Veiðiþol beitukóngs

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 17:03:52 (4194)

1997-03-04 17:03:52# 121. lþ. 83.9 fundur 343. mál: #A Veiðiþol beitukóngs# þál., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[17:03]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Þau mál sem hv. þm. drap á hérna eru einfaldlega svo yfirgripsmikil að þau hljóta að koma öllum við, hvort sem við erum að ræða hinn sameinaða jafnaðarmannaflokk eða aðra flokka á borð við hinn tiltölulega --- ja, hvað heitir hann, grænn kostur, sem heyrist hér í þjóðfélaginu að einhverjir menn vilji stofna. Ég skal ekkert um það segja.

Það sem hv. þm. var að segja í ræðu sinni áðan var þetta: Okkur skortir fjármagn til þess að stunda þessar rannsóknir. Hann fékk samþykkta tillögu í þinginu um að það ætti að fara í þessar rannsóknir. Þingið vildi það en framkvæmdarvaldið kom ekki með fjármagnið og við hljótum þá að velta því fyrir okkur hvernig hægt sé að afla fjármagns til þess að tryggja að svona rannsóknir fari af stað og þá ekki bara á þessari einu tilteknu tegund sem við erum að ræða hérna, heldur að ráðist verði í það verkefni sem hv. þm. hefur lýst sem mjög þörfu, og ég er honum sammála um það, að kortleggja botninn við Ísland, kortleggja þær botnlægu lífverur sem þar er að finna og sem gætu fært mikinn auð inn í okkar þjóðfélag.

Ég nefndi það, leyfði mér að flytja það inn í umræðuna, að eitt af því sem gerir það að verkum að ég er fylgjandi veiðigjaldi er m.a. það að ég vil nota það til þess að kanna slíka nýja möguleika.

Hv. þm. kom óforvarandis með annan möguleika, þó hann væri ekki að mæla með honum, að það væri möguleiki að ganga í Evrópusambandið og freista þess að gera þar út á sjóðabrunnana. Ég skal ekkert um það segja, herra forseti. Ég hef að vísu fylgt því máli, en ég er ekki í hópi áköfustu stuðningsmanna þess og ég tel að við getum alveg sjálf sinnt rannsóknum okkar á beitukóngi.

Að öðru leyti, herra forseti, vil ég þakka þessar umræður hér sem hafa sprottið af þessari tillögu minni og félaga minna um beitukónginn og hef lýst þeirri skoðun minni að ég yrði hæstánægður ef einhvern veginn tækist að koma henni til sjútvn. og frá henni aftur, e.t.v. í því formi að sjónum framkvæmdarvaldsins yrði ekki eingöngu beint að beitukóngi heldur líka öðrum botnlægum tegundum við Íslandsstrendur.