Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:58:58 (4292)

1997-03-11 16:58:58# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:58]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur nú orðið nokkuð rof í umræðunni um bankana til að ræða önnur stórmál sem eru á dagskrá þessa dagana. Ég ætla að reyna að beina sjónum mínum aftur að bönkunum og því sem hér er til umræðu sem vissulega er afar stórt og umhugsunarvert mál.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vék nokkuð að sögunni í sinni ræðu og athyglisvert er að velta því fyrir sér að á fyrri hluta aldarinnar snerust öll helstu átök í íslenskum stjórnmálum um bankamál. Það réðist auðvitað af því að yfirráð yfir þessum fjármálastofnunum landsins voru afar mikilvæg og eimir svo sem eftir af því fram til okkar daga eins og sést á ráðningum bankastjóra og því hvernig sérstaklega Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. hafa getað ráðstafað þessum stöðum. Rifjast þá upp fyrir mér að Alþfl. var nú býsna stórtækur á síðasta kjörtímabili þegar hann var að ráðstafa flokksmönnum sínum í mikil og góð embætti.

Í þessu samhengi rifjaðist upp fyrir mér að það var árið 1909 sem ráðherra varð að segja af sér vegna bankamála og átaka innan Landsbankans, held ég að það hafi nú verið frekar en Íslandsbanka en þeir voru tveir á þeim tíma.

Það voru mikil átök 1917 þegar Framsfl. var að koma fram á sjónarsviðið og Jónas frá Hriflu fór að láta til sín taka. Þá urðu mikil átök um skipan í bankastjórastöður. Þá snerist það ekki síst um það að menn voru að reyna að sporna við miklum völdum kaupmanna og útvegsmanna í fjármálakerfinu og það var stefna Jónasar að reyna að efla veldi SÍS til mótvægis við þetta reykvíska vald eins og hann kallaði það.

Gjaldþrot Íslandsbanka árið 1930 og stofnun Útvegsbankans á grunni hans olli mjög miklum átökum og eiginlega miklum skjálfta í íslensku stjórnmála- og atvinnulífi. Og eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson nefndi hér í ræðu sinni þá voru það deilurnar í kringum Kveldúlf og staða útgerðarinnar á tímabilinu 1936--1937 þegar Jónas var búinn að átta sig á því að hann átti ekki mikla möguleika á því að verða ráðherra á vegum síns flokks að hann fór að snúa sér að Sjálfstfl. Þetta var eftir að Spánarstyrjöldin hófst og kreppan magnaðist hér á landi og það þurfti auðvitað líka að tryggja hagsmuni SÍS.

Síðasta stóra málið af þessu tagi var svo þegar Útvegsbankinn var gerður upp árið 1985, ef ég man rétt, og Íslandsbanki stofnaður á rústum hans, og þar með var búið að fara allan hringinn.

En mergurinn málsins er sá, þegar við horfum yfir þessa sögu, herra forseti, að hér hefur alltaf verið ríkisbanki frá því að Landsbankinn var stofnaður, þ.e. banki sem hefur haft ríkisvaldið að bakhjarli. Og það er einmitt fyrsta spurning mín þegar ég skoða þetta mál, hvort skynsamlegt sé og rétt að gera ríkisbankana tvo sem hér eru að hlutafélagsbönkum, hvort jafnlítið hagkerfi og við búum við á Íslandi geti komist af án ríkisbanka. Er það í rauninni mögulegt og skynsamlegt að hér sé enginn ríkisbanki?

