Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:49:35 (4250)

1997-03-11 13:49:35# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:49]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég tek undir samúðarkveðjur til þeirra sem um sárt eiga að binda vegna þeirra atburða sem orðið hafa undanfarna daga.

Hvað varðar þá umræðu sem nú fer fram finnst mér að gæta þurfi þess að þegar spurningar eru bornar fram hafi sá sem svarar, hæstv. forsrh., möguleika á að svara án þess að ganga undir hraðlestrarpróf eins og hér fór fram, þannig að svör fari ekki fyrir ofan garð og neðan af þeim ástæðum. Í rauninni hefði kannski þurft að taka þessi mál svolítið seinna til formlegrar umræðu innan þingsins. Ég tek undir óskir um skýrslu þegar sér fyrir endann á þessum atburðum varðandi Víkartind.

Í sambandi við meðferð stjórnvalda á málinu er það umhugsunarefni að 5. mars strandar skipið. Það er fyrst 9. mars sem ráðherra kemur á vettvang til að átta sig á aðstæðum. Mér finnst þetta óvenjulegt og hefði auðvitað verið hægt að standa öðruvísi að því þó hæstv. umhvrh. hafi verið erlendis þegar þetta gerðist.

Ég vil líka minna á, virðulegur forseti, að ég bar fram tvær fyrirspurnir til samgrh. og umhvrh. á síðasta þingi, þann 13. mars 1996, það er ekki ár síðan, um undirbúning vegna hugsanlegra slysa sérstaklega með tilliti til olíuflutninga. Þá kom m.a. fram af hálfu hæstv. samgrh. að starfshópur hefði verið að störfum sem hann rakti, tillögur hans og lauk máli sínu með því að segja: ,,Við munum að sjálfsögðu leggja áherslu á að fylgja þessu máli eftir og að skýrar reglur verði settar við ferðum þessara skipa hér við land.``

Nú sagði hæstv. forsrh. að ekki hefði tekist samkomulag, e.t.v. í þessum starfshópi, um málið. (Forseti hringir.) Ég vísa til svara ráðherranna við þessum fyrirspurnum í fyrra á síðasta þingi. Fróðlegt er að bera það saman við þær aðstæður sem nú eru og þá umræðu sem hér fer fram og það er satt að segja ekki í lagi, virðulegur forseti, að allt skuli nánast vera í uppnámi og menn skuli vera teknir í rúminu þegar kemur að strandi sem þessu (Forseti hringir.) við Ísland.