Störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 13:35:09 (4325)

1997-03-12 13:35:09# 121. lþ. 88.1 fundur 338. mál: #A störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[13:35]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Í umræðu sem fram fór á hinu háa Alþingi um samning við sauðfjárbændur haustið 1995 var eitt helsta þemað slæm staða bænda, þá sérstaklega sauðfjárbænda. Sá samningur sem þá var samþykktur gildir til ársins 2000 og var meiningin að nýta þann tíma sem skapaðist á samningstímanum til þess að líta á vandamál sauðfjárbænda sérstaklega, hvernig mætti grípa þar inn í og styrkja stöðu þeirra og þeirra búa sem lífvænleg geta talist í starfrækslu og við framleiðslu sauðfjárafurða.

Í umræðunni lofaði hæstv. landbrh. að skipuð yrði sérstök nefnd sem ætti að taka til starfa strax eftir áramótin 1995/96 og átti sú nefnd að kanna það sem ég sagði fyrr um stöðu bænda og úrræði til bóta. Í nefndinni áttu að sitja fulltrúar og aðilar vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum neytenda ef samningar næðust um slíkt og aðrir sem um landbúnaðarmál og þessa stöðu geta fjallað og komið heildstæðum tillögum til ráðherra. Síðan er liðið eitt og hálft ár og ekki bólar á neinum niðurstöðum. Eins og allir vita líður tíminn hratt og staða bænda fer versnandi ef eitthvað er, og nýjustu fréttir af stöðu þeirra er sú að þeir geta ekki lengur sent börn sín til mennta og stór hópur þeirra hefur orðið að taka börn sín úr skólum sem eru afar slæm tíðindi fyrir þessa stétt.

Samdráttur í sölu kindakjöts er einnig staðreynd og þrátt fyrir gríðarlega markaðssetningu og söluátak sem gert var strax haustið 1995 hefur sala lambakjöts dregist saman, á sl. ári um tæp 3%. Sala kindakjöts dróst t.d. saman síðustu þrjá mánuði ársins 1996 um tæp 20%. Sala á hrossakjöti dróst einnig saman um tæp 9% á sl. ári. Sala nautakjöts hefur aðeins aukist á árinu í heild en ef litið er á síðasta mánuð ársins, þ.e. jólamánuðinn, desember 1996, þá dróst sala á nautakjöti saman um 14%. Þannig að á flestum sviðum virðist þetta vera niður á við hjá bændum og því mjög eðlilegt að spurt sé hvað líði störfum þeirrar nefndar sem landbrh. átti að skipa og hefur væntanlega skipað. Þess vegna hef ég lagt fram eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. landbrh., virðulegi forseti, sem hljóða svo:

1. Hvaða samtök hagsmunaaðila eiga aðild að nefnd þeirri er skipa átti í upphafi árs 1996 og hefði það hlutverk að skoða vanda bænda og framtíðarsýn, ásamt því að marka stefnu í landbúnaðarmálum?

2. Hvert er hlutverk nefndarinnar samkvæmt erindisbréfi ráðherra?

3. Hvenær á nefndin að skila tillögum sínum til ráðherra?