Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:33:05 (4281)

1997-03-11 16:33:05# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er mjög margt sérkennilegt við útspil hæstv. ríkisstjórnar í þessum skattamálum fyrir utan innihaldið. Allur aðdragandi og samhengi málsins er mjög sérkennilegt. Sjálfstfl. situr í raun og veru öllum megin við þetta borð enn sem komið er. Fyrst gefur hæstv. forsrh. tóninn í viðtali við Morgunblaðið í janúar og gefur út löggilta skoðun á því hvað kjarabætur megi verða miklar. Síðan koma til íhaldsmenn í forustu Verslunarmannafélags Reykjavíkur og semja við aðra íhaldsmenn í forustu tiltekinna félaga eða samtaka um kjarabætur sem eru akkúrat á línu hæstv. forsrh. Þar með er íhaldið sem sagt búið að semja vel fram yfir aldamót, vel fram yfir næstu kosningar og þá, nákvæmlega þá, er skattapakka ríkisstjórnarinnar spilað út. Áður en búið er að semja við fjölmennustu heildarsamtök verkafólks í landinu er spilað út í kjölfar þess að kjaramálastefnan er á þeim nótum eða jafnvel ívið hógværari en hæstv. forsrh. hafði boðað þannig að í þeim skilningi er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson að verða einn af róttækustu verkalýðsforingjum í landinu. Hann var jafnvel búinn að boða ívið meiri kjarabætur ef eitthvað væri.

Við núverandi efnahagslegar aðstæður, herra forseti, þá er það mín skoðun að það sé í grundvallaratriðum rangt að senda reikninginn vegna þessara kjarasamninga á ríkissjóð. Það er nægt svigrúm í atvinnulífinu, góðæri hjá fyrirtækjunum, til þess að gjaldfæra launahækkanirnar þar.

Þegar kemur að efni þessa skattaútspils þá er það stórgallað. Það skilar þeim tekjuhæstu sannarlega mest í krónum talið. Skattahækkun á lægstu laun kemur inn í þeim skilningi að skattleysismörk fylgja ekki launahækkunum. Það er fyrst og fremst, herra forseti, barnalaust hátekjufólk sem græðir á þessari útkomu. Það var aldrei ætlunin.