Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 15:37:17 (4274)

1997-03-11 15:37:17# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[15:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í orðaskipti fyrrverandi bólfélaga í stjórnarsamstarfi Alþfl. og Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili þó að það gæti út af fyrir sig verið fróðlegt, en dreg mörkin þar að ræða vinnubrögð og sögu þessa máls frá því að núv. hæstv. ríkisstjórn og núv. hæstv. viðskrh. tóku til starfa.

Fyrst kemur upp í hugann að hæstv. ráðherra skipaði nefnd eins og títt er hjá Framsfl. undir forustu eins af þingmönnum flokksins til þess að vinna að undirbúningi þessa máls. Þetta var hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson sem óneitanlega er nokkur skaði að að skuli vera hér fjarverandi í dag af einhverjum ástæðum þar sem hann kemur svo mjög við sögu undirbúnings málsins. Við hljótum að treysta því að hv. þm. verði við umræðuna þegar frá líður og geri okkur grein fyrir sínu mati á málinu í ljósi þess að hann er slíkur sérfræðingur og trúnaðarmaður, eða var a.m.k., Framsfl. í þessum málum sem raun ber vitni.

Það vekur einnig nokkra athygli, ekki síður en fjarvera hv. þm., að niðurstaða þeirrar nefndar er ekki birt sem fylgiskjal með frv. og til hennar er vitnað með satt best að segja afar losaralegu orðalagi. Ég bendi mönnum á að líta í greinargerð frv. á bls. 6, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið, sem viðskiptaráðherra leggur nú fram, er grundvallað á vinnu fyrrgreindrar nefndar en hefur tekið breytingum í meðferð ráðuneytisins frá þeim frumvarpsdrögum sem nefndin samdi.``

Hvað felst í þessu orðalagi? Hefði þó ekki nema skýrslan eða álit þessarar nefndar verið prentað sem fskj. með frv., þá hefði frekar verið hægt fyrir hv. þm. að átta sig á því að hve miklu leyti tillögur nefndarinnar voru teknar til greina og að hve miklu leyti ekki, en upp á það er ekki boðið.

Í öðru lagi hefur hæstv. ráðherra gengið nokkuð sérkennilega fram virðist mér mega segja hvað varðar ýmsar yfirlýsingar í undirbúningsferli þessa máls. T.d. bárust þær fréttir fyrir eins og missiri síðan að hæstv. ráðherra hefði á fundi með bankamönnum fullvissað þá um að hér væri fyrst og fremst um formbreytingu að ræða og ekki stæði til að selja eða einkavæða bankana og átti þetta væntanlega að vera innlegg í þá átt að fullvissa bankamenn um sína stöðu að einhverju leyti og róa þá.

Síðan gerast þau undur að ekki hæstv. ráðherra heldur hæstv. forsrh. fer á flug á einkavæðingarráðstefnu og ætlar þá allt í einu meira og minna að selja þetta í hvelli, upphafinn af andlegri næringu af samskiptum við sérstakan heiðursgest á einkavæðingarráðstefnunni. Loks kemur svo frv. fram með þeirri útfærslu að það á að einkavæða inn um gluggann, eins og kallað er, allt að 35% á fjögurra ára tímabili, á grundvelli einhverrar fjögurra ára áætlunar sem hér er lögð upp.

Einnig virðist vera, herra forseti, ástæða til að staldra við undirbúning málsins hvað varðar ýmisleg gögn, úttektir og athugun á aðstæðum eins og þær blasa við eða liggja fyrir nú. Það er nokkuð sérkennilegt að í plöggum sér maður að vitnað er í allt að sex ára gömul gögn máli þessu til stuðnings, gamla úttekt sem Seðlabankinn lét erlenda aðila gera um 1990. (Gripið fram í: Þá voru menn alltaf að vinna.) Þá voru menn að vísu alltaf að vinna. En er það virkilega svo, herra forseti, að hæstv. viðskrh. hafi ekki nýlegri eða traustari gögnum fram að tefla en þetta? Það er von að spurt sé.

Nú, herra forseti, nokkur orð um þetta frv. svona almennt séð og samhengi þess við almennar aðstæður í efnahags- og fjármálakerfi okkar. Þar get ég reyndar tekið undir ýmislegt af því sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það er virkilega ástæða til þess að þessu gefna tilefni að fara rækilega og á breiðum grundvelli yfir stöðuna í hinum íslenska fjármálaheimi og það þýðir ekki að reyna að ræða þetta mál einangrað fremur en að hægt sé að skoða breytingu á tveimur stærstu viðskiptabönkum þjóðarinnar af þremur sem einangrað fyrirbæri í hinum íslenska fjármálaheimi og viðskiptaheimi. Það er ekki hægt. Þess þá heldur ef áformað er að hefja einkavæðingu bankanna, verður að skoða í samhengi við stöðuna almennt í íslenskum viðskiptum og fjármálaheimi hverjir séu líklegir kaupendur og hvaða áhrif það geti haft á fákeppni og samþjöppun fjármuna og valds í þjóðfélaginu.

