Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:17:25 (4309)

1997-03-11 18:17:25# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GHH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:17]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Það er erfitt að taka til máls á eftir þessum skemmtilegu skoðanaskiptum kollega minna hér áðan. En í raun og veru þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. svo sjálfsagt sem það er. Það hefur verið augljóst mál árum saman og yfirlýst markmið ríkisstjórna í langan tíma að gera breytingar á rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna. Og vegna hvers er það? Það er vegna þess að núverandi rekstrarform er úrelt. Það hentar ekki lengur í nútímaþjóðfélagi að reka bankastofnanir í því horfi sem við höfum hér gert um áratuga skeið og því miður allt of lengi. Það er löngu tímabært að breyta formi þessara fyrirtækja í það horf sem hér er lagt til, þ.e. í hlutafélagaform þar sem um er að ræða miklu sveigjanlegri möguleika, miklu meiri sveigjanleika fyrir stjórnendur og aðra til þess að bregðast við breyttum aðstæðum.

Auðvitað eru margar færar leiðir í þessu efni og það er búið að hanga yfir þessu máli árum saman. Alþýðuflokksráðherrarnir sem gegndu embætti á undan hæstv. núv. viðskrh. héngu yfir þessu máli árum saman og komu því ekki áleiðis, m.a. vegna andstöðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur eins og hún var að kalla hér fram í áðan og hreykja sér af. En nú er mál að menn hætti að hanga yfir þessu. Það er búið að velja eina leið af mörgum færum leiðum og þá er rétt að setja punktinn aftan við og segja: Nú verður þetta mál klárað. Nú hættum við þessu röfli og klárum þetta mál til þess m.a. að eyða óvissunni sem hv. þm. Guðni Ágústsson talaði um og vissulega er til skaða og vandræða í öllum bankarekstri. Það þarf að eyða henni. Það þarf að komast að niðurstöðu og klára þetta mál. Auðvitað verður að klára það núna fyrst það er komið inn í þingið því að óvissa er eitur í starfsemi allra bankastofnana að því er varðar viðskiptamenn sem leggja fé sitt inn í slíkar stofnanir, fyrir lánardrottna sem lána þessum stofnunum peninga og ekki síður fyrir starfsfólkið sem á auðvitað vissan rétt og mikinn rétt að því er varðar starfsöryggi og vitneskju um sinn framtíðarhag í þessum stofnunum.

Kannski er aðalatriðið í þessu máli að nauðsynlegt er að skapa bönkunum sem starfa í landinu jafna og sambærilega samkeppnisstöðu. Það er gert með frv. Eftir þessar breytingar verða engir bankar með ríkisábyrgðir umfram aðrar bankastofnanir þegar málinu verður endanlega lokið. Það verður líka jafnræði á sviði skattamála. Það hallar á einkabankana og starfsemi þeirra að því er varðar ríkisábyrgðir í dag. Það má segja að það halli á ríkisbankana að því er varðar skattareglurnar í dag. Landsbankinn hefur safnað upp miklu tapi. Hann getur ekki hagnýtt sér það til skattalegs ávinnings eins og Íslandsbanki getur gert. Það er óeðlilegt. Þessar stofnanir eiga að starfa á sambærilegum grundvelli. Þær eru í samkeppni. Um það snýst þetta mál. Út á það gengur málið. Menn sem neita að horfast í augu við svona augljósa hluti eins og þetta bara vegna þess að þeir vilja hafa eitthvað sem þeir kalla ríkisbankakerfi eða þjóðbankakerfi, eru ekki að horfast í augu við staðreyndir og þeir neita því að við lifum á breyttum tímum og í gjörbreyttu viðskiptalegu umhverfi, eins og rakið hefur verið í þessari umræðu, ekki bara hérna innan lands heldur líka vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á alþjóðlegum vettvangi í þessum efnum og vegna þess að búið er að opna okkar þjóðfélag algjörlega fyrir fjármagnsstreymi inn og út og fyrir alls kyns áhrifum utan lands frá að því er varðar tilfærslur peninga, gjaldeyris o.s.frv. Við getum ekkert lifað hér eins og við búum á eyðieyju í þessu efni.

Það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal benti á hér áðan að það fjarar að sumu leyti hratt undan íslenskum bankastofnunum vegna þess að þær eru svo litlar og í þessu opna umhverfi geta menn einfaldlega leitað sér þjónustu annað. Og það er það sem stóru fyrirtækin á Íslandi gera og einnig ýmsir aðrir aðilar, ekki bara hin stóru fyrirtæki heldur ýmsir aðrir aðilar. Þeir leita út fyrir landsteinana með sín viðskipti og við viljum ekki missa þessi viðskipti úr landi. Við viljum reyna að halda þeim hér. Við viljum auðvitað hafa traustar, öflugar og stórar bankastofnanir á Íslandi sem geta sinnt atvinnulífi og einstaklingum eins og með þarf hérna í landinu. Þess vegna verða menn að horfast í augu við þessar breyttu forsendur og gera þessar stofnanir þannig úr garði, að því er varðar umhverfi þeirra, rekstrarramma og fleira þess háttar, að þær geti brugðist við nýjum tímum og breyttum aðstæðum og geti starfað við þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er, geti brugðist hratt við breyttum aðstæðum og að stjórnendur þeirra hafi það svigrúm sem þeir þurfa til þess að taka skjótar og snöggar ákvarðanir ef aðstæður breytast hratt sem þær auðvitað gera oft í alþjóðlegum viðskiptum og í bankamálum.

