Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 14:52:23 (4214)

1997-03-05 14:52:23# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, SvÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[14:52]

Svanhildur Árnadóttir:

Virðulegur forseti. Það mun hafa verið árið 1993 sem lögð var fram þáltill. á Alþingi um að gerð yrði rannsókn á umfangi, orsökum og afleiðingum ofbeldis gegn konum á Íslandi. Ég vil þakka dómsmrh. og öðrum sem að málinu hafa komið fyrir að niðurstöður þessarar rannsóknar liggja nú fyrir Alþingi til umfjöllunar.

Þessi rannsókn mun vera frumrannsókn á heimilisofbeldi hér á landi og reyndar benti hv. þm. Svavar Gestsson á að hún væri einstæð í heiminum þar sem hún næði til allrar þjóðarinnar. Ég tel hana mjög mikilvægt skref sem hefur verið stigið til þess að fá raunsanna mynd af tíðni og útbreiðslu ofbeldis og þar á meðal heimilisofbeldis hér á landi. Ákveðið var í upphafi að karlmenn yrðu einnig með í úrtakinu til að gefa rannsókninni víðari skírskotun og tel ég það vera af hinu góða með vísan til þess að það gerði samanburð á ofbeldishegðun karla og kvenna mögulegan.

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að heimilisofbeldi virðist ekki vera algengara hér á landi en annars staðar, en vandinn er fyrir hendi og þörf er á úrbótum. Rannsókn þessi sýnir að allt of margar konur hafa orðið fyrir ofbeldi einu sinni á ári af völdum núverandi eða fyrrverandi eiginmanns eða sambýlismanns og enn stærri hópur kvenna hefur mátt þola ofbeldi af völdum eiginmannsins oftar en einu sinni og bendir það til þess að þær búi við ofbeldi. Enginn þarf að velkjast í vafa um að afleiðingar ofbeldis eru hörmulegar fyrir þolendur og bent er á í skýrslunni að afleiðingarnar birtast í ýmsum myndum, m.a. lamandi ótta sem stigmagnast vegna stöðugrar hræðslu við að ofbeldið verði endurtekið. Athyglisvert er að niðurstöðurnar sýna að konur sem beittar eru ofbeldi leita fremur til fjölskyldna og vina eftir aðstoð en til hins opinbera hjálparkerfis samfélagsins. Niðurstöðurnar sýna enn fremur að stuðningskerfi fjölskyldna og vina á mikinn þátt í að styðja við bakið á þessum sömu konum. Í ljósi þessa er mikilvægt að fræðsla um ofbeldi nái til almennings alls.

Í rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum hefur verið sýnt fram á tengsl heimilisofbeldis, fátæktar og atvinnuleysis. Hins vegar sýna niðurstöður þessarar rannsóknar að ofbeldi á sér stað í öllum stéttum samfélagsins og háar tekjur virðast ekki veita vernd gegn því. En þegar leitað er skýringa á orsökum heimilisofbeldis sýna niðurstöður að engar einfaldar skýringar eru fyrir hendi, heldur er oft um flókið samspil margra þátta að ræða. Þó hlýtur fjárhagslegt og félagslegt öryggisleysi að vega þar þungt.

Einnig er sýnt að ofbeldi getur verið þáttur í yfirráðum eiginmanns yfir eiginkonu sinni eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir benti á og las upp úr skýrslunni á bls. 25. Þá kemur einnig fram að konur telja hluta skýringarinnar felast í áfengisneyslu og afbrýðissemi maka síns.

Ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist er alvarlegt vandamál. Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta að heimilisofbeldi hér er ekki minna en í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Því verður að leggja áherslu á að forvarnir og fræðsla nái til allra þar sem ein meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að ofbeldi fyrirfinnst í öllum hópum samfélagsins, enn fremur vegna þess að þær konur sem hafa verið beittar ofbeldi leita til fjölskyldu sinnar og sinna nánustu hvað varðar ráð og stuðning. Það er því mikilvægt að hið opinbera hjálparkerfi sé aðgengilegt fyrir þær konur sem þurfa á aðstoð að halda og þær viti hvert þær geti leitað með sín vandamál. Forvarnir og fræðsla verða ekki markvissar nema byggt sé á þekkingu. Því vona ég eins og aðrir sem talað hafa á undan mér að hér verði ekki látið staðar numið heldur verði markvisst unnið að því að útrýma ofbeldi í hvaða mynd sem það er þannig að það heyri sögunni til