Sjóslys og mannskaðar

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:02:32 (4220)

1997-03-10 15:02:32# 121. lþ. 86.91 fundur 233#B sjóslys og mannskaðar#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:02]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti segja eftirfarandi:

Í stormviðrum undanfarinna daga hafa orðið stór áföll á siglingaleiðum Íslendinga. Traust hafskip hafa orðið að láta undan veðurofsanum. Síðastliðinn miðvikudag rak þýska farmskipið Víkartind upp í fjöru austan Þjórsárósa og aðfaranótt sunnudags sökk farmskipið Dísarfell á leið til Færeyja. Svo hörmulega tókst til þegar varðskipið Ægir reyndi að forða Víkartindi frá að reka á land að einn skipverja varðskipsins tók útbyrðis í hamförum sjávarins. Hins vegar vann áhöfnin á þyrlunni Líf það afrek að bjarga skipshöfninni á Víkartindi á land til björgunarsveita þar. Áhöfninni á þyrlunni Líf tókst einnig að bjarga tíu manns af skipshöfninni á Dísarfelli en harmsefni er að tveir skipverjanna létust. Við þessa atburði reyndi mikið á björgunarlið á sjó, landi og í lofti. Varðskipsmenn á Ægi lögðu sig í lífshættu við björgunartilraun. Björgunarsveitir biðu lengi viðbúnar í óveðrinu á ströndinni. Þyrluáhöfnin hafði farartæki sem dugði til björgunar mannslífa í óveðri og hafði áræði, þrek og kunnáttu til að bjarga giftusamlega 29 manns úr sjávarháska. Allt þetta björgunarlið á skildar þakkir og aðdáun og aðstandendum hinna þriggja látnu eru sendar samúðarkveðjur.

Ég bið hv. alþingismenn að taka undir lokaorð mín með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]