Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:13:13 (4260)

1997-03-11 14:13:13# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að ræða þessi mál hér. Þeir sem með störfum þingsins fylgjast telja það vafalítið óeðlilegt ef þingið hefði ekki látið málið til sín taka með þeim hætti að taka það á dagskrá sína og ræða það. Hins vegar er ljóst að það er viss hætta á því að svör sem gefin eru verði fremur yfirborðsleg við umræðu eins og þessa. Ég tek því undir þau sjónarmið að skynsamlegt sé að skila þinginu ítarlegri skýrslu um málið þegar niðurstöður liggja fyrir um það.

Það er hætt við því að í tilfinningahitanum kunni menn að varpa hér fram, ráðherrar sem aðrir hv. þingmenn, nokkuð vanhugsuðum athugasemdum og spurningum og er ekkert við því að segja. Það er fullkomlega eðlilegt en það er hætt við þegar málin verða skoðuð í meiri ró, við aðrar aðstæður, þá kynni niðurstaðan að verða önnur en hér. Við höfum um það rætt að setja reglur sem væru séríslenskar reglur og tækju ekki mið af alþjóðlegum reglum og venjum sem gilda um skipsferðir og forræði skipstjóra á skipi sínu. Ég tel hætt við að það yrði afar flókið að setja slíkar reglur og þær yrðu til þess fallnar að skapa rugling. Hvernig á skipstjóri sem siglir um heimsins höf að vita að þá fyrst þegar hann kemur í námunda við Íslandsstrendur gildi aðrar reglu heldur en gilda almennt og að alþjóðalögum og alþjóðasamningum um slíkar ferðir? Hvenær á sú ábyrgð að færast af hálfu skipstjóra skips yfir til skipherra Landhelgisgæslu? Hversu nálægt þurfa landhelgisgæsluskipin að vera komin að slysstað til að geta metið það betur en skipstjórinn o.s.frv. Oftast nær kemur skipherra Landhelgisgæslunnar og skip hans ekki á vettvang fyrr en eftir að hann hefur verið boðaður til slíkra aðgerða. Það er tilviljun að skipið kemur fyrr.

Annað sem er líka þýðingarmikið í þessari umræðu er að ekkert bendir til þess að Landhelgisgæslan hafi haft uppi einhverjar óeðlilegar kröfur eða nokkrar kröfur í sjálfu sér umfram það sem almennt er í gildi um björgunarlaun. Það liggur þegar fyrir í málinu að varðskipið hætti sér inn í brimgarðinn í ofsaveðri án nokkurrar athugasemdar eða beiðni um björgunarlaun og var þar í námunda við skipið við mjög óhugnanlegar aðstæður svo ekki sé meira sagt. En ég tek undir það sem hér hefur verið nefnt að það er skynsamlegt fyrir þingið að fá um þetta ítarlega skýrslu þegar mál liggja ljósar fyrir en nú er og dómstólar hafa farið með sitt hlutverk í málinu.