Af því að hér hefur verið vitnað til skýrslu Samkeppnisstofnunar frá árinu 1994 um hringamyndun og eignatengsl í íslensku viðskiptalífi þá er það vel. Hitt er öllu lakara að hæstv. viðskrh. svaraði því til í andsvari áðan að það hefði ekkert verið gert með skýrsluna, hvorki af fyrrv. hæstv. viðskrh. né núverandi og var það ekki góð einkunn að mér fannst sem hæstv. ráðherra gaf sér, þ.e. að skýrslan lægi eins og hvert annað gagn í skúffu í ráðuneytinu en ekkert væri með hana gert.

Það er rétt að rifja aðeins upp aðdragandann að því að þessi skýrsla var unnin. Sá aðdragandi liggur í setningu samkeppnislaganna á sínum tíma snemma á síðasta kjörtímabili sem ég hygg að hafi tekið gildi 1992. Þá náðist hér um afgreiðslu þess máls að mörgu leyti býsna merkilegt og sögulegt samkomulag og einn hlutinn af því að innsigla það samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu var sá að það tókst um það samkomulag við 3. umr. málsins að brtt. sem ég flutti um að gera skyldi sérstaka úttekt á þessu máli áður en lögin öðluðust gildi, var sett inn sem ákvæði til bráðabirgða. Þar var viðskrh. falið að gera slíka úttekt og skila henni til Alþingis í formi skýrslu og það má fyrrv. viðskrh. eiga að þessi vinna var mjög myndarlega unnin og ég tel skýrsluna að mörgu leyti hið merkasta gagn. Þetta var gert vegna þess að menn voru að reyna að þróa íslensk viðskipti yfir á meiri samkeppnisgrundvöll með setningu samkeppnislaganna en höfðu sérstakar áhyggjur af og hafa enn, fákeppni og hringamyndun, blokkamyndun í íslensku viðskiptalífi sem auðvitað er hverjum manni ljós sem þá hluti skoðar. Skýrslan kortleggur þessa hluti ágætlega en þar með er það líka upp talið. Þetta held ég að menn verði að hafa rækilega í huga þegar komið er að umfjöllun um þessi bankamál eða þessar breytingar í peningamálum öllum saman því hér eru á eftir á dagskrá, herra forseti, eins og kunnugt er, fleiri mál sem þessu tengjast.

[15:45]

Ef við lítum aðeins á það, herra forseti, hvað er fært fram máli þessu til tekna sérstaklega þá er eitt sem gjarnan er sagt, að með breytingum af þessu tagi eigi að draga úr ríkisumsvifum og afskiptum stjórnmálamanna, afskiptum stjórnmálamanna af peningamálum. Það er alveg sérstaklega fínt að segja það. Og hvernig er svo staðið að því? Jú, það er þannig að hf. er sett aftan við nafnið, því er ekki breytt heldur bara sett hf. aftan við. Og við það gerist það aðallega að einn stjórnmálamaður í staðinn fyrir Alþingi allt áður fer að setja þessu fyrirtæki stjórn. Og hvaða stjórnmálamaður er þetta? Það er hæstv. viðskrh. eins og hér er frá málunum gengið. Og hvað er þá að gerast í íslenska peningakerfinu ef þetta gengur nú allt yfir, breytingin á bönkunum, stofnun hins nýja fjárfestingarbanka, stofnun nýsköpunarsjóðsins og síðan sú háeffun ríkisfyrirtækja, sem mörg hver heyra undir sama mann, og hefur verið að ganga yfir? Það sem ósköp einfaldlega er að gerast er að í staðinn fyrir þverpólitískt kjörnar stjórnir þessara fyrirtækja eða bankaráð skipar einn einasti stjórnmálamaður úr einum flokki bankaráðið. Og við blasir sú framtíð að innan tveggja ára eða svo verði bankaráð Landsbankans, bankaráð Búnaðarbankans, meiri hluti af stjórn fjárfestingarbanka atvinnulífsins, stjórn nýsköpunarsjóðs, stjórn Landsvirkjunar, stjórn Sementsverksmiðjunnar og margra fleiri stórfyrirtækja og fjármálastofnana, öllum settar stjórnir af einum og sama manninum úr einum og sama flokknum. Er þetta að draga úr afskiptum stjórnmálamanna af peningamálum eða atvinnumálum yfirleitt? Eru þetta minnkuð ríkisafskipti? (Gripið fram í: Þú gleymir heilmörgum.) Ég gleymi miklu, tímans vegna fer ég ekki yfir nema efsta hlutann af listanum. Hæstv. ráðherra má gjarnan leggja hann fram okkur til yndisauka.

