Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:10:49 (4259)

1997-03-11 14:10:49# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), Flm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:10]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Umræða þessi fer fram í skugga þess að sjómenn hafa farist við Íslandsstrendur og m.a. við björgun Víkartinds. Samúð okkar allra er með aðstandendum þeirra sem hafa orðið fyrir þessum þungu áföllum.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. og öðrum ráðherrum sem hér hafa veitt svör og þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls. Aðalatriði framhaldsins er það að Alþingi og ríkisstjórn bregðist við því sem orðið er og kanni hvernig megi nýta ýtrustu heimildir alþjóðalaga til þess að verja íslenska hagsmuni, bæði hvað varðar umhverfismál og atvinnulíf en ekki síst að lífi íslenskra sjómanna sé ekki teflt í tvísýnu.

Ég hvet Alþingi og ríkisstjórn til þess að efla viðbúnað og setja skýra áætlun um viðbrögð við sérstaka mengunarhættu sem gæti orðið jafnstórfelld og lýst hefur verið með nokkrum orðum í umræðunni.

Þessi umræða sem hér var til stofnað með þeim spurningum sem ég setti fram varðaði ekki neitt af því sem að sjórétti snýr eða yfirheyrslum sem nú kunna að standa yfir heldur setti ég fram málefnalega afstöðu í spurningum mínum, spurningum sem varða löggjafarstarf og löggjafarhlutverk þingsins sem við sem hér erum getum ekki skorast undan. Þess vegna vísa ég á bug þeim ummælum sem hafa komið fram hjá nokkrum þingmönnum og læt það koma fram að ég tel það tvískinnung að gagnrýna það að ég fór fram á þessa umræðu, sérstaklega með tilliti til þess að sumir þessara manna fóru þess á leit við forseta að umræðan færi fram enda þótt þeir væru ekki málshefjendur.

Umhvn. fór á strandstað í gær og okkur er ljóst eftir þá skoðun að aðgerða er þörf. Ég hvet ríkisstjórn og Alþingi til aðgerða.