Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:07:04 (4240)

1997-03-11 13:07:04# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:07]

Ólafur Örn Haraldsson:

Herra forseti. Strandi flutningaskipsins Víkartinds má skipta í þrjá höfuðþætti: Í fyrsta lagi aðdragandann síðustu 10 klukkustundirnar fyrir strandið. Í öðru lagi björgunina sjálfa og í þriðja lagi mengunarhættu sem nú vofir yfir og viðbrögð við henni.

Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir sýnist mér að við aðdraganda strandsins hafi bæði Landhelgisgæslan og Eimskipafélag Íslands brugðist við af þekkingu og ábyrgð en að lög hafi hindrað að hægt væri að grípa í taumana. Við hljótum að spyrja um gildi slíkra laga.

Þegar við lítum á björgunina sjálfa og síðasta björgunarafrek þyrlusveitarinnar og Landhelgisgæslunnar koma tvö orð fyrst í hugann: Þakklæti og aðdáun.

Þriðji þáttur strands Víkartinds er óleystur en það er björgun farmsins en ekki síður mengunarvarnir og hreinsun. Það er afdráttarlaus krafa að tryggingafélög og erlendir eigendur skipsins tryggi mengunarvarnir og aðgerðir á sinn kostnað og að skipsflak, farmur og rusl verði fjarlægt. Óvissa ríkti í upphafi um hver bæri ábyrgð og kostnað. Það tafði hreinsunarstarfið. En þó að slíkt sé alvarlegt gætum við staðið frammi fyrir mun alvarlegri umhverfismálum ef hér við suðurströnd Íslands færist olíuflutningaskip með þúsundir tonna af olíu með tilheyrandi afleiðingum fyrir lífríkið og markaðsmöguleika okkar Íslendinga.

Til þess að Alþingi fái nokkra yfirsýn yfir þetta mál vil ég leyfa mér að leggja hér fram sjö spurningar til ráðherra.

1. Beitti Landhelgisgæslan öllum tiltækum ráðum og heimildum til að grípa inn í þá atburðarás sem leiddi til strands flutningaskipsins?

2. Hvernig er hægt að tryggja íslenskum stjórnvöldum, svo sem dómsmrh. eða Landhelgisgæslu, eðlilegan rétt til íhlutunar ef skipstjórnarmenn þverskallast við ábendingu yfirvalda um yfirvofandi hættu og með slíku framferði stefna lífi manna í tvísýnu?

3. Þá bendi ég á að það eru miklar andstæður sem mætast þar sem í brimgarðinum veltist skip og farmur sem metið er á tvo milljarða kr. en í fjörunni standa sjálfboðaliðar í björgunarsveit sem hefur ekki einu sinni efni á að kaupa og reka eigin bíl, heldur verða björgunarmenn að sitja í eigin bílum meðan þeir sandblása í storminum. Er ekki rétt að framlag björgunarsveita og björgunarmanna verði metið sem skyldi?

4. Stafar hætta af siglingum flutningaskipa nærri landi þannig að of lítið svigrúm er til aðgerða ef þau rekur að landi vegna vélarbilunar eða annarra óhappa? Er ástæða til að setja fram reglur eða gefa út leiðbeinandi tilmæli um siglingaleiðir flutningaskipa sem sigla með ströndum fram? Eiga slíkar reglur að gilda sérstaklega þegar fluttur er hættulegur farmur, einkanlega olía eða eiturefni? Ættu slíkar reglur að taka mið af hrygningarstöðvum fiskstofnanna?

5. Hafa landslög eða hagsmunir erlendra skipaeigenda eða tryggingafélaga tafið eða hindrað aðgerðir til mengunarvarna eftir strand Víkartinds?

6. Er viðbúnaður íslenskra stjórnvalda nægur til þess að takast á við mengunarslys við strendur landsins? Nánar tiltekið: Er nægur búnaður fyrir hendi? Eru viðbragðsáætlanir öruggar? Er þjálfun mannskaps næg? Eru fjármunir til rekstursins nægir?

7. Gefa íslensk lög nægar heimildir til þess að grípa inn í ákvarðanir skipstjórnarmanna ef þær augljóslega geta leitt til stórfelldra mengunarslysa, spillt lífríki og hrygningarstöðvum og þar með markaðsmöguleikum í fiskútflutningi? Eru heimildir alþjóðasamninga til íhlutunar þær ýtrustu sem hægt er? Er þeim beitt í íslenskri lagasetningu?