Ég, herra forseti, nefni þetta í fyrsta lagi að það verður að setja mjög stórt spurningarmerki við það að hér sé um mjög heilbrigðar breytingar að ræða út frá valddreifingar- eða lýðræðissjónarmiðum eða í öllu tilliti yfirleitt. Auðvitað færa menn ýmis fleiri rök sem ástæðulaust er svo sem að tíunda. Þau eru rækilega talin hér í grg. Þar er m.a. nefnt að með þessu komist á heilbrigðari og réttlátari samkeppnisforsendur í bankaviðskiptum þar sem staða ríkisbanka hafi verið önnur en einkabankans og að nokkru leyti sparisjóðanna. Það er nokkuð til í því. En eftir stendur að þarna verður ýmiss konar munur á. Staða ríkisbankanna hefur ekki í öllu tilliti verið betri, hún hefur í sumu tilliti verið verri. Þannig að það er ekki alveg einfalt mál að meta slíka hluti.

Ef við lítum þá aðeins, herra forseti, á það sem færa má undir mínusliði eða hluti sem geta orkað tvímælis í sambandi við þessar breytingar á bankakerfinu, þá staldrar maður nú við það kannski fyrst að með þessu breytist ósköp lítið. Staðreyndin er náttúrlega sú að þetta er lágmarksaðgerð, a.m.k. að því marki sem bara er um að ræða breytingu ríkisbankanna yfir í hlutafélagsform. Þetta er nefnilega alls ekki nein víðtæk uppstokkun eða endurskipulagning í íslenskum fjármálaheimi sem ástæða væri auðvitað til að kalla eftir ef menn eru í alvöru að ræða hér um þörfina á aukinni hagræðingu og endurskipulagningu þessara stofnana. Þetta er það ekki. Ef þetta þýðir bara hf. aftan við Landsbankann og Búnaðarbankann og þýðir svo að þessir tveir bankar reka áfram öll sín útibú án nokkurrar uppstokkunar eða hagræðingar á sinni starfsemi, þá er þetta auðvitað ekki neitt neitt í raun og veru. Og það má alveg eins nálgast þetta mál frá þeim sjónarhóli að lýsa yfir sérstökum vonbrigðum yfir því hversu snautleg í rauninni þessi niðurstaða er. Sérstaklega vegna þess að samanburður á síðustu árum hefur auðvitað, því miður, sýnt okkur fram á að íslenskt bankakerfi er langt aftur á lendinni hvað varðar að standast einhverja samkeppni við banka í nálægum löndum. Það er miklu dýrara í rekstri, tekur sér miklu meiri vaxtamun og á þar með talið þátt í því að halda hér uppi einhverju hæsta raunvaxtastigi í heiminum.

Þetta er með öðrum orðum, herra forseti, ekki hluti af víðtækari uppstokkun og hagræðingu í bankakerfinu og/eða fjármálageiranum yfirleitt til þess að gera íslenskar stofnanir frekar samkeppnisfærar. Rekstrarkostnaður og vaxtamunur er hér miklu meiri en annars staðar og verður það áfram ef ekkert annað gerist en þetta. Ef hér hefði verið á dagskrá að ræða víðtæka uppstokkun í bankakerfinu og fjármálageiranum þá hefði verið gaman að fara yfir það hvaða möguleikar fælust í stöðunni. Ég nefni þar fyrstan þann sem við alþýðubandalagsmenn höfum á undanförnum missirum haldið til haga, sem er sameining ríkisbankanna í einn stóran öflugan banka. Banka sem hefði mikið frekar haft til þess burði að veita nútímalega bankaþjónustu, að ráða við stærri eða jafnvel stærstu íslensku fyrirtækin sem engin íslenskur banki gerir í dag, sem hefði getað náð máli á alþjóðlegan mælikvarða, hefði a.m.k. sést með stækkunargleri í London en ekki þurft sérstaka smásjá eins og þarf í dag þegar íslenskir bankar eru bornir saman við erlenda. Ef um hefði verið að ræða sameiningu bankanna og fjárfestingarlánasjóðanna í einn mjög sterkan banka með fjárfestingarlánadeild, þá hefði það líka verið í átt til nútímalegrar þróunar bankaviðskipta eins og hún er erlendis þar sem langtímafjármögnun er almennt verkefni banka en ekki sérstakra sjóða. Það er ekki. Ef um hefði verið að ræða annars konar endurskipulagningu íslenska bankakerfisins, t.d. þannig að Búnaðarbankinn hefði verið tekinn og stokkaður upp, hann hefði að stórum hluta gengið í samband við sparisjóðina og myndað eina heildstæða sparisjóðakeðju um landið en að öðru leyti e.t.v. að einhverju leyti sameinast Landsbankanum, þá hefði þar sömuleiðis verið endurskipulagning á ferðinni sem hefði gefið vonir um aukna hagræðingu. Ef t.d. Landsbankinn og Fiskveiðasjóður hefðu sameinast, og hefði nú legið nærri þar sem obbinn af viðskiptum við íslenskan sjávarútveg, bankaviðskiptum, er hjá Landsbankanum og Fiskveiðasjóður er fjárfestingarlánasjóður sjávarútvegsins, þá hefði verið á ferðinni breyting sem hefði gefið fyrirheit um hagræðingu og verið efnislega rökrétt út frá viðskiptum bankanna. Eða ef á ferðinni hefði verið einhver blanda af þessu. En það er ekki. Hvað varðar endurskipulagningu sem slíka í bankakerfinu og fjárfestingargeiranum er þetta í raun og veru algjör lágmarksaðgerð, nánast andlitslyfting --- nafnbreyting, það að þessir fátæklegu stafir, hf., koma þarna bak við gamalkunn nöfn á tveimur stöðum --- og punktur.

