Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:52:05 (4269)

1997-03-11 14:52:05# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:52]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í ljósi þess að þetta frv. er fram borið af hæstv. viðskrh. Framsfl. og er stjfrv. í helmingaskiptastjórn Sjálfstfl. og Framsfl. þá þykir mér rétt að byrja þessa umræðu með því að rifja upp svolítið söguna af samstarfi þessara flokka á landamærum hins pólitíska og hins viðskiptalega valds í þjóðfélaginu. Það er ekki örgrannt um að ég haldi að hæstv. viðskrh. veiti ekkert af því að fá þá sögu aðeins rifjaða upp í upphafi umræðunnar, reyndar verðum við að gera hlé á henni, að sögn hæstv. forseta, klukkan fjögur vegna áríðandi utandagsskrárumræðu um hlut ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum, þ.e. að því er varðar skattatillögur hennar.

Ég ætla að byrja á því að rifja upp, virðulegi forseti, að hér á hinu háa Alþingi gerðist það í marsmánuði árið 1936 að kjörnir voru tveir fulltrúar af Alþingi í bankaráð Landsbankans. Þessi saga er rifjuð upp í merku söguriti Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings, þriggja binda verki hans um hinn mikla stjórnmálaleiðtoga Framsfl., Jónas frá Hriflu. Í þessum kosningum voru tveir menn kosnir í bankaráðið. Annar var Jónas Jónsson frá Hriflu, formaður Framsfl. Hinn var Ólafur Thors, formaður Sjálfstfl. Fyrir sat Jón Árnason, framkvæmdastjóri SÍS, og reyndar einn í viðbót, Helgi Bergs, forstjóri Sláturfélags Suðurlands. Síðan segir í þessu söguriti um SÍS og Kveldúlf, fyrirtæki Ólafs Thors: ,,Samanlagt skulduðu þessi fyrirtæki bankanum um 6 millj, kr. sem var nærri tvöfalt stofnfé hans.`` Enn fremur segir í þessari sagnfræði: ,,Á því herrans ári 1936 voru því fjórir af fimm bankaráðsmönnum langstærsta banka landsins fulltrúar þeirra þriggja fyrirtækja sem skulduðu einna mest í bankanum.`` Í nánari umfjöllun um þetta segir höfundurinn: ,,Á þeim degi gerðust þeir Heródes og Pílatus vinir`` --- og ályktar með eftirfarandi orðum: ,,Með kosningu Jónasar frá Hriflu, formanns Framsóknarflokksins, og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, í bankaráð Landsbankans 27. mars 1936 urðu þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Þar var stigið skref í átt til þess að þessir tveir stærstu flokkar landsins gætu starfað saman en grundvöllurinn var sameiginlegir hagsmunir í atvinnurekstri.``

Höfundur þessara orða, umræddur sagnfræðingur, fylgdi þessari könnun sinni eftir með sérstakri grein um pólitíska stjórnun Landsbankans sem birtist árið 1994 í tímaritinu Heimsmynd. Þar rekur hann þær staðreyndir að þessir tveir flokkar allt frá árunum 1917--1920 börðust um pólitískt forræði í Landsbankanum og náðu að lokum hinu endanlega samkomulagi um helmingaskiptin eins og áður er lýst. Forustumönnum Framsfl. á þeirri tíð var vel ljóst hvað væri í húfi. Eftir að hafa rakið það hvernig Framsfl. náði þessari aðstöðu á árunum 1917--1920 segir höfundurinn á þessa leið: ,,Í raun og veru var um yfirtöku á Landsbankanum að ræða og næstu 70 árin var hann nánast rekin sem einkabanki Sambands íslenskra samvinnumanna.`` Jafnfram segir, með leyfi forseta: ,,Samhengið milli uppgangs Sambands íslenskra samvinnufélaga og kaupfélaganna annars vegar og ítakanna í Landsbankanum hins vegar var engum ljósara en framsóknarmönnum sjálfum. Jónas frá Hriflu sagði orðrétt á miðstjórnarfundi í Framsóknarflokknum árið 1942: ,,Framsóknarflokkurinn hefur skapað Landsbankann. Landsbankinn hefur skapað vöxt samvinnufélaganna. Það hefur haft þá þýðingu að komið hafa upp kaupfélög við hverja höfn.````

Í framhaldi af þessu rekur höfundur þessarar greinar að frá og með valdatökunni 1920 hafa allir bankastjórar Framsfl. til þessa dags verið fyrrverandi forstjórar SÍS eða forstjórar í KEA og telur upp Magnús Sigurðsson, Jón Árnason, Vilhjálm Þór, Svanbjörn Frímannsson, Helga Bergs, Val Arnþórsson. Loks má þess geta að í samtímanum eiga þessi sömu fyrirtæki sem áður stóðu að SÍS sinn fulltrúa.

