Veiðiþol beitukóngs

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:56:19 (4191)

1997-03-04 16:56:19# 121. lþ. 83.9 fundur 343. mál: #A Veiðiþol beitukóngs# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:56]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nokkuð rétt til getið hjá hv. þm. að ekki var veitt það fjármagn sem Alþingi þó mælti með að yrði veitt til þessara mála af því að í svarinu á 116. löggjafarþingi kemur fram að það var sótt eftir því 1988 að fá sérstakt fjármagn og stöðuheimild fyrir náttúrufræðing til rannsókna á vannýttum hryggleysingjum. Fjmrn. féllst ekki á beiðni þessa. Var málið þá tekið upp við fjárveitinganefnd á haustmánuðum 1987 en fékk ekki úrlausn. Sérstök fjármögnun til þessa verkefnis hefur því ekki fengist. Þrátt fyrir það hefur Hafrannsóknastofnun reynt að stunda hluta þessara rannsókna eftir því sem þröng fjárráð hafa leyft. --- Þetta var tilvitnun í svarið.

Síðan fer fram lýsing á því sem gert hefur verið. Það er rétt í þessu samhengi að nefna einnig að það hefur verið í gangi mikið rannsóknaverkefni sem varða botndýr á Íslandsmiðum og yfirgripsmikið verkefni sem gengur undir nafninu Botndýr á íslensku hafsvæði, en það er samstarfsverkefni margra aðila sem þar er um að ræða til að kanna útbreiðslu botndýra á íslenska hafsvæðinu frá grunnsævi niður á 3.000 metra dýpi. Við höfum verið að fá fréttir af því öðru hvoru að það hafa verið að finnast nýjar tegundir, raunar fjöldi nýrra tegunda. Þetta verkefni er vísindalegs eðlis og tengist ekki beint hagnýtingu en skylt að minnast þess þegar við ræðum þessi mál og síðan aðeins vísa til þess að svo mikið af þessum lífverum sem finnast á botni eru hið mesta sælgæti. Og þó að ekki væri um að ræða mikinn afla er ég alveg sannfærður um að það er hægt að auðga framboð íslenskrar gastrónómíu t.d. bæði fyrir innlenda sem erlenda sem okkur sækja heim. Við skulum hafa Japana í huga, hvað þeir gera, hvílíkt gómsæti þar er að finna á borðum sem sótt er í greipar hafsins og Íslendinga hefði jafnvel hryllt við til skamms tíma. En nú eru menn orðnir hugaðri við þetta, bæði Íslendingar og aðrir, og við eigum að athuga nýtingu á þessu en þó í fyllsta hófi og með aðgæslu.