Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 17:30:43 (4296)

1997-03-11 17:30:43# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[17:30]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er fram komið frv. til umfjöllunar á hinu háa Alþingi um að breyta rekstrarformi ríkisbankanna í hlutafélög. Enn fremur mun starfsumhverfi ríkisbankanna breytast á mörgum öðrum sviðum verði frv. að lögum. Hér hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn síðustu 10--15 árin án þess að hafa á stefnuskrá sinni áform um miklar breytingar á starfsemi og jafnvel eignarhaldi ríkisviðskiptabankanna. Bankastarfsemi er í eðli sínu viðkvæm. Því hef ég sem bankaráðsmaður í Búnaðarbanka Íslands fyrir löngu gert mér grein fyrir að endalaus pólitísk umræða og styr um rekstur og rekstrarform ríkisbankanna skaðar ímynd og traust bankanna fyrir rest.

Hæstv. forseti. Hver hafa verið áform fjögurra síðustu ríkisstjórna í málefnum ríkisbankanna? Þar hafa komið að allir stjórnmálaflokkar nema Kvennalistinn sem er heilagur í því eins og svo mörgu öðru því þær hafa aldrei við stjórnvölinn setið. Þær hafa aldrei sest í ríkisstjórn, ekki svo langt sem ég man.

En ég hafði með mér í ræðustólinn stefnuskrár nokkurra síðustu ríkisstjórna. Við skulum gá, hæstv. forseti, hvað var í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar 1987 um ríkisbankana. Þar segir, með leyfi forseta, um banka- og lánamál: ,,Dregið verður úr ábyrgð ríkisins og afskiptum af bankarekstri og lánastarfsemi. Stefnt verður að samruna banka með því að setja um það efni almennar reglur en einnig með endurskipulagningu á viðskiptabönkum í eigu ríkisins.`` (Gripið fram í: Skrifaðir þú undir þetta, Guðni?)

Við skulum taka næstu stefnuskrá sem var málefnasamningur ríksstjórnar Steingríms Hermannssonar og að þeirri ríkisstjórn áttu aðild mjög margir stjórnmálaflokkar. Ef ég man rétt þá var það auk Framsfl., Alþfl. allur, Alþb., Borgaraflokkurinn hálfur og auk þess Stefán Valgeirsson. Hvað segir um bankamál í þeim málefnasamningi? Þar segir, með leyfi forseta: ,,Stefnt verður að samruna og stækkun banka m.a. með endurskipulagningu á viðskiptabönkum í eigu ríkisins. Markmiðið er að ná aukinni hagkvæmni og rekstraröryggi í bankastarfsemi.`` Þetta var þó sú ríkisstjórn sem fór út í miklar breytingar á bankakerfinu. Þetta var ríkisstjórnin sem sameinaði eina fjóra banka í einn. Þetta var ríkisstjórnin sem í fyllingu tímans gaf Útvegsbankann einkaframtakinu og Íslandsbanki varð til. Og í litla morgungjöf fengu þeir á milli 1 og 2 milljarða með í skattalegu tapi sem þeir nýta enn og munu nýta fram á næstu öld og einnig það að skuldbindingar bankastjóranna í Útvegsbankanum voru teknar á ríkið.

Þá kemur að þriðju ríkisstjórninni --- og dofna nú ljósin. Það er ríkisstjórnin sem hafði ,,velferð á varanlegum grunni`` á stefnuskrá sinni. Hvað sagði sú ríkisstjórn um bankamál? Hún segir, með leyfi forseta, á bls. 9: ,,Hlutverk ýmissa stofnana ríkisins verður endurskoðað og lagað að breyttum aðstæðum. Fjárfestingarlánasjóðum verður fækkað og þeim breytt í sjálfstæð hlutafélög eða starfsemi þeirra færð til annarra fjármálastofnana. Ríkisbönkunum verður breytt í hlutafélög.`` Enn fremur sagði á bls. 15: ,,Meðal fyrirtækja sem áformað er að breyta í hlutafélög og undirbúa sölu hlutabréfa í má nefna Búnaðarbanka Íslands.`` Þetta var ríkisstjórnin sem Sjálfstfl. stofnaði til 1991 og ef ég man rétt var Alþfl. allur, Þjóðvaki ekki til, en þeir ágætu einstaklingar sem skipa hann nú sátu í þessari ríkisstjórn og höfðu þetta á stefnuskrá sinni í bankamálum.

