Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:14:20 (4307)

1997-03-11 18:14:20# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:14]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það þarf engan að undra að það sé trúnaðarbrestur milli stjórnmálamanna og fólksins í landinu vegna þess að þegar menn setjast í ríkisstjórn þá skipta þeir snarlega um skoðun í hinum stærstu málum eins og hér er gert. Ég hef aldrei orðið vitni að öðrum eins umskiptum og orðið hafa á hv. þm. og því yfirklóri sem hann býður þingheimi og þjóðinni upp á. Og að segja að það sé ekki verið að selja hluta af Búnaðarbankanum sýnir mér að hv. þm. veit ekki um hvað málið snýst vegna þess að hér er talað um 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanum um sig. Það er heildarfjárhæðin af öllu hlutafénu samanlögðu. Það eru ekki bara 35% til viðbótar heldur er það heildarfjárhæðin, 35%, sem á að selja og það eru 5 milljarðar kr.

Ég bið þingmanninn um eitt svar: Ætlar hann að styðja 6. gr. sem mun koma bankanum að verulegu leyti í hendurnar á fjölskyldunum fjórtán, kolkrabbanum? Ætlar þingmaðurinn að gera það? Það þarf ekkert að segja mér að á eftirmarkaði eða með einhverju þaki á eignaraðild eða atkvæðisrétti sé hægt að koma í veg fyrir að þetta fari í hendurnar á fjölskyldunum fjórtán.