Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 15:34:48 (4272)

1997-03-11 15:34:48# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[15:34]

Geir H. Haarde (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vísa á bug söguskýringum hv. þm. um afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli. Það eru meira en 15 ár frá því að fyrst var ályktað um það á vettvangi Sjálfstfl. að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og reyna síðan að losa um þá hluti til einkaaðila innan lands og utan. Þetta veit ég vel vegna þess að ég átti sjálfur aðild að þeirri stefnumótun á sínum tíma.

Ég hins vegar fagna því sem kom fram núna allskýrt hjá hv. þm., að hann er fylgjandi þeirri meginstefnu sem kemur fram í frv., hann er sem sé fylgjandi málinu. Hann er fylgjandi þessu frv. um að breyta Landsbankanum og Búnaðarbankanum í hlutafélög. Ég fagna því að það er komið fram af hálfu talsmanns þingflokks jafnaðarmanna og ég treysti því að sjálfsögðu að það sé þá stefna þess þingflokks í heild sinni.