Þá kem ég að þeirri ríkisstjórn sem nú starfar. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. Þar segir þetta um bankamál á bls. 3, með leyfi forseta: ,,Að leggja fram áætlun um verkefni á sviði einkavæðingar sem unnið verður að á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða.`` Punktur og búið. Svo mörg voru þau orð.

Þetta segir mér að þessi umræða hefur staðið linnulaust í tíu ár. Þessi óvissa hefur oft á tíðum kallað á yfirlýsingar sem hafa skaðað ríkisbankana. Ég nefni sem dæmi einn af fundum Verslunarráðsins á síðasta kjörtímabili, sem er einkavinahreyfing á Íslandi, en þar gerðist það að hæstv. fjmrh. sagði á þá leið að hann vildi selja Búnaðarbankann á hálfvirði og það strax. Slík yfirlýsing skóp óvissu bæði meðal starfsmanna og viðskiptavina á þeirri stundu. Slík var nú virðingin á þeim tíma fyrir þeim milljörðum sem Íslendingar eiga í þessum miklu fyrirtækjum að á hálfvirði skyldi hann fara til gæðinganna.

Margir hv. alþm. hafa haft áráttu til að draga einstök atriði í rekstri ríkisbankanna fram í dagsljósið meðan keppinautarnir hafa haft starfsfrið. Þó er öllum skynsömum mönnum það ljóst að ríkisbankarnir greiða töp sín af rekstrarkostnaði og laun og annað kostnað af vaxtamun alveg eins og Íslandsbanki og sparisjóðirnir sem notið hafa nokkurs konar friðhelgi í umræðunni síðustu árin. Hefur þó Íslandsbanki notið sambærilegrar fyrirgreiðslu og Landsbankinn sé upphafleg fyrirgreiðsla metin, sem ég minntist á áðan, en þar á ég enn við yfirfæranlegt skattalegt tap og þær lífeyrisgreiðslur sem ríkið yfirtók við stofnun bankans.

Í allri þessari umræðu hefur Búnaðarbanki Íslands í umræðunni hér á Alþingi í litlu notið þess að vera best rekni viðskiptabanki landsins í áratugi. Banki sem minnstu tapaði og skilar í ríkissjóð 1 milljarði í tekjuskatt á þessum áratug meðan aðalkeppinautarnir borga ekki krónu í tekjuskatt og einkabankinn að auki eignarskattslaus.

Það er auðvitað fróðlegt í þessari umræðu að fara út í það að skoða hver töpin hafa verið í bankakerfinu og bera þau saman við þessar aðstæður og þær umræður þegar ríkisbankarnir liggja ávallt undir í umræðunni. Á síðasta þingi kom fram fsp. frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þar var spurt um tap og skatta, tekju- og eignarskatt viðskiptabankanna. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

Á árunum 1990--1995 tapaði Landsbanki Íslands 7,3 milljörðum, Íslandsbanki 5,3 milljörðum, Búnaðarbankinn 2,2, sparisjóðirnir 1,4. Þannig mætti áfram telja. En þetta segir að það virðist ekki skipta miklu hvert formið er. Ég segi nú stundum sem svo: Eru það kannski ráðamenn bankanna eða einhverjir aðrir sem bera ábyrgð á því hvernig fór á þessum tíma? Hafa ekki fleiri áhrif á umhverfi þjóðfélagsins heldur en nákvæmlega þeir sem lána peninga?