Lítum aðeins nánar á þann möguleika að sameina ríkisbankana, Landsbankann og Búnaðarbankann. Helstu rökin sem færð eru fram gegn því eru að það sé ekki viðráðanlegt vegna þess að þá verði of mikil fákeppni eða þessi aðili of stór í bankaviðskiptunum. En hverju eru menn þá að horfa fram hjá? Þeir eru þá að nota það sem rök fyrir því að afsala sér hlutum sem eru svo borðleggjandi hagstæðir íslenskum neytendum og íslensku atvinnulífi að ég kalla það mikið ábyrgðarleysi að nota jafneinfaldan og raunverulega lítt rökstuddan hlut, eins og það að það geti þá orkað tvímælis hvort það sé ekki óhagstætt út frá samkeppnisforsendum, til að henda því út af borðinu. Því hvað er í boði ef menn sameinuðu ríkisbankana í einn stóran öflugan banka? Í fyrsta lagi a.m.k. milljarður í hagræðingu að mati bankastjóra Landsbankans, samanber ræðu hans á aðalfundi Landsbankans í fyrra, þar sem reyndasti bankastjóri Landsbankans, Björgvin Vilmundarson, mat hagræðinguna sem lægi á borðinu upp á milljarð. Og sagði í öðru lagi: Það er a.m.k. hægt að leggja niður 18 útibú, það er hægt að spara rekstrarkostnað 18 útibúa a.m.k. með því að sameina þessa banka. (Gripið fram í: Hvar á að loka?) Það hafa líka komið fram þau sjónarmið að samkeppnisforsendurnar í þessu máli, eins og þær eru upp lagðar, eigi í raun og veru ekki við með þeim formúlum sem hér hafa verið settar upp. Vegna þess að er einhver stór munur á fákeppnisaðstæðunum á íslenskum bankamarkaði eins og þær eru í dag hvort einingarnar eru þrjár eða fjórar? Er það? Aðhaldið er ekki fyrst og fremst innbyrðis samkeppni bankanna. Það er mjöguleiki fyrirtækjanna til að leita út fyrir landsteinana með viðskipti sín og síðan er það þannig að þegar varðar viðskipti og þjónustu við almenning þá ná menn ekki samkeppni nema að reka þrjú og fjögur útibú á hverju einasta viðskiptasvæði. Og eru menn tilbúnir til að borga þann kostnað? Svarið er nei. Niðurstaðan er hvort sem er víðast sú að annars staðar en á fjölmennustu stöðunum er ein bankastofnun, mjög víða. Og hvar er þá samkeppnin þar? Á þá bara hluti landsmanna að búa við samkeppni eða hvernig er það?

Það er athyglisvert, herra forseti, að fara aðeins betur yfir þetta mál vegna þess að svo vill til að fyrir liggur skjalfestur stuðningur við að þessi kostur verði mjög rækilega athugaður úr ólíklegustu áttum. Ég nefni fyrstan þennan ágæta bankastjóra Landsbankans sem setti fram og rökstuddi mjög vel þessa skoðun. Ég nefni í öðru lagi ekki ómerkara apparat en Morgunblaðið því svo skemmtilega vill til að þessari hugmynd og tillögum Alþb. um að sameining ríkisbankanna yrði rækilega skoðuð barst stuðningur úr óvæntri átt í leiðara Morgunblaðsins fyrir ekki löngu síðan. Það var 10. mars 1996 sem leiðari Morgunblaðsins fjallaði um þetta mál og vitnaði í Björgvin Vilmundarson, taldi það sjónarmið sem þar kæmi fram um sameiningu afar athyglisvert og taldi ekki ástæðu til að hafa of miklar áhyggjur af því að skortur á samkeppni ætti að hindra að menn skoðuðu þennan kost. Og Morgunblaðið fór yfir það, með leyfi forseta, með svofelldum hætti:

