Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:32:22 (4313)

1997-03-11 18:32:22# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:32]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að votta að á síðasta kjörtímabili átti hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson drjúgan þátt í þeim umbyltingarkenndu breytingum sem gerðar voru í sambandi við bankamál, ekki síst það ár sem hann sat sem formaður í hv. efh.- og viðskn. En þetta frv. gerir ekki ráð fyrir því að leggja niður ríkisvald á Íslandi eða að ríkið hætti að gegna einhverjum almennum skyldum sínum. Þetta mál snýst um að breyta rekstrarformi á viðskiptabönkum, sem eru fyrirtæki í samkeppnisviðskiptum, í viðurkennt og almennt rekstrarform sem hefur ótal kosti umfram það sem núverandi form hefur upp á að bjóða og jafnframt að gefa fleirum kost á því að eignast hlut í fyrirtækjunum með það að markmiði í mínum huga að losa þarna um opinbert fé sem betur væri komið í annars konar starfsemi, hvort sem það er nýsköpunarsjóðurinn, sem hér á að mæla fyrir á eftir, eða í hinum almenna ríkisrekstri með hverjum þeim hætti sem menn komu sér saman um. Það verður seinni tíma mál að taka ákvörðun um það. En það er óskynsamlegt og óþarfi --- það er kannski aðalatriðið --- óþarfi að binda milljarða króna af skattfé almennings í starfsemi sem þessari þegar nógir aðrir eru vonandi til þess að taka hana að sér.