Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:09:06 (4258)

1997-03-11 14:09:06# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:09]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, 4. þm. Austurl., áðan vil ég ítreka það, sem raunar kom fram við fyrirspurn á sl. vori í sambandi við hvaða ráðstafanir séu líklegar til þess að draga úr líkum á strandi eða öðrum áföllum sem leitt geti til stórfelldrar mengunar vegna olíuflutninga við strendur landsins, að þá var starfandi um þetta samstarfshópur sem í áttu sæti fulltrúar opinberra stofnana eins og Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslu ásamt hagsmunaaðilum. Hinar opinberu stofnanir náðu saman um tillögur en á hinn bóginn voru hagsmunaaðilar ekki sammála um þau úrræði og niðurstaðan varð sú að áfram yrði unnið á þessum grundvelli.

Eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í dag hef ég ákveðið að þessi hópur skuli taka til starfa á nýjan leik. Þeir menn sem skipuðu þann hóp voru á öndverðum þessum vetri að vinna að álitsgerð um öryggi fiskiskipa þannig að þeim vannst ekki tími til þess að fara í önnur verk á meðan en þessi mál hef ég þegar tekið upp við Siglingastofnun og mun bréflega óska eftir því að flutningafyrirtæki, olíufélög og tryggingafélög komi að þessu máli.