d. beint viðskiptum sínum til Rússa en í kjölfar þess að blessaður kommúnisminn hrundi þá hrundu líka veiðar Sovétríkjanna gömlu og Rússa á beitukóngi. Hér er því margt sem leggst á eitt sem gerir það að verkum að það er lag fyrir þessa nýjung. Það má geta þess að ýmsar þjóðir okkur skyldar hafa gripið þetta tækifæri og stóraukið sínar veiðar. Ég nefni t.d. að byggðarlög í Írlandi og Wales hafa stóraukið veiðar sínar og haft góðan hagnað, skapað fjölmörg störf vegna þessa.

Gerðar hafa verið rannsóknir við Ísland sem benda til þess að það sé líkast til góður möguleiki á því að afla hérna talsverðs magns af beitukóngi. Sólmundur T. Einarsson fiskifræðingur og Karl Gunnarsson líffræðingur, báðir starfandi á Hafrannsóknastofnun, stóðu fyrir skipulegum veiðitilraunum á beitukóngi í Breiðafirði árið 1993 og niðurstöðurnar voru nægilega góðar til þess að þær voru lagðar fram í skýrslu á vettvangi Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar. Þar kom fram að þó að þeir hefðu valið veiðistöðvar án nokkurrar fyrirframþekkingar á svæðinu þá hefðu gildrurnar sem notaðar voru sums staðar gefið afskaplega jákvæða niðurstöðu. Tilraunaveiðarnar gáfu sums staðar kíló á gildru á sólarhring en upp í fjögur kíló. Ég tek það fram, herra forseti, að þetta voru gildrur sem voru lagðar algjörlega af handahófi. Fyrir nokkrum árum voru menn byrjaðir tilraunaveiðar á beitukóngi. Það voru fyrirtæki, bæði á Vesturlandi og Suðurnesjum, sem hófu vinnslu og markaðssetningu á beitukóngi hérna heima og erlendis. Starfsemin hlaut raunar bráðari endi heldur en til var stofnað. En síðan hefur það gerst, eins og ég hef rakið, að verðið hefur hækkað verulega.

Á þessum tíma var líka farið í nokkra leiðangra til þess að kanna beitukónginn, þar af einn umhverfis landið og niðurstaðan varð sú að þessa tegund er að finna miklu víðar en menn töldu. Þess vegna er líklegt að hér sé hægt að koma upp svolitlum veiðum sem gætu sums staðar skipt sköpum fyrir afkomu manna. Þegar ég segi þetta, herra forseti, þá hugsa ég ekki síst til þess að ég er einn af þeim sem hafa borið hag smárra báta fyrir brjósti. Ég er einn af þeim sem kalla má Grímseyjarkommúnista. Ég fylgdi í fótspor Jónasar Árnasonar og Stefáns Jónssonar, sem hér sátu forðum á þingi og voru þeirrar skoðunar að það væri farsælast fyrir framtíð Íslendinga að reyna að efla smábátaútgerð á Íslandi. Og það er margt sem hnígur að því að það væri auðvelt að halda úti veiðum á beitukóngi með gildrum sem lagðar væru af smábátum. Ég tel, herra forseti, að hér gæti verið um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir smábáta sem búa við ónógar veiðiheimildir og sem búa við frekar þrasgjarnar og leiðinlegar ríkisstjórnir sem æ ofan í æ hafa reynt að þrengja kosti þessara báta. Ef vel tækist til, herra forseti, þá gætu þessar veiðar orðið mikilvæg aukageta fyrir smábáta, gætu rennt stoðum undir afkomu þeirra. Og þess vegna tel ég, ekki síst með hliðsjón af þessum möguleikum, að það sé brýnt að hraða rannsóknum á möguleikum til að veiða og afsetja beitukóng. En við verðum að vara okkur á því að fara ekki of geyst í dæmið. Við höfum fyrir okkur t.d. að menn fóru kannski fullgeyst í veiðar á nýrri tegund, ígulkerum, og þróunin varð ekki jafnjákvæð og við hefðum viljað. Við þurfum að gæta þess að stofnum beitukóngs verði ekki ofboðið og við þurfum að finna heppilegar aðferðir til þess að afsetja afurðirnar. Sérstaklega vegna þess að ég hygg að í framtíðinni verði þetta fyrst og fremst nýtt af smáum útgerðarmönnum á smáum stöðum. Við þurfum að aðstoða þessa framtakssömu einstaklinga til þess að finna hentugar aðferðir til þess að veiða tegundina og koma afurðunum í lóg á góðu verði.