Ég minnist þess sem ungur þingmaður, ég stóð að þeirri ríkisstjórn sem starfaði frá 1987--1988, að mér leið illa í þeirri ríkisstjórn. Hver vegna? Vegna þess að þá tóku stjórnmálamennirnir upp á því að halda genginu föstu á Íslandi í bullandi verðbólgu og háum vöxtum. Ég minnist þess að Sjálfstfl. kom þá saman í Stykkishólmi og ágætur bankastjóri sem þá var ráðherra, Sverrir Hermannsson, sagði eitthvað á þá leið að þessi stefna mundi leiða það eitt af sér að sjávarútvegurinn stefndi lóðbeint til andskotans, ég hef þetta orðrétt eftir eins og það birtist í fjölmiðlum á þeim tímum. Ég hygg að þetta hafi verið rétt, að þarna var íslenskt atvinnulíf að komast í strand, ekki vegna þess að lánastarfsemi bankanna væri gáleysisleg heldur af hinu --- að menn héldu um kverkar sterkasta atvinnuvegar á Íslandi, sjávarútvegsins. Hann fékk ekki genginu breytt í óðaverðbólgu og háum vöxtum.

Ég minni á annað atriði sem hefur haft mikil áhrif á töp bankanna. Það var í upphafi síðustu ríkisstjórnar 1991 þegar vextir voru hækkaðir, ég vil segja með handafli, í upphafi ferilsins. Þessar tvær orsakir eiga sinn þátt ekki síður en útlánastefnan í því hvernig fór í öllum viðskiptabönkum á Íslandi. Þar með talinn einkabankinn. Það eru margar ástæður sem valda því að svona fer.

Við þessar aðstæður og þær að enn fer ég með ábyrgð af hálfu Alþingis í Búnaðarbanka Íslands, sem er eign almennings og mikið þjónustufyrirtæki, hef ég reynt að gera upp hug minn hvernig má skapa frið um framtíð þessa fyrirtækis og ekki síður Landsbanka Íslands sem gegnir að mínu viti lykilhlutverki í bankastarfsemi í landinu. Óvissunni verður að ljúka.

Hér hef í raun rakið það, hæstv. forseti, að ásetningur allra flokka á Alþingi er að breyta þessu formi. Ég hef að vísu undanskilið Kvennalistann. Ég er hlynntur ríkisbankaformi í okkar litla samfélagi. Ég óttast fákeppni og það mikla fámennisvald sem einkennir okkar litla markað. Ég geri mér grein fyrir miklum breytingum í framtíðinni bæði í rekstri banka og hvað stærð fyrirtækja varðar. Búnaðarbankans vegna þarf ekki að breyta rekstrarformi. Þó ætla ég að hann geti í ýmsu notið þess að vera sterkur um þær mundir og álitlegur fjárfestingarkostur fyrir ýmsa verði gefin heimild til að styrkja hann með nýju hlutafé sem frv. boðar en segir þó ekkert afdráttarlaust um að verði gert.

Um síðustu áramót keyptu 20.000 Íslendingar sér hlutabréf í fyrirtækjum á almenningshlutabréfamarkaði fyrir 130 þús. kr. hver, eða fyrir 2,6 milljarða. Nýtt fjármagn inn í mörg sterk fyrirtæki á Íslandi með þessum hætti. Ég hygg að sjávarútvegurinn hafi notið þess á síðustu árum að geta með þessum hætti náð í nýtt hlutafé. Mörg þessi fyrirtæki sem njóta velvildar almennings eru framsæknustu fyrirtæki Íslendinga í dag.

[17:45]

Í ljósi þess að eigi má sköpum renna hef ég beitt mér í mínum þingflokki og við hæstv. viðskrh. að fá frv. breytt og þannig úr garði gert að sem minnst átök verði um ríkisbankana og þeir fái tíma og tækifæri að sanna gildi sitt á næstu árum. Ég tel að á síðustu vikum hafi hæstv. viðskrh. lagt sig fram um að sníða vankanta af frv. og tekið til greina veigamiklar athugasemdir frá stjórnendum og starfsfólki ríkisviðskiptabankanna og vil ég þakka það sérstaklega. (KÁ: Hverjum er hv. þm. að þakka?) Ég tel það þessu frv. til tekna, hv. þm., og til gildis að fyrir liggur yfirlýstur vilji frá ríkisstjórninni að minnst næstu fjögur árin verði hlutur ríkisins ekki seldur. Þ.e. að ríkisbankarnir eru ekki til sölu. Komi til þess að fjórum árum liðnum þarf heimild frá meiri hluta Alþingis og ég trúi því að í meðferð þessa frv., og þegar þar að kemur ef það verður, muni menn marka þar um skýra stefnu. En þetta er í fyrsta sinn sem það næst skýrt fram að þeir fá starfsfrið við óbreyttar aðstæður. Það er yfirlýstur vilji núv. ríkisstjórnar og honum ber að fagna. Ég veit að við hann verður staðið.