Með samkomulaginu sem gert var á Alþingi um að skipta völdum í þessum banka milli annars vegar SÍS og hins vegar einkarekstursins í landinu, þá undir forustu Kveldúlfs og formanns Sjálfstfl., hefur þessi banki síðan verið helmingaskiptabanki þótt fleiri hafi komið þar við sögu sem bankastjórar. En þarna er kannski dæmið um hið raunverulega samspil annars vegar hins ríkisrekna bankakerfis og pólitískra hagsmuna flokka sem byggja fylgi sitt fyrst og fremst á þjónustu við atvinnurekstrarhagsmuni. Það er til þessarar sögu sem við tölum um helmingaskiptastjórnir. Næsta vers í þeim sálmi er náttúrlega að rekja það í örfáum orðum hver árangurinn eða hver niðurstaðan hefur verið, hver reynsla íslensku þjóðarinnar hefur verið af því að reka fjármálakerfi sitt, nánast þjóðbanka sinn, með þessum hætti.

Það er fljótsagt, herra forseti, að reynslan af þessum pólitísku helmingaskiptum í pólitískum ríkisrekstri bankakerfisins hefur verið afar slæm. Niðurstaðan er orðin sú að rekstur banka á Íslandi kosta yfir 13 milljarða kr. á ári. En það er meira en samsvarar rekstri Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur samanlagt. Það kostar álíka að reka bankakerfið og allt menntakerfið að vísu að frátöldum grunnskólunum.

[15:00]

Það er að sjálfsögðu hægt að tíunda fleiri dæmi um þessa reynslu. Við sitjum uppi með ríkisbanka sem eru dýrir í rekstri, sem þrátt fyrir allt hafa skilað lítilli arðsemi, ef við leitum samanburðar við sambærileg fyrirtæki á fjármálamarkaði, hafa getað veitt takmarkaða þjónustu. Við vitum að vaxtamunur er mikill og við vitum að þetta íslenska bankakerfi er rekið með mun hærri vöxtum þrátt fyrir tiltölulega lága verðbólgu og stöðugleika heldur en hefur tíðkast í grannlöndum okkar. Þannig mætti lengi telja. En kannski er stærsta dæmið í þessari sögu það að á hinu langa óðaverðbólgutímabili í íslenskri þjóðarsögu þegar fjármagn var takmarkað, þá gerðist það einfaldlega í gegnum þetta pólitískt stýrða bankakerfi að þeir sem höfðu pólitískan aðgang að kerfinu sættu forgangi að lánum á sama tíma og neikvæðir vextir þýddu að sparnaður almennings brann raunverulega upp áratugum saman. Það að fá lán til fjárfestingar eða ábatasamrar starfsemi sem oftar en ekki var komin undir pólitískri aðstöðu var þannig auðvitað gulls ígildi.

Þessi upprifjun ætti að nægja til þess að draga þá einföldu niðurstöðu að við erum alveg sammála þeirri meginstefnu að það var fyllilega kominn tími til að gera breytingar á þessu kerfi og það var löngu tímabært að gera þær breytingar. Ástæðan fyrir því að það t.d. náðist ekki fram í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, þrátt fyrir miklar umræður og miklar kannanir, var einfaldlega sú að það var pólitískur ágreiningur milli stjórnarflokkanna. Nú er að skilja að ekki sé lengur ágreiningur milli núverandi stjórnarflokka um þessa breytingu. En einmitt vegna þess hvernig að málum er staðið og hvernig þetta frv. er úr garði gert, hvernig það þegir um hin raunverulegu vandamál sem við er að fást í sambandi við þessa nauðsynlegu breytingu, spyr maður sjálfan sig: Er það virkilega svo að Framsfl. hafi í þessu máli algjörlega undirgengist línu Sjálfstfl. og sér hann enga þörf á því, út frá almannahagsmunum, að binda í löggjöfina og taka skýrt fram og afdráttarlaust hvernig menn ætla að tryggja að við förum ekki úr öskunni í eldinn, úr pólitískt miðstýrðu skömmtunarkerfi fjármagns yfir í kerfi sem e.t.v. kann að þýða enn þá meiri valdasamþjöppun tiltölulega fárra en sterkra fjárhagslegra aðila í þjóðfélaginu.