Ég get tekið undir það að sú stjórn sem hefur verið á bönkunum hefur ekki verið til mikillar fyrirmyndar. Við kvennalistakonur höfum gagnrýnt það í gegnum árin hvernig hefur verið staðið að skipan í stöður bankastjóra, hvernig þeim embættum hefur verið úthlutað og einnig það að gríðarlegt útlánatap hefur verið hjá sumum bankanna án þess að nokkur maður hafi þurft að bera á því raunverulega ábyrgð. Það er því vissulega ástæða til þess að gagnrýna stjórn bankanna. En grundvallarspurningin er sú: Er skynsamlegt, vegna ýmissa sjónarmiða, að það sé ekki ríkisbanki hér á landi? Það leiðir auðvitað spurninguna að því hvaða rök liggi að baki þeirri breytingu sem á að fara að gera. Það verður að segjast eins og er að það sem er að finna í grg. með þessu frv., og reyndar öðrum þeim frv. sem hér eru til umræðu, er ansi rýrt. Það er vísað til athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA, það er vísað til samkeppnisstöðu og einhverra almennra atriða. En er þetta nægjanlegt? Ég veit ekki betur en að það starfi ríkisbankar býsna víða og að ekki sé endilega í gangi umræða um að breyta þeim í hlutafélög. Og ég veit ekki betur en að ríkisbankarnir á Norðurlöndunum hafi fyrst og fremst orðið til að hlaupa undir bagga og bjarga einkabönkunum, þannig að maður gæti snúið spurningunni við og spurt hvort ekki séu of margir einkabankar frekar en ríkisbankar.

Síðan er auðvitað sú stóra spurning, hæstv. forseti, hvers vegna var ekki farin sú leið að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann? Mér finnst heldur ekki koma fram nein haldbær rök fyrir því í þessu frv. Við erum nú ekki að tala um þvílíkar ógnarbankastofnanir að það yrði til að setja alla samkeppnisstöðu hér á annan endann að sameina þessa tvo ríkisbanka. Ég tek undir það sem kom fram hér fyrr í dag að með slíkri sameiningu hefði mátt ná mikilli hagræðingu og það væri þó betra að hafa einn öflugan ríkisbanka heldur en engan. Og spurningin er auðvitað hver verður framtíð þessara tveggja hlutafélagsbanka. Eftir því sem ég veit þá standa þeir nokkuð misjafnlega að vígi. Búnaðarbankinn hefur verið rekinn með miklum hagnaði og stendur vel að vígi en ég minnist þess að á undanförnum árum hefur ríkisvaldið orðið að hlaupa í tvígang undir bagga með Landsbankanum. Og það er auðvitað staðreynd að Landsbankinn, sem er stærsti viðskiptabankinn og hefur útgerðina meira og minna á sínum snærum, hefur orðið fyrir miklum útlánatöpum og stendur þar af leiðandi tæpar heldur en Búnaðarbankinn.

Maður spyr sig, sem er auðvitað meginspurningin, herra forseti, hver verða áhrifin af þessari breytingu? Og þar get ég tekið undir það sem er ástæðan fyrir þeirri fyrirspurn sem búið er að leggja hér fram á þskj. nr. 730, sem ítarleg fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni, að auðvitað saknar maður þess að ekki skuli fylgja með einhver úttekt á áhrifum þessara breytinga. Hér situr í salnum einn nefndarmanna sem vann að þessum breytingum og það væri nú fróðlegt að fá upplýst hvaða mat var lagt á áhrif þessara breytinga og hvaða gagna var aflað. Eða eru það bara trúarbrögðin sem ráða? Er það bara hin yfirlýsta stefna ríkisstjórnarinnar um að þetta skuli gert hvað sem tautar og raular? Það er vissulega mikil ástæða til að spyrja sig margra spurninga, herra forseti. Hver verða áhrifin á vaxtakjör í landinu? Á vaxtamun? Hver verða áhrifin á möguleika íslenskra banka til þess að taka langtímalán erlendis? Það er staðreynd að Landsbankinn með sína ríkisábyrgð að baki hefur haft miklu meiri möguleika til þess að taka lán erlendis til langs tíma. Og samkvæmt mínum upplýsingum hefur Landsbankinn fengið lán til allt að 20 ára erlendis meðan Íslandsbanki hefur verið að fá lán til fimm til sex ára. Hvaða áhrif hefur það ef úr þessu lánstrausti og þessum möguleikum, sem auðvitað byggjast á ríkisábyrgð, dregur eða þeir jafnvel hverfa? Er það til að auka hagkvæmni á lánamarkaði? Hver verða áhrifin á þá samkeppni sem hér ríkir á fjármagnsmarkaði og lánamarkaði? Breytir það í sjálfu sér einhverju þó að þessum bönkum sé breytt í hlutafélagsbanka? Ég fæ ekki séð að það breyti í sjálfu sér neinu um samkeppnina nema að því leytinu auðvitað að Landsbankinn kannski sérstaklega eða reyndar báðir ríkisbankarnir verða auðvitað veikari. Þeir verða veikari á þessum markaði þegar ríkisábyrgðin hverfur. Það held ég að hljóti að vera alveg augljóst.