,,Að auki má benda á þrennt, sem á að draga úr áhyggjum af því, að sameining þessara tveggja banka leiddi til of lítillar samkeppni. Í fyrsta lagi er ljóst, að sparisjóðirnar eru að stóreflast og má í því sambandi benda á nánast ótrúlega innlánsaukningu í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á síðasta ári. Í öðru lagi fer ekki á milli mála, að breiddin á fjármagnsmarkaðnum hefur aukist verulega á undanförnum árum. Þeir sem þurfa á þjónustu banka að halda geta nú bæði leitað út á innlendan fjármagnsmarkað og auk þess leitað eftir viðskiptum við erlenda banka. Í þriðja lagi er ekki óhugsandi, að hér rísi nýr einkabanki, sem rekinn yrði í öðru formi en núverandi viðskiptabankar. ... Í fjórða lagi má nefna hugmyndir um að breyta fjárfestingarlánasjóðum í einn fjárfestingarbanka.``

Morgunblaðið taldi með öðrum orðum margt vera breytt í stöðunni sem þýddi að það væri ekki ástæða til að hafna fyrir fram og nema að mjög vel athuguðu máli þeim kosti að sameina ríkisbankana. Og þegar fyrir liggur rökstutt mat á því að með þeirri breytingu megi ná fram langtum meiri hagræðingu heldur en nokkurri annarri sem nefnd hefur verið á nafn í þessu sambandi, hvers vegna afsala menn sér þá þeim kosti að óathuguðu máli?

Ég ætla að síðustu að nefna einn liðsmann enn, það er nú kannski meira til gamans og af sögulegum ástæðum, fyrir því að sameiningu ríkisbankanna verði ekki hafnað að óathuguðu máli. Og hver er hann? Hann situr núna í Seðlabankanum. Er einn af bankastjórum Seðlabankans en var formaður Framsfl. þegar hann setti fram sín sjónarmið m.a. í ítarlegri ræðu á fundi Framsóknarfélags Reykjavíkur á árinu 1991 um þessi mál. Þá sagði Steingrímur Hermannsson, þáv. hv. þm., því þetta var 29. júní 1991, nú seðlabankastjóri. (Gripið fram í: Það er svo langt síðan þetta var.) Er hv. þm. að afneita manninum, eða hvað? Já, það er langt síðan þetta var en ætli skoðunin sé ekki í gildi út af fyrir sig. Hann hlýtur a.m.k. að hafa meint það þegar hann sagði það þarna. Í ræðunni var sagt að athuga þyrfti sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka. Með leyfi forseta: ,,Hann [þ.e. Steingrímur Hermannsson] ræddi nokkuð hugmyndir um að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og selja þá einkaaðilum. Sagði hann að það að breyta bönkunum í hlutafélög skipti ekki miklu máli ef ríkið ætti allt hlutaféð en hins vegar væri ekki góð reynsla af því að selja einkaaðilum ríkisbanka``. Þetta sagði formaður Framsfl. á árinu 1991.

[16:00]

Síðan fór hann yfir sölu Útvegsbankans og ýmislegt í þeim dúr og sagði svo ,,að mikilvægt væri að hafa í landinu sterkan íslenskan banka og athugandi væri að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka í því skyni.`` Fleiri fögrum orðum fór hv. þáv. þm., Steingrímur Hermannsson og formaður Framsfl., um það mál út frá þessum forsendum. Þarna eru nú komnir liðsmenn sitt úr hvorri áttinni þar sem eru Björgvin Vilmundarson, bankastjóri Landsbankans, Alþb. með málflutningi sínum undanfarin missiri, leiðari Morgunblaðsins og fyrrv. formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson. Hvers vegna virðir núv. hæstv. viðskrh. ekki þennan möguleika viðlits heldur leggur fram frv. þar sem algjörlega er horft fram hjá þeim möguleika til hagræðingar í íslenska bankarekstrinum? (Gripið fram í: Það er kominn nýr formaður.) Það er að vísu rétt, já, það er kominn nýr formaður fyrir Framsfl.

Fleira mætti nefna af þessu tagi, herra forseti, sem ég tel að þetta mál gangi í raun algjörlega fram hjá. Ég trúi ekki öðru en á þinginu skapist í umfjöllun um þetta mál möguleikar til að fara í miklu, miklu víðtækari úttekt og skoðun á því hvaða breytingar, hvers konar uppstokkun, hvers konar hagræðing er vænlegust í íslenska fjármálaheiminum því mikil þörf er á slíku. Það er mikil þörf á því. Ég tel að þessi lending, þessi niðurstaða, þessi magalending, þessi tangarfæðing stjórnarflokkanna eftir allt kvalræðið sé uppgjöf í þeim skilningi að reyna að endurskipuleggja íslenska peningakerfið, fjármálastofnanirnar á einhverja nútímalega vísu þannig að það sé í takt við breyttar aðstæður bæði erlendis og innan lands, fullkomin uppgjöf. Það er t.d. eitt sem menn hljóta að þurfa að athuga í því sambandi og það er að erlend umsvif íslenskra fyrirtækja hafa vaxið að miklum mun á síðustu árum og það ásamt fleiru hefur leitt til þess að þau í æ ríkari mæli leita nú út fyrir landsteinana með sína þjónustu. M.a. vegna þess að íslensku bankastofnanirnar eru svo litlar og kannski óhagkvæmar. Hefðu þá ekki vænlegustu viðbrögðin við því verið að reyna að efla eina sæmilega sterka stofnun sem gæti a.m.k. veitt samkeppni á þessu sviði? Það er ekki gert með þessu.