Hæstv. ráðherra svaraði því til þegar ég beindi til hans fyrirspurn áðan undir liðnum andsvörum að ekkert hefði verið gert með skýrslu Samkeppnisstofnunar frá fyrra kjörtímabili sem lögð var fram á Alþingi sem 360. mál í janúar árið 1995. En ég nefndi það til sögunnar einfaldlega vegna þess að samkvæmt samkeppnislögum ber stjórnvöldum að gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði. Skal þetta gert í því skyni að kanna, hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna alvarleg einkenni um hringamyndun, óæskileg tengsl eða valdasamþjöppun sem takmarkað geti samkeppni eða hindrað frjálsa þróun viðskipta og skapi þar með hættu á brotum á lögum þessum. Fyrrv. hæstv. viðskrh. Sighvatur Björgvinsson gegndi að sjálfsögðu þeirri lagaskyldu að láta vinna slíka skýrslu og lagði hana fram hér á hinu háa Alþingi ásamt með útdrætti um helstu niðurstöður. Á bls. 5 í þessari skýrslu þar sem helstu niðurstöður eru raktar er m.a. vakin athygli á eftirfarandi undir lið 4, með leyfi forseta:

,,Merki eru um að í atvinnulífinu myndist ,,blokkir`` fyrirtækja þar sem fyrirtæki í ,,blokk`` tengjast eigna- og stjórnunarlega. Stærstu fyrirtækin á sviði trygginga, olíuverslunar, flutninga, útflutnings sjávarfangs og ferðaþjónustu tengjast með gagnkvæmu eignarhaldi og stjórnunartengsl eru einnig mikil þar sem sömu aðilar sitja í stjórnum þessara fyrirtækja og veita þeim forustu.``

Þetta er síðan rakið nánar með því að tíunda helstu svið, bæði á fjármagnsmarkaðnum sjálfum, að því er varðar skyldusöfnun lífeyrisfjár í lífeyrissjóðum, að því er varðar tengsl atvinnuvega og stjórnun í fjárfestingarlánasjóðum, að því er varðar olíufélög, útflutningsstarfsemi, matvöruverslun, flutningastarfsemi, tryggingastarfsemi o.s.frv.

Ég nefni þetta til sögunnar einfaldlega af þessari ástæðu: Ef það er einhver tilgangur, augljós, þarfur og verðugur með þessum frumvörpum, þá er hann eftirfarandi: Að binda endi á pólitíska ráðstjórn í fjármálakerfi þjóðarinnar með því að afnema ríkisrekna banka að fenginni reynslu, en að tryggja með almennum reglum í staðinn að við förum ekki úr öskunni í eldinn, að tryggt verði að þessar breytingar leiði til aukinnar samkeppni á fjármagnsmarkaðnum í þágu almennings og að sýna fram á það sæmilega trúverðuglega að þetta leiði ekki til þess að þau tiltölulega fáu en öflugu fyrirtæki sem hafa mikilla hagsmuna að gæta í íslensku þjóðfélagi fái til þess aðstöðu með tiltölulega ódýrum hætti að tryggja sér forræði, yfirráðarétt, ráðandi rétt á þeim bönkum sem kynnu að verða reistir sem hlutafélagsbankar eftir að þeir hverfa úr eigu ríkisins. Þetta er beinlínis kjarni málsins. Hæstv. ráðherra vék réttilega að því að ýmsar breytingar hefðu átt sér stað á fjármagnsmarkaðnum á undanförnum árum sem m.a. væru til þess að knýja á um þessar breytingar. Það var allt saman satt og rétt. Einkum og sér í lagi í tíð fyrri ríkisstjórnar var margvíslegum slíkum breytingum komið á og reyndar allt frá árinu 1987 og síðar hafa orðið róttækar breytingar á fjármagnsmarkaðnum en stærsta breytingin var að sjálfsögðu EES-samningurinn sjálfur. Hann var, eins og þekktur hagfræðingur, Jónas Á. Haralz, hefur orðað það, smiðshöggið á þessa breytingaþróun vegna þess að hann opnaði einfaldlega fyrir fjármagnsflutninga og gerði íslensku atvinnulífi í raun og veru fræðilega kleift að leita fram hjá íslenskum fjármagnsmarkaði, enda kann að vera ærin ástæða til þess í ljósi þess að íslenskir bankar eru þrátt fyrir allt örfáir. Þeir eru reyndar svo litlir að þeim er um megn að fjármagna atvinnurekstur verulega stórra fyrirtækja. Ef vaxtamunur milli þeirra kjara sem fást á innlendum markaði og erlendum markaði heldur áfram að aukast og er jafnmikill sem raun ber vitni, þá er í alla staði eðlilegt að það gerist líka að öflug fyrirtæki í a.m.k. meiri háttar fjárfestingum og öðru slíku leiti einfaldlega fram hjá þessu kerfi. Allt er þetta satt og rétt og eru rétt rök fyrir því að breytingarnar eru tímabærar.

