Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 14:17:14 (4210)

1997-03-05 14:17:14# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, SvG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[14:17]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram, þakka honum, nefndinni og starfsmönnum hennar fyrir fagleg og vönduð vinnubrögð. Hún skapar möguleika til að hér fari fram skynsamleg umræða um málið í þessari virðulegu stofnun, en hún skapar líka möguleika til þess sem er enn þá mikilvægara, að gripið verði til ráðstafana og ákvarðanir verði teknar í framhaldi af þessari skýrslu sem geti breytt heimi sem lýst er í skýrslunni.

Ég vil einnig segja, áður en lengra er haldið af minni hálfu, að ég get út af fyrir sig tekið undir þá samantekt á eðli heimilisofbeldis sem fram kom í ræðu hæstv. dómsmrh. og skýrslunni. Hann lýsti því ákaflega vel. Ég verð þó að segja að ég tel að halda megi því fram að heimilisofbeldi sé sérstakt, algerlega sérstakt og afbrigðilegt og mér finnst að við ættum að ræða um það í leiðinni að hér er um að ræða að mörgu leyti eitt svartasta ofbeldi gagnvart einstaklingum sem hægt er að hugsa sér vegna þess að yfirleitt er um langtímaofbeldi að ræða. Oft um að ræða andlegt ofbeldi um mjög langan tíma sem brýst síðan út í líkamlegu ofbeldi og það er aðeins sá hluti ofbeldisins sem birtist í þeim niðurstöðum sem hér liggja fyrir. Það finnst mér mikilvægt að hafa í huga.

Mér finnst líka mikilvægt að hafa í huga, herra forseti, í sambandi við slíkt ofbeldi að það er svo afleitt viðfangs fyrir stjórnvöld vegna þess að það eru oftast nákomnir viðkomandi fórnarlambi sem beita slíku ofbeldi og þar af leiðandi er málið snúnara en nokkurs staðar annars staðar. Jafnvel höfum við séð dæmi þess í skrifum og rannsóknum undanfarinna ára að menn bera fyrir sig friðhelgi heimilisins í þessu efni sem er satt að segja hrikalegur hlutur en ég hef séð mörg dæmi um það í þeim ritum sem ég hef lesið um þessi mál.

Mér finnst líka nauðsynlegt að taka fram út af orðum hæstv. ráðherra að það er í sjálfu sér fagnaðarefni að sjá að konurnar leita til fjölskyldu sinnar, en líka er umhugsunarvert að oft á tíðum er um það að ræða að sambandið við fjölskylduna eða tengslin við hana verður skjól, verður til þess að loka málið inni í staðinn fyrir að fara með málið á þann vettvang sem það á heima. Að öðru leyti tek ég undir orð hæstv. ráðherra, eins og hann lýsti skýrslunni og endurtek þakkir mínar til hans fyrir fagleg, málefnaleg og vönduð vinnubrögð í þessu máli.

Á 117. löggjafarþingi lagði ég fram till. til þál. um rannsókn á ástæðum og afleiðingum ofbeldis gegn konum á Íslandi og flm. tillögunnar ásamt mér var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Í framhaldi af tillögunni var dómsmrh. falið að skipa nefnd er hefði það hlutverk að undirbúa og hafa umsjón með rannsóknum og ástæðum, afleiðingum og umfangi heimilisofbeldis, svo og annars ofbeldis gagnvart konum og börnum. Ráðherra skipaði síðan nefnd í málið með bréfi dags. 13. febr. 1995 og hann réð starfsmenn og nefndin réð starfsmenn til að sinna málinu og niðurstöðurnar liggja núna fyrir.

Þá er rétt að nefna það, herra forseti, að þessi könnun er einstæð í heiminum og það ber að halda því til haga vegna þess að aldrei áður hefur svona könnun verið gerð hjá heilli þjóð. Allar þær kannanir sem vitnað er til í skýrslunni, t.d. könnun Else Christensen sem nefnd er á bls. 8 í grg. náði aðeins til hluta dönsku þjóðarinnar og þær bandarísku kannanir sem gerðar hafa verið og vitnað er til að einhverju leyti í þessari skýrslu hafa náð til hluta viðkomandi þjóða. Hér er því auðvitað um að ræða, mér liggur við að segja heimsviðburð sem lýsir því að mörgu leyti hvað Ísland skapar mikla sérstöðu að því er varðar félagsfræðilegar rannsóknir. Ég held að skynsamlegt væri fyrir ráðuneytið, og mér liggur við að segja málefnið sem um er að ræða, að þessu yrði komið á framfæri annars staðar en hér, að heil þjóð, allir Íslendingar hafa í raun átt kost á því að taka þátt í þessari könnun eins og hún er lögð upp. Mér finnst mikilvægt að undirstrika að um tímamót er að ræða í rannsóknum á þessu máli sem reyndar kemur lauslega fram í skýrslunni en mér finnst nefndin óþarflega hógvær í að hæla sér og öðrum af því að hafa staðið svona að málum.

