Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:27:56 (4280)

1997-03-11 16:27:56# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:27]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Umræðuefnið utan dagskrár er skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar þó hv. þm. kysi að fjalla um það sem hann sagði að væri ekki í boðskap ríkisstjórnarinnar. Ég ætla hins vegar að halda mér við dagskrárefnið og fjalla um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar og tilkomu þeirra. Eins og menn vita óskaði Alþýðusambandið sérstaklega eftir því að ríkisstjórnin mundi koma inn í þá samningsstöðu sem nú var uppi með lækkunum skatta. Það fólst ekki, eins og ætla mætti af ræðu hv. þm., málshefjanda, í tillögum Alþýðusambandsins að sú skattalækkun skyldi vera krónuleg, heldur hlutfallsleg lækkun og þannig var það auðvitað í samræmi við þær kröfur sem Alþýðusambandið gerði.

Það er ljóst að sú skattalækkun sem ríkisstjórnin kynnti í gær er ein umfangsmesta skattalækkun sem hér hefur verið gerð um mjög langan tíma. Það er ákveðið að tekjuskatturinn lækki um 4% á samningstímanum, raunverulega á tveimur og hálfu ári, ekki fjórum árum eins og sumir fjölmiðlar hafa nefnt heldur á tveimur og hálfu ári, þá lækka tekjuskattar í staðgreiðslu um 4%. Það er mikil lækkun, þörf og tímabær. Og það stendur ekki til, svo ég svari hv. þm., að bæta ríkissjóði upp þær skattalækkanir með skattahækkunum en dæmi um slíkt eru alþekkt í okkar sögu.

Það fer ekkert á milli mála og gengur þvert á það sem hv. þm. sagði, að þeir sem njóta mest þeirrar skattalækkunar sem nú er orðin, er fólk með meðaltekjur í kringum 250 þús. kr. á mánuði. Og við vorum einmitt að svara kröfum um það að bæta hag þessa hóps, ekki síst. Það var gert ráð fyrir því í kjarasamningunum að leggja mesta áherslu þar á hækkun launa þeirra lægst launuðu. Alþýðusambandið vildi þess vegna beina því til ríkisstjórnarinnar að koma inn í málið með skattalækkunarprógramm beinna skatta sem beindist auðvitað að þeim sem borga skatta. Alþýðusambandið gerði sér auðvitað ljóst að lækkun beinna skatta hlaut að beinast að þeim sem borga skatta, þó það virðist hafa farið fram hjá hv. þm. sem hér talaði áðan.

Sem dæmi um áhrif þessarar skattalækkunar má nefna að ráðstöfunartekjur hjóna með tvö börn þar sem meðaltekjur hjónanna eru samanlagt um 250 þús. kr. á mánuði, hækka um 8.800 kr. á mánuði eða um 4,4% vegna skattalækananna einna, fyrir utan þær hækkanir sem verða vegna kjarasamninganna. Ráðstöfunartekjur hjóna með þrjú börn og 250 þús. kr. heimilistekjur aukast um 13.600 kr. á mánuði eða um 6,8%. Það er fjarri öllu lagi að reyna að halda því fram, eins og hv. þm. gerði og ég skil ekki hvað fyrir hv. þm. vakir, að fullyrða hér og halda því fram, að þessar skattalækkanir gagnist hlutfallslega best og mest þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Þvert á móti er út frá því gengið að svokallaður hátekjuskattur er hækkaður úr 5% í 7%. Það leiðir þegar af þeirri ákvörðun að sá hópur nýtur ekki þessarar skattalækkunar eins og allur hópurinn þar fyrir neðan. Það er einfalt reikningsdæmi og hv. þm. er svo reikningsglöggur að hann fer nærri um það.

Því hefur verið haldið fram að með þessum skattabreytingum séum við ekki að draga á þær þjóðir sem kjaralega séð hafa staðið sig betur en við á undanförnum árum vegna þeirrar kreppu sem við höfum gengið í gegnum og erum nú senn komin út úr. Því fer líka fjarri. Það er algjörlega ljóst eftir þessar ráðstafanir, ef kjarasamningar verða á sömu nótum og þeir sem þegar hafa verið gerðir hjá stórum félögum, að íslenskir launþegar munu verulega draga á stéttarbræður sína í nálægum löndum. Kaupmáttur íslenskra launþega mun á tveimur og hálfu ári aukast um rúm 10%. Það er mjög erfitt að finna dæmi þess að slíkt hafi verið gert áður á traustum grunni. Það má nefna dæmi þess að kaupmáttur hafi rokið upp um stund en undirstöðurnar hafi verið falskar. En mjög fá dæmi er hægt að nefna í sögunni um að tekist hafi að gera þetta áður á traustum grunni og að við drögum svo mjög á aðrar þjóðir um kaupmáttaraukningu á jafnskömmum tíma.

Ég hygg að flestir landsmenn, öfugt við hv. þm., fagni mjög þessum tillögum og eigi mjög bágt með að skilja hvers vegna þingmaðurinn les þessar skattalækkunartillögur eins og ónefnd persóna faðirvorið.