Það má líka spyrja sig um þjónustu við landsbyggðina. Nú hafa náttúrlega ríkisbankar meiri ábyrgð sem ríkisstofnanir heldur en sjálfstæðir hlutafélagsbankar. Þeir munu auðvitað leita hagkvæmni og hvað verður um þá þjónustu sem hefur verið byggð upp úti á landi þar sem auðvitað má hagræða heilmikið? Það eru því margar spurningar sem vakna við það að velta þessu máli fyrir sér eins og fram kemur á þessu þskj. sem auðvitað hljóta að fléttast hér inn í umræðurnar. Þar er einmitt vitnað til ákveðinnar skýrslu sem var gerð árið 1991. Ég hlýt að lýsa furðu minni á því að ekki skuli fylgja þessu frv. viðlíka skýrsla eða úttekt á stöðu ríkisbankanna og þeim áhrifum sem þessar breytingar hljóta að hafa að mínum dómi. Ég held það hljóti að vera óhjákvæmilegt að þegar ríkisbönkum er breytt þá hefur það ákveðin áhrif á allan fjármagnsmarkaðinn.

En aðalatriðið í einkavæðingu, herra forseti, er auðvitað hvernig hún fer fram og hverjir það eru sem kaupa hlutina í ríkisfyrirtækinu. Fyrst er auðvitað að spyrja sig, eins og ég gerði reyndar áðan, á að vera ríkisrekstur eða á að breyta í hlutafélög? Taki menn þá ákvörðun að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, þá er auðvitað verið að gera það í þeim tilgangi að koma þeim út á almennan markað og annaðhvort að sækja aukið fé með hlutafjáraukningu eða að selja síðan hlut ríkisins. Og það er þó svo sem þakkarvert að það fer ekkert á milli mála í þessu frv. að það stendur til. Það er veitt heimild til ráðherra að auka hlutafé um allt að 35%. Það er talað um það í athugasemdum með einni grein frv. að reiknað sé með fjögurra ára aðlögunartíma og síðan ætla menn auðvitað að athuga málið.

Þá kemur að þessu atriði með hina dreifðu eignaraðild sem ég tek undir að mér finnst vera lykilatriði. Mér finnst það lykilatriði í þessu máli að eignaraðild að jafnvoldugum og öflugum fyrirtækjum á íslenskan mælikvarða sé tryggð vegna þess að við höfum verið að horfa upp á, herra forseti, að það hefur átt sér stað gríðarleg samþjöppun á eignum og valdi í samfélagi okkar á undanförnum árum. Við þurfum nú ekki að líta langt til að sjá þessa miklu tengingu sem nær frá skipafélögum og flugfélögum yfir í fjölmiðla og það er varla nefnt svo fyrirtæki að þessir stóru aðilar komi þar ekki að máli. Þarna hefur átt sér stað mikil samþjöppun á valdi. Það eru til leiðir til þess að tryggja að eignaraðild sé dreifð og ég vil lýsa því sem minni skoðun að ef meiningin er að þessi frv., þetta stóra mál og hin sem fylgja með, verði afgreidd á þessu þingi þá verði tryggt í lögum að eignaraðildin skuli vera dreifð. Ég vil vísa þar til þess ákvæðis sem er að finna í lögunum um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi þar sem var kveðið á um það í 4. gr., með leyfi forseta: ,,Við sölu hlutabréfa skal þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja.``

[17:15]

