Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 14:26:54 (4211)

1997-03-05 14:26:54# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, KH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[14:26]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem er til umræðu er engin skemmtilesning en hún er nauðsynlegt vinnugagn og ber að fagna henni og þakka þá miklu vinnu sem að baki henni liggur. Fæst í henni kemur þó á óvart heldur er hún staðfesting á flestu því sem haldið hefur verið fram um svonefnt heimilisofbeldi.

Það er hins vegar umhugsunarefni að það er aldeilis ótrúlega skammt síðan slíkt ofbeldi var alls ekki viðurkennd staðreynd í íslensku samfélagi og mörgum er enn í minni umræðan, sem var þegar Kvennaathvarfið var stofnað á sínum tíma fyrir um 15 árum. Þá vildu menn hreinlega ekki trúa eða viðurkenna að þörf gæti verið fyrir athvarf fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi á heimilum sínum, slíkt ætti bara við í útlöndum. Enn eiga margir erfitt með að horfast í augu við að slíkt eigi sér stað í jafnmiklum mæli og sagt hefur verið. Það er hins vegar staðfest í þessari skýrslu og nauðsynlegt var að fá þessa staðfestingu og greiningu sem er ein mikilvægasta forsenda þess að eitthvað sé aðhafst til úrbóta en það þurfa auðvitað að vera næstu skref í málinu.

Það er margt athyglisvert í skýrslunni en ég vil fyrst nefna að vafalaust skortir nokkuð á að allur sannleikurinn hafi komið fram. Það segir sig sjálft að margir eiga erfitt með að tjá sig um reynslu af því tagi sem hér um ræðir, ekki síst ef ofbeldismaðurinn eða ofbeldið er enn til staðar. Við getum rétt ímyndað okkur þær aðstæður að spyrill í símakönnun af þessu tagi, sem að baki skýrslunni liggur, hringi í konu og spyrji hana rétt sisvona hvort hún hafi verið eða sé beitt ofbeldi. Hún er ekki fjarska líkleg til að svara slíkri spurningu játandi ef ofbeldismaðurinn situr inni í stofu, jafnvel þótt hann sé ekki heima vegna þess að kona í ofbeldissambandi treystir ekki öðru fólki. Þetta þarf að hafa í huga þó ég ætli ekki að halda því fram að þetta rýri í raun gildi þeirrar könnunar sem skýrslan byggist á, alls ekki.

Það eru nokkur atriði í skýrslunni sem ástæða er til að undirstrika eins og reyndar hefur þegar verið gert en þessi atriði skipta miklu máli þegar tekið er á vandanum.

[14:30]

Eitt atriðið lýtur að viðhorfum gagnvart heimilisofbeldi sem almennt er enn þá litið öðrum augum en annað ofbeldi. Menn hafa í raun afneitað því og gera margir enn eða a.m.k. sýna því miklu meira umburðarlyndi en ofbeldi utan veggja heimilisins. Þó er í skýrslunni minnt á rannsóknir sem sýna að ofbeldi innan fjölskyldna er margfalt algengara en ofbeldi gegn ókunnugum. Sumir fræðimenn hafa jafnvel gengið svo langt að staðhæfa að fjölskyldan sé í flestum samfélögum ofbeldisfyllsta stofnun samfélagsins fyrir utan lögregluna og herinn eins og kemur fram á bls. 6 í skýrslunni og eru nú vafalaust ekki allir fúsir til að taka undir það. Það sem vitanlega einkennir heimilisofbeldi er að þolendur eru fyrst og fremst konur og börn. Ofbeldi er auðvitað alltaf ólíðandi en það er af ólíkum toga spunnið og sú staðreynd hlýtur að snerta okkur öll óþægilega að ofbeldi gegn körlum er oftast framið af ókunnugum körlum en ofbeldi á konum er framið af einhverjum körlum sem þær þekkja. Það er því einn forvitnilegasti hluti skýrslunnar þar sem reynt er að leita skýringa á orsökum ofbeldis karla gegn konum. Þar eru ýmsar kenningar á lofti svo sem áhrif ofbeldis í bernsku, samband áfengis og ofbeldis, streita, fátækt, atvinnuleysi, vanlíðan og almenn óánægja. Allar þessar ástæður eru alþekktar skýringar og því miður eru þeir furðu margir sem telja þær jafnvel til réttlætingar á ofbeldinu. Hins vegar eru sennilega færri sem vilja fallast á þá skýringu sem nokkuð er reifuð á bls. 25--26 í skýrslunni, þ.e. að ofbeldi innan veggja heimilisins sé afleiðing valdatogstreitu og sé notað sem tæki til yfirráða. Ég ætla að vitna til hluta á bls. 25 þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Þegar leitað er skýringa á ofbeldi á heimilum verður því ekki hjá því komist að tengja það völdum og stöðu karla og kvenna í hjónabandi. Þrátt fyrir formlegt jafnrétti er staða karla og kvenna ekki jöfn hvorki í þjóðfélaginu né í hjónabandinu. Hugmyndir um yfirburði karlmannsins, völd hans og styrk og höfuð fjölskyldunnar, hafa lengi verið ráðandi. Þau viðhorf eru enn fyrir hendi í þjóðfélaginu þrátt fyrir ýmsar breytingar á verkaskiptingu kynjanna. Karlar hafa að meðaltali hærri laun en konur, sitja í fleiri valda- og virðingarstöðum og hafa meiri áhrif en konur. Fjárhagsleg staða kvæntra karla er því sterkari en giftra kvenna og sá sem aflar teknanna hefur mest um það að segja hvernig þeim er varið. Í reynd eru valdatengslin í hjónabandi oft líkari sambandi hins sterka og veika fremur en jafnrétthárra einstaklinga.``

