Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:03:39 (4301)

1997-03-11 18:03:39# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson hefur mikla reynslu af bankaviðskiptum og bankastarfsemi og óttast kolkrabbann. Ég hef fjórar spurningar til hv. þm.

Í fyrsta lagi: Telur hann að það muni vera fýsilegur kostur að kaupa hlutabréf í banka sem er 65% í eigu ríkissjóðs og er með óleyst vandamál í lestinni, afskriftir og annað slíkt, og ekki einu sinni á hreinu hvort það verða jafnvel þrír bankastjórar? Verður ekki bara stofnaður nýr banki fyrir þá sem hafa áhuga á að festa peninga í banka?

Önnur spurning: Samkeppni vex og það fjarar hratt undan bönkunum. Stærstu fyrirtækin eru öll í viðskiptum við erlenda banka og einstaklingar eru líka farnir í auknum mæli að leita út á verðbréfamarkaðinn. Verður eitthvað að selja eftir fjögur ár í þessum ágætu bönkum hv. þm.?

Þriðja: Gæti hv. þm. hugsað sér að kaupa hlut í Landsbanka Íslands hf. eftir fjögur ár?

Fjórða: Er Íslandsbanki einkabanki?