Brú yfir Grunnafjörð

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 17:29:52 (4199)

1997-03-04 17:29:52# 121. lþ. 83.11 fundur 374. mál: #A brú yfir Grunnafjörð# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[17:29]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar ráðist var í gerð jarðganga undir Hvalfjörð voru mjög skiptar skoðanir á því hvar göngin ættu að tengjast þjóðvegi 1 að norðanverðu. Tvær leiðir komu til greina, sú sem farin var, þ.e. austan Akrafjalls með tengingu við þjóðveg 1 við Laxá í Leirársveit, og svo hin leiðin vestan Akrafjalls og yfir Grunnafjörð. Sú leið er styttri og að mörgu leyti hentugri, tengir Akranes betur umferðinni að og frá göngunum og mundi bæta mjög samskipti á Akraborgarsvæðinu sem svo er stundum nefnt, þ.e. Akraness, Borgarbyggðar og hreppanna sunnan Skarðsheiðar. Margháttuð samskipti íbúa á þessu svæði hafa aukist mjög á undanförnum árum. Akurnesingar starfa í Borgarnesi og Borgnesingar starfa á Akranesi. Fólkið af þessu svæði sækir þjónustu, sjúkrahús og framhaldsskóla á Akranesi svo dæmi séu nefnd. En ástæða þess að leiðin austan Akrafjalls með aukavegi sem tengist Akranesvegamótum var valin var fyrst og fremst sú að Vegagerðin taldi hana miklu ódýrari og það sem nam hundruðum milljóna króna.

Hins vegar er það skoðun mín að til lengri tíma litið sé vestari leiðin álitlegur kostur og því sjálfsagt að gera hagkvæmnisrannsókn á gerð brúar yfir Grunnafjörð á milli Súlueyrar og Hvítárness. Verði það niðurstaða þessarar rannsóknar að brúargerðin reynist hagkvæm, þá verði gert umhverfismat. Það er reyndar skoðun sumra að erfitt gæti reynst að fá samþykkt umhverfismat vegna þessara framkvæmda, vegna viðkvæms náttúrulífs á svæðinu en allt þetta þarf að liggja fyrir þegar og ef að því kemur að brú yfir Grunnafjörð kemst aftur á dagskrá.

Ég vil taka það skýrt fram að þessi tillaga er á engan hátt flutt til að raska þeirri vegagerð sem áætluð er í Vesturlandskjördæmi á næstu árum. Framkvæmdir við vegtengingu frá Hvalfjarðargöngum eru í fullum gangi og gengur vel. Umferð um þann nýja veg hefst væntanlega á næsta ári og ýmsar vegaframkvæmdir aðrar eru á döfinni í kjördæminu sem munu ganga eðlilega fram þó að þessi tillaga verði samþykkt og þó að hæstv. samgrh. mundi fallast á að gera þá hagkvæmnisrannsókn sem þessi tillaga gerir ráð fyrir.