Um efnisatriði og einstök ákvæði í frv., herra forseti, vil ég fyrst segja nokkur orð um starfsmannamálin sem fjallað er um í greinum 8--10 í frv. Ástæða er til að athuga þar ýmsa þætti sem ekki liggja kannski ljóst fyrir út frá fátæklegri umfjöllun um það í grg. með frv. eða í umsögnum um einstakar greinar frv. Ég staldra sérstaklega við 9. gr. og ákvæði sem lúta að ráðningu og starfskjörum bankastjóra og nokkurra toppa í bönkunum. Þarna er um algjörlega tvískipta uppsetningu að ræða. Annars vegar eru það almennir starfsmenn bankanna og sæmilega skýrt að þeim skal öllum bjóða sambærileg störf í hinum nýju bönkum. Það er auðvitað gert til að upphefja biðlaunarétt þeirra að óbreyttu. Öðruvísi en að bjóða þeim öllum störf er ekki hægt að svipta þá biðlaunaréttinum sem þeir hafa og þar með reynir í fyrsta skipti á gambítinn sem hæstv. ríkisstjórn ákvað að setja á alla ríkisstarfsmenn með breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna á sl. vori. Þau voru sett og þannig frá þeim gengið eins og raun ber vitni til þess að síðan væri hægt að segja eins og hér er gert í 8. gr. að öllum skuli bjóða störf og ef þeir ekki þiggi þau þá eti þeir það sem úti frýs. Þannig var það mál leyst af stjórnarflokkunum. Og kannski er ekki mikið meira um það að segja. Það liggur fyrir eins og það er.

Í 9. gr. eru bankastjórar, staðgenglar bankastjóra, forstöðumaður endurskoðunardeildar og eftir atvikum aðstoðarbankastjórar Landsbanka og Búnaðarbanka hins vegar undanskildir þessu. Þetta þýðir að ekki er endilega ætlunin að bjóða þeim störf. Því er með öðrum orðum haldið opnu að segja þeim upp, láta þá bara hvína. Þá eiga þeir að vísu biðlaunaréttinn vegna þess að þeirri skyldu hefur þá ekki verið fullnægt að bjóða þeim djobb í staðinn. Þá meta menn það væntanlega svo að það sé betri kostur í þeim tilvikum að borga biðlaunin. Hins vegar segir ekkert um það hvernig hugsunin er að halda á þessum málum í hinum nýju hlutafélögum eins og m.a. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson benti á áðan. Er ætlunin að hafa bankastjórann einn eða þrjá? Á þetta toppakerfi, þetta silkihúfusístem allt saman að halda sér eða ekki? Það er dálítið sérkennilegt í ljósi þess t.d. að hæstv. viðskrh. hefur haft uppi heilmikil orð um launakjör bankastjóra. Hæstv. viðskrh. sagði hér á þingi ekki alls fyrir löngu að nauðsynlegt væri að lækka laun bankastjóranna, þetta væri alveg út í hött að þeir hefðu svona mikil laun. Síðan var hæstv. ráðherra spurður að því á aðalfundi Landsbankans hvort ætlunin væri að lækka laun bankastjóra en þá var hæstv. ráðherra allur genginn inn í sig og kannaðist ekki við neitt. Það er hollt að hafa í huga í sambandi við þetta mál að borin var upp sú tillaga í bankaráði Landsbankans þegar þar var síðast ráðinn bankastjóri, og það er ekki mjög langt síðan eins og einhverjir muna, að gerður yrði við hann tímabundinn samningur í ljósi þess að til stæði að breyta rekstrarformi bankanna en ekki fest við hann ráðning til fimm ára eins og venja er. Hvernig fór það mál? Hvernig stóðu stjórnarflokkarnir að því? Fulltrúar þeirra í bankaráði Landsbankans felldu að ekki yrði festur samningur við einn af þremur bankastjórnum til fimm ára rétt áður en bönkunum yrði breytt. (Gripið fram í: Þeir eru í minni hluta í bankaráðinu.) Þeim dugði hjáseta eins bankaráðsmanns til að fella á jöfnu tillögu um að þetta yrði gert svona. Og ábyrgð þeirra er væntanlega hvorki meiri né minni eftir sem áður hver úrslitin urðu. Það er atkvæði þeirra hvernig þeir greiða það sem skiptir máli, er það ekki? En ekki einhver talnafræði um hvernig hlutföll standa í bankaráðinu? Eða hefur hv. þm. vanist því hér í sinni þingmennsku að efnisleg afstaða hans í atkvæðagreiðslum sé öðruvísi þegar hann tekur afstöðu til máls hvort hann er einn af fimm eða einn af tíu? Ég hélt að það væri efnið sem skipti máli. Það er kannski eitthvað öðruvísi í Sjálfstfl. og báðum núv. stjórnarflokkum ef til vill.