Það er einmitt nákvæmlega þess vegna, herra forseti, sem ég og við fleiri jafnaðarmenn sem erum samþykkir þessari breytingu yfir í hlutafélagsformið lýsum vonbrigðum okkar yfir því frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Þetta frv. er ekki bara um formbreytingu. Það er ekki bara um að hverfa frá ríkisrekstri yfir í hlutafélagarekstur í eigu ríkisins einfaldlega vegna þess, og það er aðalatriði þessa máls, að í þessu frv. er gert ráð fyrir þessari opnu heimild til hæstv. ráðherra um að styrkja stöðu þessa hlutafélagsbanka enn frekar með því að leita út á markaðinn, þó að það sé takmarkað við 35% af stofnhlutafé. Með öðrum orðum, það á að leita út á markaðinn, það á að bjóða öðrum aðilum að taka þátt í þessum rekstri.

Nú geta menn haft skiptar skoðanir á því hversu líklegt er að það þyki kostaboð, þ.e. er líklegt að fjárfestar telji það girnilegt boð að kaupa hlutabréf í banka sem áfram verður að óbreyttu í meirihlutastjórn ríkisins og meðan ekki er vitað nánast eitt eða neitt, því það stendur ekkert um það í þessu frv., hvernig eigi að breyta stjórnskipan og stjórnun þessara banka. Er líklegt að það verði ábatavænlegt? Er líklegt að menn telji þetta góðan bisness? Það er ein spurning.

Önnur spurning er hins vegar sú: Úr því að það á að opna fyrir þetta, þá þýðir það um leið að sá hæstv. ráðherra og sú ríkisstjórn sem segir: Jafnframt viljum við stefna að dreifðri eignaraðild, verður að svara almenningi í landinu, Alþingi Íslendinga, þjóðinni allri, fjárfestum í landinu, einföldustu spurningum um hvernig á að tryggja sem jafnasta eignaraðild. En um það segir eins og fram kom í svörum hæstv. ráðherra ekki neitt sem hönd á festir annað en loðmullulegar yfirlýsingar um að þetta sé nú stefnuyfirlýsingin og þannig verði haldið á málum. Þetta eru ekki boðleg svör. Og þessi svör duga ekki til þess að skapa sem mesta samstöðu um málið milli þess stóra þingmeirihluta sem ég veit að hér er á hinu háa Alþingi fyrir því að taka þessi skref í átt til hlutafélagaformsins.

Þetta er í raun og veru kjarni minnar gagnrýni á frv. Ég verð að vísu einnig að lýsa undrun minni á því að í málabúnaði hæstv. ráðherra og í því frv. og greinargerð sem hér liggur fyrir skuli ekki liggja fyrir miklu ítarlegri skilgreiningar og upplýsingar um hvernig þetta á að gerast. Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað hvernig, en ekki hvort, það er hvernig á að tryggja það örugglega að þessar fyrirhuguðu breytingar nái tilætluðum árangri.

