Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:16:12 (4320)

1997-03-11 19:16:12# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni fyrir þær upplýsingar sem hann hefur hér veitt um þau grundvallargögn sem þessi sérfræðinganefnd ríkisstjórnarinnar hafði til viðmiðunar og vann upp við sína undirbúningsvinnu. Að vísu kemur mér það eilítið á óvart að ekki hafi verið lagt af hálfu nefndarinnar og ríkisstjórnarinnar út í sjálfstæðar athuganir, heldur byggt á gögnum frá 1991 jafngóð út af fyrir sig og þau voru. Ég minni á það af því að ég ræddi það hér áðan og hæstv. ráðherra hefur ekki látið svo lítið að svara því, að þá daga sem ég sat í ríkisstjórn, m.a. 1993, var samþykkt ákveðið verklag við einkavæðingu þar sem kveðið var á um að úttekt skuli fara fram. Þar segir að fram skuli fara ítarleg úttekt á rekstri fyrirtækis og rekstrarumhverfi þess og hvernig einkavæðing hefur áhrif á þessa þætti. Það er ekki orð um það hér. Það er ekki aukatekið orð um það hér. (Gripið fram í.) Nei, hefði nú ekki verið eðlilegra að menn ynnu aðeins eilítið fram fyrir sig hér og gæfu okkur upplýsingar um það því að hér er verið að samþykkja þessa heimild, hér á þessum stað en ekki uppi í ráðuneyti. Hér eftir nokkrar vikur væntanlega á að samþykkja þá heimild að leyfa hæstv. ráðherra að selja.

Á hinn bóginn er það auðvitað stór yfirlýsing sem hér kom fram af hálfu hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar, að hann styður ekki fjölgun ríkisbanka og þó að það mál sé ekki hér til umræðu, þá þakka ég fyrir það að hann skuli hafa upplýst mig um það hér og nú. Kannski eru fleiri í stjórnarliðinu sem þannig háttar til um að þeir styðja aðeins sumt í þessum bankapakka ríkisstjórnarinnar en annað ekki. Ég trúði því satt að segja að flestir hefðu fengið snuð í munninn samanber þegar hv. þm. og baráttumaður gamall, Guðni Ágústsson, varð sáttur og alsæll með flest, en það eru nú komnir nýir baráttumenn í þessa sveit.