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að slíkt ákvæði sé tekið inn í lögin, að það beri að gæta þess við sölu. Það kann hins vegar vel að vera að það virki ekki nema til ákveðins tíma og þegar slík bréf fari að ganga kaupum og sölum þá verði afar erfitt að fylgjast með því. En er á meðan er. Ég held að það væri mjög brýnt að tryggja slíkt ákvæði í lögum. Ég tek ekki gott og gilt þótt það komi fram í greinargerð að það sé stefna ríkisstjórnarinnar. Eftir fjögur ár getur verið kominn allt önnur ríkisstjórn, herra forseti. Sjálfstfl. kannski í meiri hluta, þótt það sé kannski heldur ólíklegt, en gefum okkur það, með sína hörðu einkavæðingarstefnu. Hvað gerist þá? Nú er þetta kannski heldur ótrúlegt en menn geta breytt um stefnu og aðalatriðið er að málið verði lagt fyrir þingið og það þurfi að breyta lögum en sé ekki hægt að selja þennan hlut ríkisins eins og mönnum sýnist og það verði til þess að yfirráðin yfir þessum mikilvægu peningastofnunum komist á fárra manna hendur. Þetta eru fyrirtæki okkar allra og við hljótum að reyna allt sem við getum til að koma í veg fyrir samþjöppun valds og fákeppni þar sem aðeins ákveðnir aðilar hafa aðgang að fjármagni. Um það snýst auðvitað málið, herra forseti, aðgang að fjármagni og hvernig því er dreift, hverjir það eru sem útdeila fjármagninu.

Hvað varðar einstök atriði þessa frv. er það afar óljóst, eins og reyndar fleiri hafa komið inn á, hvernig og eftir hvaða reglum hæstv. ráðherra mun fara við það að skipa í bankaráð og skipa bankastjóra og svo framvegis. Í 3. gr. segir einungis:

,,Kjósa skal bankaráð hvors hlutafélagsbanka á stofnfundum sem haldnir skulu fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum.``

,,Kjósa skal`` en það er augljóst að það verður ekkert kosið fyrr en hluthafarnir verða orðnir nokkrir og á meðan ríkið situr eitt að eigninni er það ráðherra sem skipar bankaráðin. Mér þætti ekki óeðlilegt að það væri kveðið á um það í lögunum hvernig þeir skulu valdir. Alla vega er þetta atriði sem ég vil skoða mun betur í nefndinni. En svona hefur þetta verið í þessum frv. um einkavæðingu, að valdið hefur eingöngu verið í höndum ráðherra. Ráðherra er með eignarhlutinn og skipar stjórn. Miðað við þær hefðir sem hér ríkja er full ástæða til að ætla að menn skipi menn sér hliðholla í stað þess að gæta faglegra og viðskiptalegra raka sem ég vil hvetja hæstv. viðskrh. til að hafa í heiðri þegar og ef að þessu kemur.

Það er staðreynd herra forseti, að meðferð þessa máls hefur tekið mjög langan tíma í ríkisstjórnarflokkunum. Þetta hefur verið lengi á leiðinni í gegnum ríkisstjórnarflokkana og stoppað margsinnis. Ég hlýt að álykta sem svo að meginástæðan fyrir því sé einmitt sú sem ég var að nefna áðan, hvernig hægt sé að tryggja að þessar fjármálastofnanir lendi ekki í fárra manna höndum. Eins og ég hef rakið hér sé ég ekki að það sé neitt sem tryggi það. Að vísu er farið hægt af stað með þennan fjögurra ára aðlögunartíma og 35% sem ungur sjálfstæðismaður sagði að væri brandari. Þetta væri engin einkavæðing eða hlutafélagavæðing þegar þetta ákvæði væri inni. En ég álít svo að þarna hafi menn þó verið að slá ákveðinn varnagla. Það eru sem sagt mjög margar spurningar sem vakna við þessi stóru mál og þó menn séu að flagga því að þeir vilji að sem flestir kaupi hlutabréf í þessum stofnunum hljótum við samt að spyrja okkur hverjir það séu sem eru á hlutabréfamarkaðnum. Hverjir eru það sem hafa efni á því að kaupa hlutabréf og eiga hluti í fyrirtækjum? Þeir eru auðvitað býsna margir sem eiga lítinn hlut en þegar betur er að gáð eru það örfáir áðilar sem eiga allan meginþorra hlutabréfa í fyrirtækjum. Þetta er lítill hópur sem hefur mikil völd og á miklar eignir. Því þarf að sjá til þess, eins og ég hef margnefnt hér, að eignaraðildin verði sem allra dreifðust.

