Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 15:15:18 (4219)

1997-03-05 15:15:18# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[15:15]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær mjög svo málefnalegu umræður sem hér hafa farið fram um efni skýrslunnar og niðurstöðu þeirrar könnunar sem nefndin gekkst fyrir sem skýrsluna vann. Það verður ekki í sjálfu sér tekið nógu djúpt í árinni um það hversu alvarleg mál eru hér til umfjöllunar. Ég hygg að það sé nokkuð rétt sem hv. 12. þm. Reykn. sagði í umræðunni að sennilega hafi menn sýnt heimilisofbeldi meira umburðarlyndi en öðru ofbeldi í þjóðfélaginu. Fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður, en það er þá ærin ástæða til þess að nota þær viðamiklu upplýsingar sem nú liggja fyrir til þess að reyna að breyta þeirri staðreynd og taka á þessu ofbeldi með sama og jafnvirkum hætti og öðru ofbeldi í þjóðfélaginu. Auðvitað er það vandasamt eins og hefur komið fram í umræðunni, en þau gögn sem hér liggja fyrir eiga að auðvelda okkur að takast á við það viðfangsefni.

Ég lýsti í upphafi þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið nú þegar af hálfu dómsmrn. um undirbúning aðgerða, bæði á sviði löggæslu og dómsmála til þess að bregðast við þessum niðurstöðum. Ég nefndi það einnig í upphafi að ástæða væri til að horfa á þessi viðfangsefni frá mun víðtækara sjónarhorni. Í umræðunni hér hafa komið fram ákveðnar hugmyndir um viðbrögð bæði af hálfu talsmanna Kvennalistans og eins mjög ákveðnar hugmyndir sem hv. 8. þm. Reykv. nefndi um samstarfsverkefni þeirra ráðuneyta sem hér koma helst að málum og tiltekin viðfangsefni sem þyrfti að glíma við í slíku samstarfi. Ég get mjög vel tekið undir slíkar hugmyndir og hygg að það yrði málinu til framdráttar ef slíku samstarfi á milli ráðuneyta yrði komið á til þess að taka á ýmsum þeim atriðum sem þar voru nefnd. Ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn til þess að beita mér fyrir slíku samstarfi á milli ráðuneyta því að það liggur í augum uppi að hér þarf mjög víðtæka skoðun og aðgerðir á mjög mörgum sviðum til þess að takast á við verkefnið.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka þakklæti mitt til hv. þingmanna fyrir mjög málefnalega umræðu og góðar hugmyndir varðandi framhaldsvinnu í þessum málum.