Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:51:41 (4289)

1997-03-11 16:51:41# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:51]

Svavar Gestsson:

Virðulegur forseti. Um leið og ég tek undir þær spurningar sem hafa verið bornar fram varðandi framhald þessa máls þá vil ég benda á það sem fram hefur komið. Það er í fyrsta lagi það að fyrir liggur samkvæmt upplýsingum fjmrh. að sá sem var í lægri tekjuflokknum fékk 2.200 kr. á mánuði út úr þessum breytingum en sá sem var í hærri tekjuflokknum fékk 12.700 kr. á mánuði. Hér er bersýnilega um það að ræða að þeim mun meiri tekjur sem menn hafa þeim mun meira eru menn að fá út úr breytingunum eins og þær liggja fyrir.

Í öðru lagi vil ég benda á það alvarlega atriði sem felst í þessu máli sem er sú krafa fjmrh. sem kemur fram í Morgunblaðinu í dag að ætlunin sé að svara þessum breytingum á skattkerfinu með niðurskurði á velferðarkerfinu. Það er í rauninni hrikalegt. Ætlunin er með öðrum orðum að standa þannig að málum að menntmrn. og heilbrrn. skeri niður hjá sér á móti þeim breytingum sem um er að ræða. Það er afar alvarlegur hlutur og ég hvet til þess að menn staldri við áður en menn taka beina ákvörðun um að lengja biðlistana á sjúkrahúsunum í landinu til að koma í veg fyrir þær breytingar sem hér er verið að ákveða.

Loks vil ég spyrja, hæstv. forseti: Er það rétt að málið liggi þannig að þær skattabreytingar sem verið er að tala um kosti ríkissjóð á árinu 1997 ekki neitt heldur hafi ríkissjóður í raun upp úr krafsinu 700 millj. kr. á árinu 1997 vegna þess hvernig þetta er sett saman? Og hann þurfi fyrst að fara að borga af þessum kjarasamningum á árinu 1998? Er það rétt, herra forseti, að ríkissjóður sé að vinna sér inn 700 millj. kr. á árinu 1997 á þessum samningi við Magnús L. Sveinsson?