Hvers vegna er þessi heimild til ráðherrans svona galopin? Úr því að ekkert er um það að sjá í textanum, hvernig stendur þá á því að hæstv. ráðherra svarar því ekki skýrar í framsöguræðu sinni hvernig hann hyggst þá halda á málinu, hvernig han hyggst nýta þessa heimild. Ætlar hann að fara í þessi útboð hlutafjár í áföngum án þess að það sé í lagatextanum? Ætlar hann að beita sér fyrir því að það verði settar einhverjir sérstakar reglur um hámarkshlut hvers kaupanda? Ætlar hann að setja einhverjar reglur um að það verði síðan tryggt í framkvæmd með því að það verði skilgreint hver er einn aðili, þ.e. með hliðsjón af venslum og tengslum eignarlegum eða stjórnunarlegum milli þeirra fyrirtækja sem kynnu að vera á markaðnum? Öllum þessum spurningum er einfaldlega ekkert svarað. Og hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra svarar því ekki skilmerkilega hvernig á að standa að stjórnunarlegum breytingum? En það er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt mjög í rekstri helmingaskiptakerfisins, þ.e. með þrjá skipstjóra um borð í pólitísku umboði og stjórnkerfi að öðru leyti, sem hefur þótt lítt til fyrirmyndar að því er varðar skilvirkni og hagkvæmni. Getur hæstv. ráðherra svarað því skýrt og skilmerkilega? Verður einn bankastjóri, einn skipstjóri um borð í hinum nýja hlutafélagabanka? Já eða nei. Hvernig hyggst hann standa að skipan bankaráða, vegna þess að valdið færist nú til hæstv. ráðherra, til framkvæmdarvaldsins, á Alþingi? Og ég tek undir að það er að sjálfsögðu í rétta átt, það er rétt breyting vegna þess að Alþingi á að hafa skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins í þessu efni en þá á líka framkvæmdarvaldið að setja um það skýrar almennar reglur og veita upplýsingar sem mark er á takandi.

Er augljóst að hæstv. viðskrh. eigi að fara með vörslu hlutafjár ríkisins og umboð ríkisins í þessu efni? Ég tel það ekki liggja í augum uppi. Á það að vera í höndum fagráðherra ef um er að ræða breytingar úr ríkisrekstri yfir í hlutafélagsform hverju sinni? Á það t.d. að vera í höndum samgrh. ef slíkar breytingar eiga sér stað að því er varðar Póst og síma? Ef parti af landbúnaðarbákninu væri nú breytt í rekstrarhæft form, ætti það þá að vera í höndum landbrh. o.s.frv.? Eða á að fylgja þeirri grundvallarreglu að hæstv. fjmrh. sé vörsluaðili að hlut ríkisins ef ríkið er á annað borð í samstarfi við einhverja aðra í fyrirtækjarekstri? Þetta er auðvitað spurning sem varðar stjórnunarlega framkvæmd og þetta kann að vera álitamál en mér sýnist ekkert sjálfgefið við að þetta eigi að vera svo dreift að 10 ráðherrar gætu komið að því máli og mótað hver sína stefnuna.

[15:15]

Ég verð einnig að segja vegna þess sem fram kom hér, virðulegi forseti, að því er varðaði fyrirspurnir sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hugðust leggja fram um þetta mál en hefur enn ekki verið heimilað og boðuð atkvæðagreiðsla um það á eftir, að ég undrast það mjög að hæstv. ráðherra skuli ekki leggja á borð með sér þær upplýsingar sem þar er verið að biðja um þegar þetta stóra mál kemur á dagskrá. Því deilan um hvort það er þinglegt eða ekki þinglegt að leggja fram þessa fyrirspurn, sem var tilbúin löngu áður en málið sjálft kom á dagskrá, er aukaatriði málsins en upplýsingarnar kjarni málsins.

Þegar þessi mál voru til umræðu á árunum 1991--1992 voru lagðar fram margvíslegar skýrslur þar sem fóru fram efnahagslegar úttektir, hagrænar úttektir á því hverjar væru líklegar afleiðingar þessara breytinga, svo sem áhrif á markaðsvexti, erlend lánskjör, fákeppni og/eða einokunartilhneigingar, sem er sjálfur kjarni málsins, afnám ríkisábyrgðar, stöðu Tryggingasjóðs til að mæta skakkaföllum o.s.frv. Þetta eru nokkur dæmi um þær spurningar sem hv. þm. hugðust leggja fram og réttilega í þeim skilningi að þeir óskuðu eftir að þessar upplýsingar lægju fyrir innan tíu daga, þ.e. áður en líklegt er að hið háa Alþingi útkljái það.

