Veiðiþol beitukóngs

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:59:02 (4192)

1997-03-04 16:59:02# 121. lþ. 83.9 fundur 343. mál: #A Veiðiþol beitukóngs# þál., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:59]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er vafalaust miklu betur að sér í gastrónómíu erlendra þjóða heldur en ég þó að ég borði kannski meira en hann. En það er önnur saga.

Hv. þm. getur um verkefni sem er staðsett á Suðurnesjunum og lýtur að botndýrarannsóknum við hafsvæði Íslands. Það er eitthvert allra merkasta verkefni sem er í gangi í dag á sviði náttúruvísinda á Íslandi. Ég tók þátt í því sem umhvrh. að reyna að afla fjármagns til þess verks og ég fullyrði að það er fátt sem hefur skilað sér jafn vel inn í náttúruvísindi Íslendinga á síðustu árum og einmitt þetta.

Hv. þm. kom aftur að skortinum á fjármagni til rannsókna. Ég er honum hjartanlega sammála um að það er vísindum á Íslandi á þessu sviði verulegur fjötur um fót að það skortir fjármagn. Það er ýmislegt fleira þar sem okkur vantar fjármagn til þess að reyna að reyna að vinna aukið verðmæti úr greipum hafsins. Ég nefni t.d. gjörólíkt mál eins og línuveiðar á miklu dýpi, línuveiðar fyrir aðrir tegundir en við erum venjulega að veiða á línu. Þetta eru ýmsar þjóðir að gera þó hægt fari, kosta til þess verulega miklu fé og eru að uppskera mikilvægan ávinning núna. Við höfum ekkert fjármagn til þess að sinna svona rannsóknum og svo ég færi gjörólíkt svið inn í þessa umræðu, herra forseti, þá er þetta t.d. ein af ástæðunum fyrir því að ég er mjög hlynntur veiðigjaldi. Ég vil fá veiðigjald, og hef sagt það, til þess að standa straum af slíkum rannsóknum á nýjum tegundum, á nýjum veiðiaðferðum hér við Ísland. Ég held að það sé mjög erfitt fyrir okkur að afla fjármagnsins til þess með öðrum hætti. Við sjáum það að hv. þm. fékk samþykkta tillögu hér fyrir áratug síðan. Þingið samþykkti tillöguna en framkvæmdarvaldið kom ekki með fjármagnið. Svona er hægt að nefna einar tvær ef ekki þrjár tillögur síðan þá sem hafa verið samþykktar en fjármagnið hefur ekki komið.