Fjögur ár eru tiltölulega langur starfstími í sögu banka og margt getur gerst á þeim tíma. En mikilvægast er að viðskiptavinirnir og starfsmennirnir vita að óvissunni er lokið og þeir vita að hvert skref fram undan verður markað með öruggum hætti af hálfu Alþingis.

Hitt blasir svo við að frv. gefur ríkisbönkunum þann möguleika til að styrkja fjárhagsstöðu sína að afla aukins eigin fjár á markaði með sama hætti og svo mörg önnur fyrirtæki í landinu. Þetta hef ég oft nefnt sölu á hlutafé inn um gluggann. Nú má þessi upphæð ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð af hlutafé í hvorum banka en áður var rætt um 49%.

Eins og ég sagði áðan, enginn segir að ráðherra né bankarnir muni sækjast eftir svo miklu af nýju hlutafé. Hitt er svo mikilvægt að að hinu nýja hlutafé verði dreifð eignaraðild almennings og eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra að starfsfólk bankanna geti eignast og öðlast áhrif, ég vil segja með einhverjum sérstökum kjörum sem er mjög þekkt í slíkum aðgerðum víða erlendis. Fagna ég því að hæstv. ráðherra lýsti því hér yfir við umræðuna.

Ég vil segja einnig: Viðskiptavinir fyrirtækjanna ættu einnig að koma þar að. Og ég er sannfærður um að þeir munu gera það með einhverjum hætti til að styrkja þessi fyrirtæki. Ég hefði óttast hákarlana sem allt vilja gleypa ef frv. hefði miðað við 49%. Þá hefðu þeir séð það lag að vilja koma inn í þessi fyrirtæki því að þá var skammt í að þeir hefðu meiri hluta en þeir vilja hafa allt undir sínum eigin hæl eins og þekkt er. En nú er það líklegra við þessar aðstæður að það verði viðskiptavinir, starfsfólk og almenningur sem mun veðja á fjárfestingu til viðbótar við það sem ríkið á í þessum fyrirtækjum og styrkja þessa banka til samkeppni.

Hitt er annað mál að auðvitað verða menn að fara varlega í þeim efnum á litlum hlutabréfamarkaði á Íslandi. Hann skiptir ekki mörgum milljörðum á hverju ári því að ríkisstjórnin verður að gá að sér því að eins og ég sagði hér áðan, ég hygg t.d. að mörg sterk sjávarútvegsfyrirtæki hafi og megi ekki missa þann spón og þá velvild sem bankinn hefur notið hjá almenningi í landinu á síðustu árum.

Ég treysti hæstv. ráðherra bæði miðað við þær yfirlýsingar sem hann hér hefur gefið og þau fyrirheit sem eru gefin í frv. um dreifða eignaraðild. Framsfl. hafði heilmikil áhrif á það á síðasta kjörtímabili sem stjórnarandstöðuflokkur hvernig staðið var að sölunni á Lyfjaverslun ríkisins. Hann beitti sér í því máli og sé ég nú að hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. kinkar kolli. En því miður, mörg einkavæðing seinni ára er vörðuð mistökum. Ég hef nefnt gjöfina með Útvegsbankann. Ég get nefnt SR-mjöl, ég get nefnt Þormóð ramma og fleiri og fleiri fyrirtæki. Hitt er svo önnur saga að það hefur komið mjög fram í umræðunni að þingmenn ekki síst óttast þessa afdráttarlausu heimild til hæstv. ráðherra. Og ég segi fyrir mig, ég tel mikilvægt að efh.- og viðskn. fari mjög vel yfir þetta atriði.

