Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 15:08:14 (4217)

1997-03-05 15:08:14# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, KH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[15:08]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Tíu mínúturnar eru svo fljótar að líða og ég leyfði mér að biðja aftur um orðið þar sem nokkuð er enn eftir af þeim tíma sem ætlaður var til umræðunnar í heild. Ég gat þess í lok ræðu minnar áðan að þingflokkur Kvennalistans hefði þegar lagt fram tillögu sem viðbrögð við þessari skýrslu en þeirri tillögu hefur reyndar ekki enn verið dreift á borðin. En mér finnst rétt þar sem tími gafst ekki til þess áðan að nefna þau atriði sem við teljum nauðsynlegt að hafa í huga og til hliðsjónar við mótun áætlunar um afnám ofbeldis gegn konum eins og tillaga okkar fjallar um. Þessi atriði eru níu talsins og þau eru talin upp í grg. með tillögunni og ég vil leyfa mér að nefna þau hérna. Þau eru þessi:

1. að fræðsla um ofbeldi og áhrif þess verði aukin verulega í skólum og meðal almennings, hvort sem um er að ræða kynferðislegt ofbeldi eða ofbeldi af öðrum toga,

2. að heimilisofbeldi verði skilgreint og meðhöndlað eins og annað ofbeldi,

3. að fræðsla fyrir lögreglumenn, lögfræðinga og dómara um kynferðisofbeldi og ofbeldi á heimilum verði stóraukin,

4. að markvisst verði unnið að því að fjölga konum í þeim starfsstéttum sem vinna við meðferð ofbeldismála, bæði hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum,

5. að kæruskylda hvíli á lögreglu og ákæruvaldi vegna ofbeldisbrota en ábyrgðin hvíli ekki á þolanda brotsins --- og þetta er mjög mikilvægt atriði,

6. að brotaþola sé skipaður málsvari allt frá upphafi rannsóknar til málsloka,

7. að lögreglu verði gert kleift að beita nálgunarbanni jafnhliða áminningu ef einhver raskar friði annarrar manneskju eða vekur henni ótta með ógnunum eða ofsóknum,

8. að tryggt verði fjármagn til reksturs miðstöðvar fyrir konur og börn sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi,

9. að komið verði á meðferðarúrræðum fyrir karla sem beita konur ofbeldi.

Mér þykir vænt um að hafa gefist tími til þess að koma þessu á framfæri. Mörg þessara atriða eru samhljóða þeim atriðum sem hv. 8. þm. Reykv. mælti fyrir áðan og ég vonast til þess að þessi tillaga okkar komi til umræðu hér á þinginu innan skamms.

Ég vil að lokum aðeins taka fram, herra forseti, að ég fagna mjög skilningi hæstv. dómsmrh. á því vandamáli sem hér um ræðir og ég fagna þeim viðbrögðum hans og aðgerðum sem hann kynnti í máli sínu áðan. Þau atriði eru svo sannarlega mikilvæg en það er nauðsynlegt að taka á málinu með víðtækum hætti og í samvinnu margra ráðuneyta sem málið varðar. Og sá er tilgangurinn með tillögu okkar sem við erum að leggja fram á Alþingi núna.