Kynslóðareikningar

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 16:21:18 (4234)

1997-03-10 16:21:18# 121. lþ. 86.9 fundur 299. mál: #A kynslóðareikningar# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[16:21]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar um gerð kynslóðareikninga er í alla staði athyglisverð og ber að fagna því að tilefni gefist til að ræða þau mál á hinu háa Alþingi. Í því sambandi má benda á og vekja athygli á að í umræðum um gerð fjárlaga hefur, a.m.k. á þeim tíma sem ég hef tekið þátt í þeirri umræðu, verið lögð aukin og ríkari áhersla á langtímasjónarmið við gerð fjárlaga og eins og kom fram hjá hv. flm. er í grg. með fjárlagafrv. fyrir árið 1997 fjallað um það sem nefnt er kynslóðareikningar og farið yfir hugmyndafræðina varðandi þá.

Það kom fram í framsöguræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. að hann tók undir og lagði áherslu á mikilvægi þess að vinnubrögð væru vönduð við langtímaáætlunargerð og nefndi þar rammafjárlagagerðina. Ég tek undir það. Það er mjög mikilvægt að stuðningsmenn séu sem flestir við þau vinnubrögð. Ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á stjórn mála nú hefur unnið á þessum forsendum, en lengra þarf að ganga. Það þarf að líta til fleiri ára og rammarnir þurfa auðvitað helst af öllu að vera til umræðu í þinginu en ekki einungis í ríkisstjórn og meðal stjórnarflokkanna til að sem best og vönduðust vinnubrögð séu og sem flestir komi að þeirri umræðu.

Kynslóðareikningarnir sem fjallað er um í þáltill. eru auðvitað komnir til umræðu og framkvæmda vegna þess að menn horfðu til þess með skelfingu að skattbyrðin hefur verið að aukast hjá mörgum þjóðum. Afleiðingarnar af vaxandi skattbyrði vegna stöðugs hallareksturs á viðkomandi ríkissjóðum hefur leitt til þess að vextir hafa hækkað og afkoma almennings hefur farið versnandi. Í því sambandi hefur verið litið til Bandaríkjanna þar sem þessir kynslóðareikningar hafa verið gerðir. Þar hefur verið vakin athygli á að komandi kynslóðir, að öllu óbreyttu, að óbreyttum lögum, að því óbreyttu að haldið verði áfram hallarekstri, að því óbreyttu að gerðar verði kröfur á ríkissjóð varðandi lífeyrisskuldbindingar og annað er varðar ríkisreksturinn, muni þurfa að taka við af núlifandi kynslóð, þurfi að standa undir mun hærri og meiri greiðslubyrði í formi skatta en þeir sem nú standa undir skattbyrðinni. Þetta eru þær staðreyndir sem litið er til þegar fjallað er um svokallaða kynslóðareikninga.

Nú er það viðurkennt í dag sem ekki var áður að stöðugleiki og hófsemi í ríkisfjármálum sé ekki lengur ávísun á samdrátt í hagkerfinu heldur hið gagnstæða. Áður héldu menn að með því að draga saman í ríkisbúskapnum mundi það leiða til samdráttar í hagkerfinu og það mundi valda vandræðum. Sem betur fer eru uppi aðrir skólar í hagfræðinni hvað þetta varðar og menn hafa áttað sig á að með því að hafa hóf á ríkisútgjöldum, með því að halda fast á og halda stöðugleika, þá sé það ávísun á vöxt í einkageiranum og aukinn hagvöxt almennt hjá þjóðunum þannig að það er ekki lengur talið af hinu verra að draga saman í ríkisbúskapnum.

Um það fjallar ekki þessi þáltill. Hún fjallar um þá hugmyndafræði kynslóðareikninganna og ég tek tekið undir það sem fram kemur í tillögu hv. þm. þar sem þeir gera ráð fyrir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning. Ég tel hins vegar að sá undirbúningur sé hafinn. Hann kemur fram m.a. í þeirri langtímaáætlunargerð sem kynnt var í fjárlagafrv. bæði fyrir þetta ár og það síðasta og á að geta lagt grundvöll að gerð kynslóðareikninga auk þess sem í tengslum við þá langtímaáætlunargerð vann Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki og fjmrn. að sjálfsögðu mjög mikilvægt undirbúningsstarf þegar reynt var að horfa til fleiri ára í tengslum við að vinna á grundvelli ramma fjárlagagerðar.

En hvað um það, hæstv. forseti. Ég tel að hér sé hreyft merkilegu máli sem ástæða er til að efh.- og viðskn. skoði mjög vandlega og ég fagna þeirri umræðu sem hv. 1. flm. þessarar tillögu hleypti af stað og ég vona að hér og í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar geti orðið gagnleg og nauðsynleg umræða um kynslóðareikningagerðina með það að markmiði að við náum betri tökum á ríkisfjármálunum, ekki bara í ár heldur á komandi árum. Það ríður á miklu þannig að við getum tryggt sem mesta og besta hagsæld fyrir þá Íslendinga og sem hóflegasta skattbyrði fyrir þá sem munu taka við því að standa undir velferðarkerfinu sem hér er og verður rekið.