Í tilefni af þessu vil ég einfaldlega nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra: Er hann ekki sammála mér um það að æskilegt væri að slíkar upplýsingar liggi fyrir? Ég spyr: Er það svo í undirbúningsvinnu þeirra nefnda sem hafa unnið að málinu að slíkar kannanir hafi verið gerðar? Er hæstv. ráðherra reiðubúinn til þess til að greiða fyrir umræðum og afgreiðslu málsins bæði á þingi og í nefndum, að leggja slíkar upplýsingar fram eins og hér er verið að fara fram á? Ég tel það svo sem nánast ekki sérstaklega þakkarvert þó ég muni virða hann fyrir framtakið ef þetta er ekki til, ég tel það svo sjálfsagðan hlut. Ég tel það málinu í hag ef hæstv. ráðherra vill leggja eitthvað af mörkum til að greiða fyrir samstöðu um það.

Herra forseti. Kjarni málsins er þessi: Er líklegt að þessi breyting yfir í hlutafélagsform ásamt opinni heimild til ráðherra án nánari reglusetningar eða skilgreininga um útboð á viðbótarhlutafé skili tilætluðum árangri með því að tryggja almenningi í landinu kosti samkeppnisrekstrar í þessu kerfi eða erum við að taka áhættu með þessari aðferðafræði, áhættu um að tiltölulega fáir en öflugir fjármagnseigendur geti í krafti þessarar aðferðafræði náð ráðandi ítökum í væntanlegum hlutafélagsbönkum? Reynslan af pólitísku helmingaskiptunum var vond en hún ætti fyrst og fremst að vera okkur viðvörun um það að hverfa ekki úr einu vondu kerfi sem hefur reynst illa yfir í annað sem gæti leitt til þess eftir öðrum leiðum með venslum og tengslum í atvinnulífinu sjálfu, að í stað pólitískra helmingaskipta sem ráðin eru af Alþingi komi samþjöppun fjármálavaldsins, að vísu áfram í nánum tengslum við stjórnarflokkana en ekki eftir einhverjum reglum sem settar eru á Alþingi.

Nú er það svo að hlutverk Alþingis, virðulegi forseti, er að gæta almannahags og setja almennar reglur til að gæta hag almennings. Það er meginefni míns máls að segja einfaldlega: Ég hygg að mikill vilji sé fyrir því hjá meiri hluta alþingismanna að fara fram í þessu máli af eðlilegri varúð, að gæta eðlilegrar varúðar, að ana ekki að neinu og helst af öllu að láta þessa breytingu fara fram í þannig áföngum að menn geti metið nokkuð reynsluna eftir því sem þær fara fram og gripið þá í taumana ef reynslan ætlar að vera slæm. Sérstaklega ber að spyrja spurninga eins og þessarar: Er ekki eðlilegt að þessi breyting fari fram í þannig áföngum að ef um er að ræða útboð á hlutafé verði það í ekki allt of stórum skömmtum? Þar verður að taka tillit til þess hvað hinn litli og vanburðugi fjármagnsmarkaður á Íslandi þolir. Þar verður líka að taka tillit til þess hvort offramboð á því hlutafé leiðir til þess að unnt væri að ná þessari hlutafjáreign fyrir spottprís eða að verðið sem ríkissjóður á að fá fyrir eignarhluta ríkisins, almennings í þessu, reynist vera undir raunvirði. Það skiptir öllu máli að hæstv. ráðherra takist að sannfæra okkur um að þarna verði vel á málum haldið. Þess vegna þykir mér mjög miður að það skuli ekki koma skýrar fram í frv. en ég hef þegar upplýst hvernig hæstv. ráðherra hyggst fara að vegna þess að frv. tekur ekki á þessu. Hæstv. ráðherra getur að sjálfsögðu í meðförum málsins á þingi bætt um betur og reynt að skapa traust og trú á framkvæmdinni með því að sýna á Alþingi eða í nefndarstarfinu hvernig hann hyggst haga framkvæmdinni.

