Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:53:45 (4290)

1997-03-11 16:53:45# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:53]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er dæmigert um þau rök sem hæstv. ríkisstjórn beitir þegar hún kynnir tillögur sínar að verið sé að hækka hátekjuskattinn. Er það að hækka álögur á hátekjufólk þegar skattprósentan gagnvart því er lækkuð úr 47% í 45%? Er það að hækka álögur á hátekjufólk þegar hjón með fjölskyldutekjur upp á rúmar 500 þús. kr. eru að fá út úr þessu kerfi 16 þús. kr. á sama tíma og fólk með rúmlega 100 þús. kr. í fjölskyldutekjur fær út úr þessu 2 þús. kr.?

Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. svaraði ekki einni einustu spurningu sem ég lagði fram. Ég endurtek þær. Í fyrsta lagi. Er þetta lokasvar hæstv. ríkisstjórnar? Ætlar hún ekki að svara öðrum erindum verkalýðshreyfingarinnar neinu?

Í öðru lagi. Er hún ekki reiðubúin til viðtals um að skoða framkvæmdina á þeim skattalækkunum sem hún hefur boðað? Vegna þess að það er ekki rétt hjá hæstv. forsrh. að Alþýðusamband Íslands hafi beðið um svona útfærslu á tekjuskattalækkunum, þ.e. hlutfallslegri lækkun sem kæmi mest að gagni þeim sem hæstar tekjur hafa heldur þvert á móti bað verkalýðshreyfingin um aðra framkvæmd til að tryggja fyrst og fremst að láglauna- og millitekjufólk næði árangri. Og ég ítreka spurningu mína: Er hæstv. ríkisstjórn ekki reiðubúin til að ræða við verkalýðshreyfinguna um hugsanlega breytta framkvæmd á þessari tilhögun?

Í þriðja lagi. Við vitum að elli- og örorkulífeyrisþegar þurfa að sæta yfir 100% jaðarskattaálögum. Ríkisstjórnin lofaði að láta endurskoða jaðarskattheimtuna. Hún setti til þess sérstaka jaðarskattanefnd. Ég ítreka þá spurningu hvort sú nefnd hefur lokið störfum eða mun hún skila tillögum um breytingar á jaðarskattheimtu sem hæstv. ríkisstjórn mun sýna á Alþingi á komandi vori? Það er mjög eðlilegt að þessar spurningar komi fram og hæstv. forsrh. hefur ekki svarað einni einustu þeirra í umræðunum áðan.