Það er því miður enginn kostur á því í mínu máli, herra forseti, að rekja einstök atriði úr skýrslunni, enda gerði ráðherra það ágætlega. Ég ætla bara að nefna eitt atriði áður en ég kem að því sem mér finnst að þurfi núna að gera. Ég ætla að nefna áhrif ofbeldis á börn. Ég held að nauðsynlegt sé að ræða það alveg sérstaklega hvað um er að ræða hrikalegan veruleika gagnvart þeim börnum sem þurfa að kynnast heimilisofbeldi hjá foreldrum sínum, feðrum sínum oftast. Börnin bera þess mjög oft merki árum og áratugum saman og jafnvel alla ævina að hafa lent í slíku. Mér finnst að tala eigi um að mikið þurfi að vanda sig við að sinna konunum, fórnarlömbunum, en sérstaklega þarf að muna eftir börnunum í þessu máli. Til dæmis þarf að kenna kennurum, leikskólakennurum og grunnskólakennurum að þekkja börnin sem koma frá ofbeldisheimilum.

Hvað á að gera í framhaldi af þessu? Ég hlýt að víkja að því næst, herra forseti. Ég tel að það sé eftirfarandi: Ég fagna þeim starfshópum sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég tel hins vegar að núna ætti að stofna það sem ég kalla þverfaglegt teymi í ráðuneytum dómsmála, menntamála, heilbrigðismála og félagsmála. Mér finnst að slíkt teymi eigi að gera tillögur um aðgerðir til viðkomandi ráðherra og viðkomandi stjórnvalda, t.d. sveitarfélaga og annarra um ýmsa mikilvæga þætti og mér finnst að svona teymi eigi að setja tímamörk. Hvaða tillögur gæti ég hugsað mér að kæmu frá svona teymi?

1. Tillögur um lagabreytingar ef nauðsynlegt er að gera einhverjar slíkar.

2. Tillögur um beinar aðgerðir ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga.

3. Beinar aðgerðir til að efla starf félagasamtaka sem sinna forvarnamálum og hjálparúrræðum. Ég er að tala um Rauða krossinn. Ég er t.d. að tala um Kvennaathvarfið, Samtök um kvennaathvarf og ég gæti nefnt fleiri dæmi.

4. Beinar tillögur um forvarnaaðgerðir með fræðslu í skólum, hjá félagasamtökum, hjá meðferðaraðilum og öðrum þeim sem skipta máli í þessu sambandi, fræðsla sem beinist ekki síst að því að kenna viðkomandi aðilum að þekkja fórnarlömbin hvort sem það eru börnin eða konurnar sem þar er um að ræða.

5. Ég vildi sjá frá slíkum hópi beinar tillögur um skipuleg hjálparúrræði fyrir þolendur heimilisofbeldis af hvaða tagi sem er.

6. Ég vildi sjá beinar tillögur um hjálparúrræði fyrir þá sem fremja ofbeldi af hvaða tagi sem er.

7. Ég vildi sjá beinar tillögur um hverjir kosta hjálparúrræðin fyrir einstaklingana þannig að fólki verði ekki neitað um aðstoð af fjárhagsástæðum, en þannig getur það verið nú. Ég bendi á í þessu sambandi, sem kannski fáir vita, að konurnar sem koma í Kvennaathvarfið borga yfirleitt ákveðna upphæð, að vísu ekki mikla, ég held að það séu um 1.000 kr. á dag, en það getur munað um það í mörgum tilvikum. Engri konu er að vísu vikið frá Kvennaathvarfinu vegna þess að hún geti ekki borgað þessa upphæð, en það er samt óþægilegt fyrir þá sem vinna þarna að þurfa að byrja á því að kanna hvort viðkomandi hefur greiðslugetu til að nota þá þjónustu sem þarna er um að ræða. Mér finnst sem sagt að taka eigi á þessum málum líka og fjármögnun stofnana eins og Kvennaathvarfsins.

Þessar sjö ábendingar vildi ég nefna, virðulegi forseti, um leið og ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir það hvernig að þessu máli er staðið.