Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:42:13 (4285)

1997-03-11 16:42:13# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hæstv. síðasti ræðumaður sagði að ríkisstjórnin ætti að skila aftur sköttum sem hún hefur tekið umfram skatta á umliðnum árum. Sannleikurinn er sá að heildarskatttekjur ríkissjóðs á liðnu ári, árinu 1996, voru sem hlutfall af vergri landsframleiðslu nákvæmlega þær sömu og 1992 þegar hv. þm. sat í ríkisstjórn og árið 1989 þegar hann sat í ríkisstjórn með Alþb., eða 24,1%. Það er hins vegar rétt að hann ásamt fleirum vann að því að færa til skatta, þar á meðal óbeina skatta yfir á beina skatta, á einstaklinga. Það liggur fyrir og það er vissulega verið að breyta því hér. En það þarf að halda því vel til skila að skattbyrðin hefur ekki þyngst á undanförnum árum.

Hér hefur nokkuð verið getið um dæmi og það hafa verið tekin dæmi af mönnum með t.d. 100 þús. kr. og öðrum sem hafa 400 þús. kr. Svo er sagt: Það er verið að skila miklu meiru til þess sem hefur hærri tekjurnar. Sannleikurinn er sá að ef við lítum á einstaklinga þá greiðir sá sem hefur 100 þús. kr. í skatt núna 17.400 kr., lækkunin er 2.200 kr. og skatturinn verður 15.200 kr. og lækkar þannig um 12,6%. Sá sem hefur 400 þús. kr. greiðir 151.700 kr. í dag, lækkunin er 12.700 kr. og skattalækkunin er einungis 8,4%. Þannig verður munurinn á skattbyrðinni meiri á milli þessara aðila eftir en áður þó báðir njóti að sjálfsögðu skattbreytinganna.

Virðulegi forseti. Það hefur verið sýnt fram á það hér, m.a. af forsrh., að þessar breytingar gagnast fyrst og fremst þeim sem hafa lægri tekjur og meðaltekjur og eru með börn á framfæri. Það er okkar von að þessar tillögur ríkisstjórnarinnar verði til að skapa vinnufrið og efnahagslegan stöðugleika um leið og ráðstöfunartekjurnar aukast verulega á næstu árum.