Ég sagði áðan að lækkunin úr 49% niður í 35% skiptir heilmiklu máli. En ég hef ekkert á móti því að afdráttarlaust verði tekið fram í frv. að enginn megi kaupa meira en sem nemur einhverjum prósentum, 3%, 5% eða eitthvað slíkt, þannig að þetta mun Alþingi skoða.

Ég get nefnt mörg fleiri atriði sem mér finnst skipta sköpum og eru ekki í frv. Ég ætla að sleppa því. Ég vil þó segja eitt, að ákvæði um að ráðherra geti á einni nóttu rennt þessum fyrirtækjum inn í einhver önnur o.s.frv. eru ekki lengur. Hér var einn hv. þm. að tala um áðan að sameina ætti Búnaðarbanka og Íslandsbanka. Ég er andstæðingur þess og þetta gera menn ekki á einni nóttu. Þetta er út úr frv. og ekki með í þessum leik.

Hæstv. forseti. Innan flestra stjórnmálaflokka er gerð krafa um breytingar á ríkisbankaforminu. Það er talið úrelt og úr sér gengið. Ég ætla hér að spyrja hv. alþingismenn og hæstv. viðskrh. að öðru: Hverjir eru eigendur að sparisjóðum landsins? Það er eðlilegt að sú spurning komi fram við þessa umræðu. Stundum heyrist bæði hér á Alþingi og víðar að sparisjóðirnir ættu að yfirtaka t.d. Búnaðarbanka Íslands. Eru sparisjóðirnir munaðarlausir? Hafið þið velt því fyrir ykkur, hv. þingmenn, hverjir eiga þá? Mér sýnist að sparisjóðirnir byggist á úreltu ábyrgðarmannakerfi. Er þetta form ekki löngu gengið sér til húðar? Þetta ábyrgðarkerfi er líklega lénskerfi, sonur erfir gjarnan sætið í stjórninni o.s.frv. Sparisjóðirnir tengjast sveitarstjórnum, óbeint þó. Sveitarstjórnirnar eru í hlutverki guðföður eða heilags verndara því engin virðist í raun eiga sparisjóðina eða þeir svara mér á eftir sem það vita. Getur annars einhver hv. alþm. frætt mig á því hver er eigandi sparisjóðanna? (Gripið fram í: Þeir eiga hlutdeild ...) Ég var að fara yfir ábyrgðamannakerfið, hv. þm., og ég var að tala um að það væri úrelt. Sparisjóðirnir eru sterkt afl, með um 20% í innstæðum af sparifé landsmanna, svipuð stærð og Búnaðarbanki Íslands og Íslandsbanki. Ríkið fer með vald og ábyrgð á stjórnum ríkisbankanna. Hluthafar kjósa stjórn Íslandsbanka en hvaðan kemur valdið í sparisjóðunum? Þó hafa þeir öðlast full bankaréttindi. Á ég þar við sparisjóðabankann sem er nokkurs konar seðlabanki eða skiptimiðstöð sparisjóðanna. Er ekki brýnt verkefni fyrir Alþingi að fara ofan í og finna eiganda og ábyrgðarkerfi fyrir rekstur sparisjóðanna?

Í atvinnulífi er hlutafélagsformið eins og frá almættinu. Allt skal undir hf. Er kannski þörf á því að háeffa sparisjóðina ekki síður en ríkisviðskiptabankana? Ég spyr.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja ræðu mína meir. En ég er þeirrar skoðunar að þetta frv. hafi nú fengið nokkra meðferð og taki heilmiklum breytingum. Ég trúi því að Alþingi og sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar muni fara mjög vel yfir það og ég treysti því. Það er mjög mikilvægt. Og mér þætti mikilvægt og gæfa fyrir þingið við þessar aðstæður, þegar stefnan er með ýmsum hætti í öllum stjórnmálaflokkum en þó þannig að þessu formi á rekstri ríkisviðskiptabankanna muni verða breytt, að það næði samstöðu um þetta mál. Að lokum vil ég leggja áherslu á það, hæstv. forseti.

Ég sé að hér er komin fyrirspurn til hæstv. viðskrh. sem ég veit að hann á létt með að fara yfir frá tveimur hv. þm. Þar er góður leiðarsteinn fyrir nefndarstarfið til að kafa ofan í frv.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.