Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:19:17 (4322)

1997-03-11 19:19:17# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:19]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi þetta nú bara vegna þess að auðvitað er talsverður munur á því hvort það er árið 1991 eða 1997 þó ekki væri nema vegna þess að efnahagsumhverfið hefur gjörbreyst á þeim tíma. Þá voru hér erfiðleikatímar. Það var kreppa í atvinnulífi og ýmiss konar erfiðleikar. Nú er hins vegar blússandi uppgangur og góðæri þannig að það hefur veruleg áhrif á þróun vaxta og að öðru leyti á þróun peningamála í landinu. Það undirstrikar enn og aftur nauðsyn þess að hæstv. ráðherra geri þingheimi miklum mun gleggri grein fyrir því en hann hefur gert fram að þessu hvaða þróun hann sér verða á íslenskum fjármagnsmarkaði í kjölfar þeirra breytinga sem hann er að leggja til. Það þýðir ekkert að skila auðu í því sambandi. Það er ekki boðlegt. Og það er einmitt af þeim ástæðum, ég sé það núna, virðulegi forseti, að það var ekki að ástæðulausu að ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir óskuðum eftir því að hann svaraði því hér skriflega hvernig hann sæi þá þróun. Ég trúi því að sérfræðingar ríkisstjórnarinnar í þessum málum, sem út af fyrir sig hefur verið ýtt af þessum vagni á síðustu vikum af einhverjum orsökum, séu mér sammála um það, sérfræðingar í þessum málum eins og hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson sem skilaði þremur aðskiljanlegum frv. í hendur hæstv. ráðherra og hann henti þeim öllum. Það er ekki góð einkunn. Kannski er ástæðan fyrir því að þessi bankapakki ríkisstjórnarinnar er ekki jafn vel úr garði gerður og maður hefði kannski vonast til og ítarlegur að allri gerð, að menn hafa ekki notað þessa ágætu grunnvinnu sem hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson og fleiri hafa að öllum líkindum innt af hendi, heldur farið í einhvers konar fúsk og samningamakk við einhverja meinta andstæðinga þessara mála allra og úr orðið einhvers konar bastarður.