Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:56:08 (4291)

1997-03-11 16:56:08# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. veit að samkvæmt tillögum Alþýðusambandsins hefðu krónutölulækkun skatta hækkað meira í efri þrepum en neðri þrepum, það er samkvæmt tillögum Alþýðusambandsins. Það veit hv. þm. og ætti þess vegna ekki að vera með þennan leikaraskap. Hv. þm. veit líka að hinn sérstaki hátekjuskattur er 5%. Það veit prófessorinn úr háskólanum líka og verður núna 7%. Sjö er hærri tala en fimm, það hljóta þeir líka að vita í hagfræðideild háskólans. Það er alþekkt staðreynd. (Gripið fram í.) Varðandi rauð strik sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson nefndi áðan --- rauð strik þurfa auðvitað að vera ef kjarasamningar eru í þeim mæli að allt fer á annan endann í þjóðfélaginu og samningarnir standast ekki, þá þurfa menn vissulega að fá rauð strik. En Alþýðusambandið gaf sér þá forsendu að þeirra kjarakröfur leiddu til verðbólgu sem væri um 2,5% á ári. Við byggjum á því. Við slíkar aðstæður þarf ekki rauð strik. Við slíkar aðstæður er hægt að tryggja 10% kaupmáttaraukningu á tveimur og hálfu ári án þess að hafa rauð strik. Rauð strik hafa reyndar sjaldan hjálpað neinum en rauð strik hafa hins vegar tekið þátt í að kynda upp verðbólguna t.d. þegar hún var 130% eins og menn þekkja.

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans í dag þá hafa ekki orðið neikvæð viðbrögð hvorki á peningamarkaði né gjaldeyrismarkaði við útspil ríkisstjórnarinnar sem byggt er á tilteknum samningsforsendum sem hafa verið gerðar. Það undirstrikar að ekki þurfi rauð strik í tilefni þessara kjarasamninga vegna þess að þetta eru kaupmáttarsamningar ekki verðbólgusamningar.

Hér er að því fundið að ríkisstjórnin borgi brúsann. Það er gert af hálfu Alþb., Kvennalistans og Alþfl. Þetta þýðir með öðrum orðum: Ríkisstjórnin átti að hunsa kröfur Alþýðusambandsins um að koma að málinu. Þessir þingmenn lýstu yfir með þessum hætti að ríkisstjórnin ætti að hunsa kröfur Alþýðusambandsins um að koma að málinu á þann hátt sem hún gerði.