Áfram er fjallað um ofbeldi gegn eiginkonum sem gamalt fyrirbrigði og minnt á að í þjóðlöndum þar sem fjölskyldan nýtur verndar fyrir utanaðkomandi afskiptum þrífist innan hennar atferli sem lýtur öðrum lögmálum en almennt ríkja úti í þjóðfélaginu. Þetta fyrirkomulag henti þörfum karlmanna og ríkjandi þjóðskipulagi en beinist gegn hagsmunum kvenna. Og þannig þjóni ofbeldi sem konur eru beittar af eiginmönnum sínum þeim ákveðna tilgangi að viðhalda feðraveldinu og sýna valdastöðu karlmanna. Þetta þykir áreiðanlega mörgum óþægilegur lestur og bregðast jafnvel ókvæða við en það er óhjákvæmilegt að skoða þessa hlið málsins ekki síður en aðrar skýringar ef menn á annað borð vilja takast á við vandann. Og ég vil skora á hv. þm. að lesa þetta með opnum huga.

Það eru mörg fleiri atriði í skýrslunni sem vert væri að benda á og fjalla um en tíminn er klipptur og skorinn og ber að virða það. Helstu niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart. Við vissum það fyrir fram að heimilisofbeldi er vandamál í íslensku samfélagi en það hefur skort mikið á viðurkenningu þess að heimilisofbeldi eða ofbeldi yfirleitt gegn konum væri vandamál samfélagsins alls en ekki bara þeirra sem fyrir því verða. Það hefur verið og er enn að miklu leyti dulið vandamál sem margir veigra sér við að ræða og viðurkenna og á meðan svo er er erfitt að taka á því. Þess vegna er svo mikilvægt að fá þessa skýrslu fram og verður ekki ofmælt eða of mikil áhersla á því hvað hún er mikils virði.

Það er t.d. athyglisverð niðurstaða að hvorki menntunarstig, starfsstétt né tekjur veiti konum vörn gegn ofbeldi eins og fram kemur í þessari skýrslu. Jafnvel ekki aldur né búseta svo fyllilega marktækt sé, þó það virðist nú reyndar vera svolítill munur þar á einkum að því er tekur til búsetu. En þetta staðfestir bara enn og aftur hversu víðtækt vandamál hér er um að ræða sem fyrst og síðast snýst um samskipti kynjanna, snýst um valdabaráttu, skilningsleysi, vanmátt og virðingarleysi í samskiptum.

Ég vil líka benda sérstaklega á í þessu sambandi það sem kemur raunar fram í þessari skýrslu sem er mismunandi skilningur og viðhorf til ofbeldis eftir kynjum. Hún er greinilega lífseig klisjan um að kvenmanns-nei megi túlka á ýmsa vegu og að gagnkvæmt skilningsleysi leiðir oft til ofbeldis án þess auðvitað að það sé nokkur einasta afsökun fyrir ofbeldi. Það getur ekki verið það. Hitt er svo að það virðist sem kynin líti ofbeldi ólíkum augum, að karlar telji margs konar hegðun ekki ofbeldi sem konur sannarlega skynja og skilgreina sem ofbeldi. Þetta er mjög athyglisvert atriði sem ástæða er til að vinna með og það sýnir og undirstrikar þá niðurstöðu að það þarf að auka verulega fræðslu um ofbeldi og áhrif þess og það verður að hætta að líta á heimilisofbeldi sem einkamál heimilismanna sem falli utan ramma laganna eins og nú er í raun og veru.

Herra forseti. Við teljum okkur búa í lýðræðisþjóðfélagi og stefna að samfélagi jafnréttis. Það sem við ræðum hér í dag í tilefni af þessari skýrslu er ömurleg birting mannréttindabrota sem við getum ekki sætt okkur við og hljótum að leita allra leiða til að afnema. Ofbeldi gegn konum er vandamál samfélagsins alls en ekki eingöngu þeirra sem fyrir því verða. Í ofbeldi gegn konum birtist kvennakúgun í sinni grófustu mynd. Kvennalistinn hefur látið sig þessi mál miklu varða og ber þar hæst tillögu okkar og aðgerðir í framhaldi af samþykkt hennar til úrbóta í meðferð nauðgunarmála. Þar hafa orðið miklar breytingar til hagsbóta fyrir brotaþola þótt því miður hafi ekki dregið úr ofbeldi af því tagi. En áfram þarf að halda eins og kom fram í máli bæði hæstv. ráðherra og hv. síðasta ræðumanns sem ég tek vissulega undir. Við kvennalistakonur höfum nú í framhaldi af þessari skýrslu lagt fram tillögu um aðgerðir í framhaldi af þessari könnun og niðurstöðum hennar sem væntanlega verður dreift hér á borðin í dag og þar koma einmitt fram mörg þau atriði sem hv. síðasti ræðumaður minnti á. Ég hef því miður ekki tíma til að kynna það hér heldur verður það gert þegar mælt verður fyrir tillögunni.