[16:30]

Herra forseti. Íslendingar hafa lengi þekkt beitukónginn og hafa lengi notfært hann sér til framdráttar á ýmsum sviðum. Í gömlum íslenskum ritum er víða getið um kuðungaát og ég tel að það sé ekki hægt að ræða beitukónginn hér án þess að geta til að mynda þess sem Jón lærði Guðmundsson, sannkallaður fjöllistamaður og fjölfræðingur á fyrri hluta sautjándu aldar, skrifaði um þetta. Jón þessi var auðvitað snillingur. Hann var kallaður Jón tannsmiður, ekki bara Jón lærði. Hann var auðvitað galinn eins og flestir bærilega góðir vísindamenn en hann var einhver fyrsti náttúruvísindamaðurinn sem að kvað. Hann skrifaði merka texta um náttúrufræði sem hafa til þessa dags verið vanmetnir. En hróður hans fór samt svo víða erlendis að fremstu vísindamenn í álfunni stóðu í bréfaskriftum við þennan ágæta mann til þess að fá upplýsingar um ýmislegt sem laut að náttúru Íslands. Hann dvaldist um hríð í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði vestra en einmitt á þeim slóðum nýttu menn mest beitukóng til átu fyrr á tímum og það er líklegt að Jón lærði hafi kynnst þar kuðungaáti en því lýsir hann með svofelldum hætti, með leyfi forseta:

,,Meistarar nýta það og fleira af vorum ætum kuðungum, að þeir brenna þá með fiskinum svo glóandi verði og slökkvi í uxaþvagi, og láti neyta í mat og drykkjum svo að hún eða hann ekki viti. Það varnar píku karlmannafari og svo lauslætismönnum óhóflegri kvensemi. Svo og einnig líka ganga sjósóttarmenn í fjöru leynilega og svelgja hráan fiskinn úr honum 3 sinnum, með vaxandi og svo þverrandi tungli með litlum sjósopa.``

Herra forseti. Hér talar gamall lærdómsmeistari sem væntanlega af eigin skinni og af sínu nágrenni hefur fundið út að þetta merka dýr er hægt að nota við alls konar aðstæður. Það er hægt að slá á bæði brímandi losta holdsins og það er líka hægt að lækna sjóveiki með þessu kynjadýri. Hérna áður fyrr þótti þjóðráð að nota beitukónginn líka í smyrsl sem var búið til úr ösku kuðungsins eða muldum krabba sem var blandaður hunangi. Þessi áburður úr kuðungum, ösku og smjöri var líka talinn græða brunasár. Þannig að þetta er til margs nýtanlegt, herra forseti. Það má líka geta þess að hjá Jóni lærða er sennilega að finna fyrstu íslensku lýsinguna á ákveðinni tegund skelfiskseitrunar sem lýsir sér þannig að ef menn éta of mikið af beitukóngnum þá geta þeir dofnað upp og mega tæpast mæla og um þetta farast meistara Jóni svofelld orð, með leyfi forseta:

,,Ef menn þá éta mikið af þeim, verða þeir sem fordrukknir menn svo þeir standa ekki. Það köllum vér kuðungariðu, og má af sér sofa.``

Herra forseti. Þetta hlýst að sjálfsögðu af því fræga eitri sem er að finna í kirtli beitukóngsins sem er áfastur skráptungu og sem hann getur notað til þess að bora í gegnum mjög harðar skeljar og þess vegna getur verið varasamt að borða kuðunginn í of miklu magni í einu. Og ég tek hv. þm. sérstakan vara fyrir að leggja sér of mikið af honum ferskum til munns. En þegar hann er unnin þá er hann unnin þannig að skráptungan og kirtillinn er skorin frá.

Herra forseti. Ég gæti sagt ýmislegt meira um þessa ágætu dýrategund en ég hef rakið það hér að hún hefur áður verið Íslendingum til nytsemdar og aftur og aftur rekum við okkur á það að forfeður okkar kunnu að nýta náttúruna miklu betur en við. Þeir lærðu að búa til úr henni ekki bara sérkennilega góðan mat heldur líka hvers kyns lækningasmyrsl. Og aftur og aftur erum við að uppgötva það sem þeir vissu.

Herra forseti. Hér er ég að leggja til að við förum í rannsóknir á veiðiþoli beitukóngs og reynum að gera okkur mat úr honum en ég hef líka rakið það að meistari Jón lærði, mestur náttúruvísindamaður síns tíma, gerði þetta auðvitað árum saman og skrifaði um þetta. Þannig að hér er ekkert nýtt á ferðinni en það er jú háttur okkar þingmanna að reyna að finna upp hjólið eins hægt og kostur er.