Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 15:31:07 (4270)

1997-03-11 15:31:07# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[15:31]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Í þessari löngu og yfirgripsmiklu ræðu hv. síðasta ræðumanns kom eiginlega ekki skýrt fram hvort ræðumaður er fylgjandi þessu máli eða ekki. Hann færði fram ýmsar vangaveltur um þetta mál og margt af því get ég að sjálfsögðu tekið undir. Ég tel að það mikilvægasta sem hann sagði í þessu hafi verið að þetta mál snýst ekki um hvort heldur hvernig eigi að ráðast í þessar breytingar. Samt hafði hann allt á hornum sér varðandi málið.

Hann spurði: Hefur verið kannað hvort erlendir aðilar vilji koma inn í bankarekstur á Íslandi í tengslum við þetta? Ég sat í undirbúningsnefndinni sem fjallaði um þetta. Ég get svarað því. Þetta var ekki kannað sérstaklega á vegum þeirrar nefndar. En eins og hv. þm. veit auðvitað mætavel þá þarf engar sérstakar ráðstafanir af hálfu Alþingis í því efni. Ef þetta hlutafé verður boðið út þá er sjálfsagt að kanna það í leiðinni hvort erlendir aðilar vilji eiga þar hlut og þeim stendur það að sjálfsögðu opið, m.a. fyrir tilverknað reglna sem hv. þm. átti aðild að að setja á sínum tíma um opnun íslenska efnahagskerfisins út á við.

Hv. ræðumaður gerði að umtalsefni meintan ágreining í Framsfl. um þetta mál. Ég er ekki til svara um þá hluti en eitthvað minnir mig að í fyrri ríkisstjórn og tveimur fyrri ríkisstjórnum hafi verið reynt að koma þessu máli fram af viðskiptaráðherrum Alþfl. Þeim tókst ekki að koma saman frv. sem samkomulag varð um innan þeirra eigin flokks ef ég man rétt þannig að það er nú rétt að gá að því hvort samkomulag er um þessa stefnu innan Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna áður en menn fara að hreyta ónotum í Framsfl. af þeim sökum.

En ég vil spyrja hv. þm.: Er hann fylgjandi þessu frv. eða ekki? Mun hann beita sér fyrir því að þetta frv. verði afgreitt, hugsanlega með einhverjum breytingum? Er hann sem sagt fylgjandi málinu eða ekki?