Það er ekki ástæða til að setja á langar tölur um kosti og galla hlutafélagareksturs í samanburði við ríkisrekstur einfaldlega vegna þess að það er mál sem oft hefur verið rætt og liggur í augum uppi. Það eina sem menn segja um meinta hagkvæmni ríkisrekstrarins er auðvitað ríkisábyrgðin og að með ótvíræðri og ótakmarkaðri ríkisábyrgð eigi að gefast betri kjör á erlendum lánamörkuðum. Ef menn vildu draga réttar ályktanir af því og gera að meginröksemd sinni þá væri það auðvitað röksemd fyrir því að ríkið ætti að sjá um allan atvinnurekstur í landinu ef á að reka hann fyrst og fremst með lánsfjármagni vegna þess að þá fengjust betri kjör. Þau rök duga því ekki. Bankarekstur er áhætturekstur og hann er þjónusturekstur. Ríkið á ekkert erindi inn í slíkan rekstur almennt séð. Það kunna að vera á því einhverjar undantekningar og þá helst tímabundnar að því er varðar einstaka fjárfestingarverkefni eða áhættulánasjóði. En að því er varðar almenna viðskiptaþjónustu þá er þetta einfaldlega ekki hlutverk ríkisins. Hins vegar er spurningin sú hvort menn gætu náð einhverju samkomulagi í aðferðafræðinni út frá almennum varúðarsjónarmiðum með því að fara öðruvísi að en hæstv. ríkisstjórn leggur til. Hvað á ég við? Ég á við hugmyndir eins og þessar: Að báðum þessum ríkisbönkum sem hér eru til umræðu verði að vísu breytt í hlutafélagsform. Það er kostur út af fyrir sig.

Að menn þreifi fyrir sér að því er aðferðina varðar með því að selja annan ríkisbankann fyrst. Rökin fyrir því eru margvísleg. Í fyrsta lagi varúðarsjónarmiðin sem ég nefndi áðan um að gera ekki of mikið í einu og að meta reynsluna og árangurinn eftir því sem málinu víkur fram. Í annan stað að forðast þau mistök sem ekki verður bætt fyrir ef menn taka stóra stökkið í einu. Í þriðja lagi að kanna af varfærni viðbrögð markaðarins og vera þannig í aðstöðu til að miða framkvæmdina við það sem reynslan gefur til kynna úr því að hæstv. ríkisstjórn virðist vera svipaðrar hugsunar, að því er það varðar að hún vill ekki stíga skrefið til fulls um sölu á meiri hluta í þessum hlutafélögum með því að skapa eitthvert öryggi eins og hún orðar það, með því að hafa frystingu á málinu í fjögur ár. Ég held hins vegar að hin aðferðin væri skynsamlegri, að taka annan bankann fyrst.

Þá er það spurningin um aðferðirnar. Ef ríkisstjórnin meinar eitthvað með almennri stefnuyfirlýsingu um að hún vilji tryggja í framkvæmd dreifða eignaraðild þá verður hún að sýna fram á það áður en hún biður þingmenn um að kaupa þessa leið, áður en þetta frv. verður gert að lögum, hvernig hún hyggst setja reglur sem tryggja að sá hlutur sem seldur verði verði ekki í höndum fárra fjársterkra aðila sem fái ráðandi ítök í þessum bönkum og jafnvel nái þeim ítökum fyrir spottprís eða á undirverði.

Ég ætla ekki að setja á mjög langa ræðu um þetta en ég vísa til reynslu hér heima og ég vísa til reynslu annarra þjóða af einkavæðingu. Ég vísa alveg sérstaklega til reynslu Breta af sambærilegum málum þar sem þeir hafa gripið til sérstakra varúðarráðstafana. Ég ætla að nefna eitt dæmi um það. Þeir hafa á stundum þegar þeir hafa breytt rekstri stórfyrirtækja úr ríkisrekstri yfir í einkarekstur áskilið ríkinu svokallað ,,golden share``, þ.e. tryggt með almennum reglum að sá hlutur sem ríkið heldur eftir á einhverju tilteknu umþóttunarskeiði, að því fylgi meiri atkvæðisréttur en almennum hlutabréfum til þess að ríkið geti þá á reynslutímanum gripið inn í ef það kemur á daginn að markaðurinn hefur brugðist þannig við að tiltölulga fáir fjársterkir aðilar hafa getað keypt á sannanlegu undirverði ráðandi hlut. Önnur aðferð sem auðvitað kæmi fyllilega til greina væri að fara að fordæmi gests hæstv. forsrh., þ.e. Václav Klaus, hins tékkneska og fara tékknesku leiðina. Þá væri fyrst og fremst um það að ræða að almenningur í landinu fengi einfaldlega sendan sinn hlut í þessum bönkum og menn yrðu þá á eftirmarkaðnum hins vegar að beita almennum reglum að því er varðar endursöluna þannig að það væri engu að síður tryggt að fáir fjársterkir aðilar gætu ekki keypt upp ráðandi hlut á eftirmarkaðnum.

