Notkun síma í bifreiðum

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 13:52:22 (4207)

1997-03-05 13:52:22# 121. lþ. 84.2 fundur 360. mál: #A notkun síma í bifreiðum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur

[13:52]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Það kemur hér fram að þeir hafa verið að hvíslast á, samgrn. og dómsmrn., um reglugerðarsetningu vegna þessara mála og eitthvað mun þetta hafa komið fram í ábendingum í útvarpsþáttum minnir mig að væri tiltekið hér, en einhvern veginn virðist þetta ekki hafa slegið í gegn þó að það hefði verið vel meint því að hvar sem maður keyrir um götur, stræti og vegi er nánast annar hver maður sem maður mætir að tala í farsíma.

Ég verð nú að bera hér fram þá frómu ósk að það muni fara að fæðast fótur hjá ráðuneytinu þar sem yrðu settar einhverjar mjög ákveðnar reglur um þessi mál sem reynt yrði að fara eftir. Það er ekki hægt að gefa sér það fyrir fram að það sé svo erfitt að fara eftir reglum að ekki þýði að setja þær. Ég á alla vega erfitt með að taka slíkum röksemdum.

Við Íslendingar erum hrikalegir símaskriðdrekar og tölum alveg óhugnanlega mikið í síma og miklu meira heldur en nokkur maður hefur gott af. Það væri sannarlega þjóðinni til góðs ef reynt væri að koma ákveðið á einhverjum takmarkandi reglum um hvernig nota ætti farsíma. Í ljósi þess að hér eru 50 þúsund farsímar í notkun, þ.e. einn á rúmlega fimm íbúa, þá finnst mér satt að segja mjög brýnt að settar séu reglur um þessi mál og helst strax.