Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:23:43 (4243)

1997-03-11 13:23:43# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:23]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. sem hér talaði áðan að þessi umræða fer fram í skugga þeirra þriggja sjóslysa sem orðið hafa á síðustu dögum. Ég vil fyrir hönd Alþb. votta þeim samúð sem misst hafa ástvini sína í þessum hörmulegu slysum. En um leið er í hugum okkar þakklæti til starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem hafa unnið frækilegt björgunarafrek. Það hefur einnig sýnt sig á undanförnum dögum hversu miklu máli það skiptir að eiga öflug björgunartæki. Við forðumst að hugsa þá hugsun til enda hvernig farið hefði ef öflug þyrla Landhelgisgæslunnar hefði ekki verið til staðar. En við erum um leið minnt á að úrbóta er þörf hvað varðar skipakost Gæslunnar.

Þingflokkur Alþb. og óháðra bað um umræðu utan dagskrár eftir strand Víkartinds og aðdraganda þess að skipið fór upp í fjöru. Fyrst og fremst var beðið um þá umræðu til þess að ræða þá spurningu hvort ekki sé rétt að auka völd Landhelgisgæslunnar eða annarra yfirvalda til þess að geta með afgerandi hætti gripið inn í atburðarás þegar augljós hætta er á slysi við strendur landsins.

Aðdragandi slyssins þegar Víkartindur strandaði var þannig að hefði Landhelgisgæslan haft slíka heimild hefðu meiri líkur en ekki verið á að afstýra hefði mátt svo alvarlegu slysi þar sem mannslífum var stefnt í hættu og hætta er á mengunarslysi sem valdið getur verulegum skaða á náttúru og dýralífi. Þessi atburður hlýtur að kalla á endurskoðun gildandi laga og reglna. Við hljótum að setja fram þá kröfu að innan tólf mílna landhelgi verði ótvírætt vald Landhelgisgæslunnar eða annarra yfirvalda til ákvarðanatöku varðandi skip í sjávarháska.

Ég vil því beina þeirri spurningu minni til hæstv. dómsmrh. og hæstv. samgrh. hvort þeir séu tilbúnir til að beita sér fyrir þeim breytingum sem til þarf. Skoðun yfirmanna Landhelgisgæslunnar hefur komið fram í fjölmiðlum síðustu daga. Þeir telja nauðsyn á að auka völd Landhelgisgæslunnar í þessum efnum. Þá hefur það komið fram að forseti Slysavarnafélags Íslands er sömu skoðunar, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, sem og formaður Sjómannasambands Íslands. Hér er um mikilvæga forvarnaaðgerð að ræða, fyrst og fremst með tilliti til þeirra manna sem vinna um borð í þeim skipum sem eru við strendur landsins, og einnig með tilliti til hættu á alvarlegum mengunarslysum. Ég vil því skora á hæstv. ríkisstjórn að breyta gildandi reglum hið fyrsta.

Virðulegi forseti. Hv. formaður umhvn. hóf þessa umræðu og beindi spurningum sínum m.a. til umhvrh. Ég kom á strandstað fimm sólarhringum eftir að slysið átti sér stað. Það kom mér vissulega á óvart að ekki virðist vera gerð tilraun til að hreinsa ströndina nema hvað tiltölulega fámennur hópur manna reyndi að tína saman hættuleg efni sem lágu á víð og dreif um sandinn. Aðkoman var vægast sagt ljót og veruleg hætta á margra kílómetra svæði sem stafaði af alls konar dóti og járnahrúgum sem lágu á sandinum. Fyrir utan hreina hættu á mengunarslysi sem gæti haft áhrif með allri suðurströndinni þá hlýtur að vera hætta á tjóni vegna foks. Engin tilraun virðist hafa verið gerð til að safna saman braki eða verðmætum hlutum í gryfju eða ganga þannig frá að sem minnst hætta sé á tjóni.

Samkvæmt fréttum fjölmiðla var fundað í umhvrn. í gær um aðgerðir gegn mengun, um forvarnir og hreinsun á rusli og reka. Áætlað er að byrja að dæla upp olíu í dag en þar er um margra daga verk að ræða. En þannig er mál með vexti að 1991 skipaði þáv. umhvrh., Eiður Guðnason, nefnd, aðgerðanefnd á sviði mengunarslysa. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar á hún að koma saman og meta hættu á mengun þegar slys hefur orðið og leiðbeina um viðbrögð og aðgerðir. Nefndin á að samræma störf hinna ýmsu stofnana sem að málinu koma, meta árangur að verki loknu og vinna um það skýrslu. Í þessari nefnd eiga sæti fulltrúar frá Hollustuvernd ríkisins, (Forseti hringir.) Hafrannsóknastofnun, Geislavörnum ríkisins, Náttúrufræðistofnun og fulltrúi ráðherra sjálfs. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hefur þessi nefnd ekki verið kölluð saman. Hvers vegna, er spurning sem ég beini til hæstv. umhvrh.