En þetta, herra forseti, tel ég ástæðu til að draga fram vegna þess að þetta kann að vera lýsandi um það hvað hér er á ferðinni. Hvers konar feluleikur er á ferðinni með því að þegja þunnu hljóði um hluti af þessu tagi? Er þá verið að undirbúa að hið flokksstýrða kerfi haldi þarna áfram bara með nýja tvo bókstafi aftan við nafnið á bönkunum? Er það? Vísar þetta til þess? Af hverju er ekkert sagt um hver stefnan eigi að vera gagnvart mjög mikilvægum þáttum varðandi uppbyggingu og rekstur og meðferð mála í bönkunum þegar þar að kemur?

Herra forseti. Ég vil einnig víkja aðeins að ákvæðum 5. gr. frv. um ákvörðun heildarfjárhæðar hlutafjár í bönkunum. Þar er um að ræða ákaflega afdrifaríkar ákvarðanir svo sem hversu hátt hlutaféð verður í upphafi. Sú regla er sett ein að það skuli ekki verða hærra en sem nemur 75% af eigin fé Landsbankans og Búnaðarbankans. Þá er auðvelt að reikna út að nafnvirði hlutafjár í Búnaðarbankanum yrði um 3,1 milljarður og í Landsbankanum um 4,6 milljarðar. En þetta skiptir ekki síst máli vegna þess ef síðan verða teknir inn nýir meðeigendur, allt að 35% með því að bjóða út viðbótarhlutafé, þá skiptir verðlagningin á bönkunum sem slík og hvernig hlutföll verða milli hlutafjár og innra virðis bankanna mjög miklu máli. Það þarf sem sagt ekki mjög háar fjárhæðir til að gerast stór meðeigandi að bönkunum á móti ríkinu ef gengið á viðbótarhlutafénu yrði lágt þegar það yrði boðið út í ljósi þess hversu lágar fjárhæðir nafnverð hlutafjár í ríkisbönkunum verður með þessum aðferðum og kemur þá að ýmsum mikilvægum álitamálum sem hér er nauðsynlegt að staldra við. En einkum er það sérkennilegt hversu mikið vald á að framselja í hendur viðskrh. til að ganga frá þessum málum. Það er merkilega óljóst hér hvernig á að ganga frá þessu. Í raun og er það þannig að einræðisherrann tilvonandi sem á að fara að skipa stjórnir allra mikilvægustu fjármálastofnana í landinu einn og fríhendis fyrir utan allt annað ætlar líka að ráða því meira og minna í formi heimildarframsals hvernig verðlagningu verði háttað.

Ég vil einnig staldra við ákvæðið um sölu eða heimildir til sölu í formi þess að taka inn meðeigendur að bönkunum. Þar er í raun og veru á ferðinni algjörlega opin og óskilyrt heimild til að taka inn meðeigendur upp á allt að 35%. Það er verulegt framsal á valdi til ráðherrans til að ákveða á hvað þessi hlutur verður látinn eins og ég tel mig hafa rökstutt. Síðan er alveg kostulegt orðalag, samanber á bls. 8 og 11 í grg. með frv. um það að ekki standi til að selja hlutabréf í hlutafélagabönkunum og það beri jafnframt að stefna að dreifðri eignaraðild. En hvernig? Á bls. 11 í umsögn um 6. gr. er sagt, með leyfi forseta:

,,Miðað er við að hlutafé í eigu ríkisins í bönkunum tveimur verði ekki selt fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.``

Hvað er hér verið að segja á mannamáli? Hefur ríkisstjórnin einhverja stefnu í þessu og hver er hún þá? Það er ekki einu sinni sagt afdráttarlaust að þetta verði ekki gert fyrstu fjögur árin. Það er ,,miðað við`` það. Af hverju fjögur ár? Hvaða vísindi eru fólgin í því? Var það nauðsynlegt til að leysa sambúðarvanda stjórnarflokkanna um að færa þetta aðeins aftur fyrir næstu kosningar þannig að þeir væru óbundnir af þessu ef þeir kynnu nú að lenda upp í hjá einhverjum öðrum? Þetta er mjög sérkennilegt, herra forseti, því hér eru engin smámál á ferðinni. Hér er verið að tala um það sem auðvitað felst í þessu máli, að það er ekki fyrst og fremst breyting á formi úr ríkisfyrirtæki yfir í hlutafélag. Það er upphafið að einkavæðingu þessarar starfsemi og hvernig hún fer fram ef til kemur er ekkert smámál. Ég trúi því ekki að hæstv. viðskrh. sé svo barnalegur að hann ímyndi sér að hann sleppi frá umræðunni og með málið í gegnum þingið í skjóli orðalags af þessu tagi. --- ,,Miðað er við að hlutafé í eigu ríkisins í bönkunum tveimur verði ekki selt fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.``