Það er einnig eðlilegt og verður afleiðing af þessu frv. að bankarnir, eins og önnur fyrirtæki, geti aflað sér aukins eigin fjár með hlutafjárútboði. Hvernig dettur fólki í hug að ætla að meina stórum fyrirtækjum eins og viðskiptabönkum að efla hag sinn með því að sækja sér aukið eigið fé? Hvernig dettur fólki það í hug í dag að hægt sé að leggjast gegn því? Það er eitt af því sem hefur staðið þessum bönkum fyrir þrifum, að þeir hafa ekki getað útvegað sér nægilegt eigið fé vegna þess að rekstrarform þeirra er þannig að það hefur komið í veg fyrir það.

Það er sömuleiðis eðlilegt að til þessara fyrirtækja séu gerðar arðsemiskröfur, að þau skili arði af því eigin fé sem í þeim er bundið, að eigandi þeirra, hvort sem það er ríkið eða einhverjir aðrir aðilar, fái greiddan eðlilegan arð af því fé sem bundið er í þessari starfsemi. Það mun auðvitað gerast ef hlutafjárformið verður ofan á að eigandinn sem mætir á aðalfund gerir kröfu um að arður verði greiddur og að eðlileg arðsemi verði af starfseminni.

Síðan mætti segja margt um fyrirkomulag yfirstjórnar og þess háttar í þessu máli. Það verður væntanlegra bankaráða að taka ákvörðun um það hvort það verður einn eða fleiri bankastjórar í þessum stofnunum. Auðvitað er það ekki í samræmi við þá stjórnunarhætti sem menn telja nú eðlilegasta að vera með fleiri en einn bankastjóra í svona bönkum, en það verður bankaráðanna að ákveða það og undirbúningsnefndanna að leggja drög að fyrirkomulagi yfirstjórnarinnar í þessum stofnunum.

Nei, það er engin ástæða til þess að vera lengur að velkjast með þetta mál sem er búið að vera að þvælast hér fyrir mönnum allan þann tíma sem ég hef setið á þingi, í tíu ár hafa haft menn haft uppi áform um að hrinda þessum breytingum í framkvæmd. (Gripið fram í.) Það er nauðsynlegt að klára þetta mál. Það á að útrýma óvissunni um það. Það á auðvitað að gefa skynsamlega aðlögun að þeim ákvörðunum sem verið er að taka hér og það á að marka skýlausa stefnu fram í tímann um það hvert menn vilja halda með málið. Og það vill svo til að það er gert í frv. Það er sagt: Við ætlum að auka við hlutaféð um 35% innan fjögurra ára eða það er opnaður sá möguleiki. Meira verður ekki gert á fjórum árum. Auðvitað er skynsamlegt að setja einhvern slíkan tímaramma. Þó að hann sé ekki nein heilög tala í sjálfu sér þá er verið að móta þarna ákveðna stefnu. Það er verið að gefa tiltölulega langan aðlögunartíma í þessu máli og það er bara heilbrigt og eðlilegt að gera það. Það er heilbrigt og eðlilegt og skynsamlegt að setja slík markmið þannig að allir þeir fjölmörgu aðilar sem að þessu máli koma, hvort sem þeir eru viðskiptamenn bankanna eða starfsmenn eða væntanlegir eigendur hlutafjár, viti hvert förinni er heitið, hvað fram undan er og hvernig á að standa að málum með þessi öflugu fyrirtæki þegar fram í sækir.

Síðan að því er varðar væntanlega sölu nýrra hluta, þá get ég tekið undir margt af því sem komið hefur fram í umræðunni. Það er eðlilegt og skynsamlegt að reyna að dreifa eignaraðildinni á svona voldugum fyrirtækjum. Auðvitað á að stefna að því. Það eru ýmis dæmi um það hér í sambandi við einkavæðingu að settar hafa verið sérstakar reglur sem eiga að tryggja að eignaraðild verði dreifð. Ég er sannfærður um að það verður engum vandkvæðum bundið í þessu máli. Ég er sannfærður um að það verður ekki erfitt að finna slíkar leiðir ef á annað borð verður markaður fyrir þessi hlutabréf, því að ábendingar Péturs H. Blöndals áðan geta átt við rök að styðjast, þ.e. að þessi bréf þyki ekki góð markaðsvara og enginn fáist til þess að kaupa þau. En það vitum við náttúrlega ekki fyrir fram, það vitum við ekki fyrr en á reynir á markaðnum. En vissulega þarf að búa þannig um hnútana að það verði eftirsóknarverður fjárfestingarkostur að eignast hlutabréf í Búnaðarbanka Íslands hf. og Landsbanka Íslands hf.

Dreifð eignaraðild. Það er eðlilegt að stefna að henni. Ég er sammála því sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði um það mál, þ.e. þau markmið sem hann talaði um í því efni. Hann er eins og Margrét Thatcher. Hann vill selja mörgum litlum aðilum hluti (Gripið fram í: Leiðum að líkjast.) í fyrirtækjum sem verið er að einkavæða. Margrét Thatcher vildi gera sem flesta að litlum kapítalistum og hv. þm. Guðni Ágústsson er sammála því og ég tek undir það með þeim báðum að það er skynsamleg og heilbrigð stefna og á við í þessu efni eins og þetta mál er allt í pottinn búið.