Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:09:47 (4305)

1997-03-11 18:09:47# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson var harðasti andstæðingur einka- og hlutafélagavæðingar bankanna fyrir nokkrum árum. Hann var mjög dyggur stuðningsmaður minn á þeim árum að koma í veg fyrir, eins og þá voru áform uppi um, að einka- og hlutafélagavæða ríkisviðskiptabankana. Nú er hann á hraðferð kominn í þá lest sem vill einkavæða bankana og mér finnst þetta aumt yfirklór og kattarþvottur hjá þingmanninum þegar hann er nú að réttlæta afstöðu sína.

Hv. þm. sagði árið 1996, bara á síðasta ári, að formbreytingu fylgdi sala og hann sagði fyrir nokkrum árum að það væri verið að stíga óheillaskref til að færa örfáum fjölskyldum ríkiseign á silfurfati með einka- og hlutafélagavæðingu bankanna. Hann vildi ekki undir nokkrum kringumstæðum að Búnaðarbankinn yrði seldur. Og hann sagði við þá ráðherra sem vildu selja ríkisbankana að þá ætti að reka úr ríkisstjórn. Svo stór voru orðin. Nú þakkar hann bara hæstv. viðskrh. fyrir að ætla sér að hlutafélagavæða og selja bankana. Hann hafði svo stór orð uppi að hann spurði þá ráðherra sem vildu selja og einkavæða, hvort þeir ættu seturétt í ríkisstjórn í nokkru landi eftir framferði sitt. Hvað hefur svona mikið breyst? Hv. þm. hefur svo sannarlega ekki réttlætt í þessari umræðu þau umskipti sem hafa orðið á hv. þm.

Hann sagði að einstaklingar gætu grætt í örfá ár á einkavæðingu bankanna og sent síðan reikninginn á ríkissjóð. Er það svo nú? Verður það svo eftir þessa breytingu? Ég spyr hv. þm.: Mun hann styðja hlutafélagavæðingu bankanna? Og ég spyr sérstaklega um 6. gr. þar sem er verið að tala um raunverulega einkavæðingu eða 35% af heildarhlutafé bankans sem eru 5 milljarðar kr. í báðum bönkunum, hv. þm. Það var þó ekki verið að tala um nema 1--1,5 milljarða á árinu 1991. Ætlar þingmaðurinn að styðja það að hlutafé úr bankanum, heildarhlutafé, verði selt af 35% hluta sem eru 5 milljarðar kr.? Þá er þingmaðurinn að gera það sem hann ekki vildi gera á árinu 1991, þ.e. að koma stórum hluta af bönkunum í hendur á kolkrabbanum. (SJS: Ljótt er þetta, Guðni.)