Í 18. gr. frv. koma fyrir ákvæði sem einnig er ástæða til að staldra aðeins við. Þar segir á einum stað að:

,,Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Búnaðarbanka Íslands.``

Hvað þýðir það? Það þýðir í tilvikinu Landsbanki Íslands að hið nýja hlutafélag, Landsbankinn hf., fær í arf frá foreldri sínu, því þetta er eingetið fyrirbæri eins og kunnugt er, rúma 3 milljarða kr. í yfirfæranlegu tapi, rúma 3 milljarða kr. í heimanmund í yfirfæranlegu tapi til frádráttar frá hugsanlegum skattgreiðslum á komandi árum. Plús það að inn í nýja bankann, ,,háeffið``, færist rúmlega 2 milljarða kr. víkjandi lán sem Landsbankanum var veitt á sínum tíma í erfiðleikum hans. Það er afar óljóst af frv., greinargerð og fylgiskjölum, hvernig á að fara með þetta mál. Það er svo óljóst að sjálft fjmrn. neyðist til að vekja athygli á því að þarna séu á ferðinni hlutir sem ástæða sé til að taka betur á. Þeir segja: ,,Taka þarf afstöðu til þessara mála við undirbúning að stofnun hlutafélagsbankanna, sbr. umfjöllun um 5. gr. frumvarpsins.``

Þarna eru ekki neinir smáaurar á ferðinni. Þarna eru 5 milljarðar á ferð ef lagt er saman tapið og víkjandi lánið, með öðrum orðum það er tala af svipaðri stærðargráðu og allt eigið fé Landsbankans. Og orðalagið er af þessu tagi sem okkur er boðið upp á til að átta okkur á því hvernig á að fara með þessa hluti. Meira að segja fjmrn. sem væntanlega hefur ekki ætlað að leggja stein í götu þessa máls viljandi miðað við þankagang húsbændanna þar neyðist til að vekja athygli á því að þarna sé um mjög óljósa hluti að ræða sem þurfi að ganga betur frá.

Herra forseti. Ég tel að margt sé órætt í þessu máli og mjög mörg atriði sem liggi afar óljós fyrir svo ekki sé meira sagt. Ég trúi því satt best að segja ekki að mönnum sé alvara með að afgreiða þetta mál á þessu þingi. Mér finnst það svo yfirgengilegt ef menn ætla að afgreiða þetta nú á þeim tiltölulega fáu vikum, vinnutíma sem eftir er af þinginu og láta þetta ganga í gildi um næstu áramót í ljósi allrar þeirrar vinnu sem hlýtur að verða eftir þegar búið er að ganga frá lagarammanum, að ég get ekki kallað það neitt annað en ábyrgðarleysi, herra forseti. Það er hreint ábyrgðarleysi að leika sér þannig með mikilvægustu fjármálastofnanir þjóðarinnar.

[16:15]

Ég tel að það sé mikil vinna óunnin hvað varðar bæði innri skoðun á þessu máli, því sem snýr að mati verðmæta og framsetningu mála, en líka það að skoða þetta í samhengi við núverandi aðstæður í fjármálaheiminum, breytingar sem eru að verða í þessum efnum erlendis, t.d. samruna og stækkun banka í nágrannalöndunum sem við hljótum að þurfa að taka mið af. Og ýmsar aðrar breytingar í íslensku viðskiptalífi svo sem þær að íslensk fyrirtæki, eins og ég hef áður nefnt, eru í síauknum mæli að hasla sér völl í viðskiptum á alþjóðavettvangi og munu leita með þjónustu sína út fyrir landsteinana í enn ríkari mæli en nú þegar er orðið, ef íslenska bankakerfið og fjármálaheimurinn tekur ekkert mið af þeirri þróun sem er að gerast alls staðar í kringum okkur.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að eiga a.m.k. eina mjög öfluga og sterka innlenda fjármálastofnun. Ég hefði talið heppilegt að upp úr endurskipulagningu og uppstokkun íslenskra fjármálastofnana hefðu komið t.d. þrjár heildstæðar bankakeðjur, ein ríkisbanka- eða þjóðbankakeðja, ein sparisjóðakeðja og ein einkabankakeðja. Og a.m.k. ein af þessum þremur stofnunum hefði orðið svo öflug með fjárfestingarlánastarfsemi innan borðs að hún gæti veitt jafnvel stærstu innlendu fyrirtækjunum fullnægjandi fjármálaþjónustu á öllum sviðum. Það hlýtur að vera markmiðið að standa þannig að málum ef við viljum til frambúðar tryggja sjálfstætt íslenskt efnahagslíf.