Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 17:59:16 (4298)

1997-03-11 17:59:16# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[17:59]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur legið ljóst fyrir í mínum huga mjög lengi að það þarf að breyta íslensku peningakerfi. Ég hygg að það gleðji hv. þm. Einar Odd Kristjánsson að hér mun hæstv. viðskrh. í kjölfarið mæla fyrir nýjum ríkisbanka sem verður nokkurs konar stofnlánasjóður atvinnulífsins.

Staðreyndin er sú að íslenskt bankakerfi hefur ekkert verið mjög langt frá erlendum bönkum sé það skoðað ofan í kjölinn. Hitt er annað mál að hér hafa helgreipar manna í kringum, ég vil segja, Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð haldið stofnlánasjóðum atvinnuveganna með okurvaxtastigi sem á engan sinn líka í veröldinni. Þar hefur t.d. Stofnlánadeild landbúnaðarins starfað með sínum atvinnuvegi með allt öðrum hætti þannig að um leið og menn treysta viðskiptabanka landsins þá ætla menn líka að leggjast í hernað og taka á því að menn geti stofnað fyrirtæki, komist á fæturna í gegnum þann stofnlánabanka sem hér á að mæla fyrir síðar.

Enn fremur ætlar hæstv. viðskrh. að mæla fyrir sjóði sem mun verða áhættulánasjóður og taka þátt í því með hugrökkum mönnum að stofna fyrirtæki um allt land þannig að ég hygg að að sumu leyti eigum við hv. samleið í huganum. (Gripið fram í: Ég er stjórnarþingmaður.) Þó að hann finni ríkisbönkunum allt til foráttu þá fór ég glöggt yfir það í minni ræðu, hv. þm., að einkabankinn hefur tapað meira fé og þar hafa menn komið inn í gegnum vald peninganna en ekki í gegnum Alþingi eins og ríkisviðskiptabankarnir. Nú vil ég að hv. þm. skýri mér frá því hvers vegna Íslandsbanki tapaði eins og hann hefur gert á síðustu fimm árum.