Þetta er auðvitað ein aðferð sem verðskuldar fyllilega umræðu. Hún byggir hins vegar á því að ríkið sé að þeim breytingum ekki vegna þess að svo mikið fé vanti inn í þessa banka heldur vegna þess að breytingin sjálf sé nauðsynleg af öðrum ástæðum. En þá mundi ég nefna til fjórða atriðið sem skipti alveg sköpum til að almenningur á Íslandi gæti fengið traust á breytingunni og einhverja tryggingu fyrir því að viðkomandi banki yrði rekinn út frá samkeppnissjónarmiðum og faglegum sjónarmiðum og það væri að tryggja í leiðinni erlenda eignaraðild að einhverju lágmarki í slíkum banka.

Mér er fullkunnugt um að menn eru svartsýnir á að það sé unnt. Hvers vegna? Eru menn reiðubúnir til að segja af hverju það er? Ef menn tjáðu sig nú algjörlega um það væru menn náttúrlega að kveða upp slíkan dóm yfir niðurstöðu ríkisrekstrarins í þessu bankakerfi að menn hefðu með öðrum orðum ekki trú á því að alvöru fjárfestar sem hefðu áhuga á að fjárfesta í arðvænlega reknum samkeppnisbönkum hefðu á þessu áhuga. Ég vil einfaldlega fá svör við því frá hæstv. ráðherra: Er það virkilega svo þegar vísir menn voru að undirbúa þessi mál í undirbúningsnefnd að það mál væri ekki rætt? Var það kannað? Getur hæstv. viðskrh. svarað einhverju um það? Er það virkilega svo að þeir sem að málinu standa telji það vonlaust fyrir fram? Ég legg á það höfuðáherslu að ef menn vilja gera hvort tveggja, að fara fram af varúð, fylgja fram varúðarreglunni, fara fram með gát og koma í veg fyrir mistök, hlaupa ekki á sig þannig að ekki verði fyrir það bætt síðar, þá eigi menn að leita eftir aðferðum sem gæta almannahagsmuna og sennlega er engin ein aðgerð sem gæti tryggt hagsmuni almennings betur og einhver tiltekin lágmarkseignaraðild erlendra aðila í þessum rekstri.

Ég hef nefnt fjögur atriði um aðferðir sem eru allt öðruvísi en hæstv. ríkisstjórn leggur til. Kostirnir við þær aðferðir eru að þar er farið fram af eðlilegri gát í ljósi reynslunnar. Hægt er að endurmeta aðferðina eftir því sem við förum fram í ljósi reynslu og síðan er hægt með því að stuðla að aukinni samkeppni og selja annan bankann fyrst að nota tímann til að byggja hinn og búa undir vaxandi samkeppni og gera viðeigandi ráðstafanir um aðferðafræðina í ljósi reynslunnar.

[15:30]

Herra forseti. Það er auðvitað margt annað sem ætti að taka hér fyrir og ég veit að aðrir fulltrúar okkar jafnaðarmanna í þessum umræðum munu gera það, sérstaklega að því er varðar hagsmuni starfsmanna, spurninguna um það hvort gera eigi þeim sérstakt tilboð um aðild í slíkum hlutafélagsbanka og þá á sérkjörum, um stjórnunarreglurnar og stjórnkerfi nýrra banka, um hlut Ríkisendurskoðunar við endurskoðun slíkra banka, um spurningarnar sem vakna um það hvort biðlaunaréttur skapist þrátt fyrir nýja löggjöf, um hvaða lífeyrisskuldbindingar hvíla á ríkinu í sambandi við þessar breytingar o.s.frv., o.s.frv. Allt mun þetta verða tíundað betur í þessum umræðum.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég leggja áherslu á það sem ég sagði í upphafi: Við viljum gjarnan stuðla að því að hverfa frá þessari allt of löngu sögu um pólitísk helmingaskipti þessara tveggja stjórnarflokka í ríkisbankakerfinu í landinu. En við viljum jafnframt alveg sérstaklega vara við því að að breytingunum verði staðið þannig að menn kunna einhvern tíma síðar að geta sagt: Því miður var farið úr öskunni í eldinn.