Það verður nú líklega nokkur bið á því að viðskrh. komist að til að svara þeim spurningum sem ég og fleiri höfum verið að leggja fram. Það sem mér finnst að við sem þurfum að skoða þetta mál og taka afstöðu til þess þurfum að gera okkur grein fyrir er það sem ég var að nefna áðan um áhrifin af þessu á fjármálakerfi landsins. Það er ekki að ástæðulausu sem menn hafa haft hér ríkisbanka. Ég hygg að ef íslenskt efnahagslíf og hagkerfi hefði verið öflugra þá hefðu menn ekki séð ástæðu til að standa jafnþétt við bakið á ríkisbönkum og hér hefur verið gert. Það eru ríkar ástæður fyrir þessu og ekki síst það að tryggja aðgang Íslendinga að fjármagni erlendis. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kom inn á það í sinni ræðu að það yrði jafnvel betra að fá erlenda aðila sem eignaraðila að hlutafélagsbönkum til að tryggja dreifingu. Það væri þó skárra að fá þá inn í dæmið heldur en íslenska aðila. Það er ekkert sem bannar það, hygg ég, að t.d. aðilar á Evrópska efnahagssvæðinu geti fjárfest hér í bönkum sérstaklega eftir að búið er að breyta þeim í hlutafélög. En íslensk fyrirtæki hafa bara ekki hingað til þótt mjög eftirsóknarverð til fjárfestinga. Til þess liggja auðvitað ærnar ástæður og þær greinar sem eru kannski mest freistandi fyrir erlenda fjárfesta eru lokaðar. Þá er ég fyrst og fremst að tala um sjávarútveginn.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort það er ástæða til að lengja þessa umræðu meira. Ég hef ótal spurningar varðandi þetta mál. Mér finnst það grundvallarspurning hvort jafnlítið hagkerfi og við búum í komist hreinlega af án ríkisbanka, hvort ekki sé þörf á ríkisbanka til að tryggja aðgang að erlendu fjármagni, til þess að reyna að halda vöxtum í skikkanlegu formi. Ég hef enga sannfæringu gagnvart því að vextir muni lækka við þessa breytingu. Ég held miklu frekar að þeir muni hækka, m.a. vegna þess að menn verði að taka lán til skemmri tíma. Fyrst og fremst megum við ekki gleyma því að Landsbankinn er sá banki sem hefur staðið að baki útgerðinni sem er jú hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Ég held að menn þurfi að fara ákaflega varlega í að veikja þann banka. Ég held að menn þurfi að fara afar varlega í það. Eftir þessa breytingu hefur Landsbankinn ekki lengur aðgang að ríkisábyrgðum og borgar ekki það gjald sem hann greiðir nú, svokallað ríkisábyrgðargjald. Það vekur spurningu um hvernig hans aðstaða verður til að vera þessi stóri lánveitandi útgerðarinnar. Munu þau viðskipti færast yfir til nýja fjárfestingarbankans eða munu þau ef til vill færast úr landi?

Þetta eru allt spurningar sem ég velti fyrir mér, herra forseti, og áskil mér allan rétt til að skoða þetta mál mjög rækilega. Ég hef miklar efasemdir gagnvart þessu máli og tek það ekkert sem gefið að það þurfi eða eigi að breyta flestum ríkisstofnunum í hlutafélög. Það hefur vissulega ákveðinn sveigjanleika í stjórnun í för með sér en það hefur líka ákveðna ókosti. Ég á þess kost að fylgja þessu máli eftir í hv. efh.- og viðskn. og þar verður eflaust mikil og ítarleg úttekt. En enn og aftur þá hef ég miklar efasemdir varðandi þessar breytingar.